Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:00:10 (2085)

1997-12-12 22:00:10# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:00]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að spyrja hæstv. forseta að því hvort gerð hafi verið breyting á þingsköpunum nú alveg nýverið. Ég hef hér þingsköp frá 1993 og ég varð þess var að hér í umræðu áðan var ekki fylgt þeirri reglu sem 54. gr. þingskapanna markar um það hvernig ræðumenn ávarpa eða hvert ræðumenn víkja ræðu sinni. Svo að ég vitni í þingsköpin segir hér, með leyfi forseta: ,,Ræðumaður skal jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en eigi ávarpa nokkurn einstakan þingmann.``

Ég er ekki að víkja til síðustu orðaskipta hér, virðulegur forseti, heldur nokkru sem tengist þessari umræðu svolítið fyrr. Ég tók svo eftir að einum fimm sinnum hefði verið vikið frá þessari reglu og í eitt skipti með að mér fannst heldur ósmekklegum hætti.