Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 21:55:58 (2083)

1997-12-12 21:55:58# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[21:55]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að unnið hafi verið vel í þessari nefnd og ég efast ekkert um að hv. þm. hafi lagt þar gott til. Það er auðvitað nauðsynlegt að leggja þá vinnu til grundvallar stefnumótun í heilbrigðismálum. Ég er þess fullviss að það verður gert. Við erum að setja aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið. Það er vissulega mikil útgjaldaþörf þar og kallar margt að, en þess vegna er nauðsynlegt að leggja góða stefnumótunarvinnu til grundvallar.

Ég veit að ekki er langt síðan þessi ágæta nefnd skilaði áliti og ég er þess alveg fullviss að heilbrrh. mun leggja þessa vinnu til grundvallar í sinni stefnumótun og fylgja henni fram í ríkisstjórn og reyna að fá samstöðu um hana og ég hygg að svo muni verða.

Varðandi biðlista sem hafa verið til umræðu hér, þá er rétt að það er slæmt að hafa langa biðlista í heilbrigðiskerfinu. Þeir hafa ekki lengst og í einstaka greinum hafa þeir styrkst, eins og t.d. í bæklunaraðgerðum þar sem sjúkrahús utan Reykjavíkur hafa unnið gott starf í því, t.d. á Akranesi og Akureyri. Ef til vill þarf að skoða líka hvort hægt er að auka sérhæfingu sjúkrahúsa úti á landi og nýta þá aðstöðu sem þar er og létta á hér á höfuðborgarsvæðinu t.d. með samvinnu við sérfræðinga á stóru sjúkrahúsunum. Það eru ýmsir möguleikar í þessum efnum ef vel er að staðið.