Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 22:02:11 (2087)

1997-12-12 22:02:11# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[22:02]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir undirtektirnar. Mér finnst að það sé nauðsynlegt að þingið í rauninni kveði skýrt á um hvaða reglur eigi að gilda og reyni að fylgja sínum reglum. Ef forsætisnefnd metur það að breyta þurfi þingsköpum, þá þarf auðvitað að leggja það fyrir þingið.

Mönnum finnst kannski að hér sé um algert aukaatriði að ræða og meinbægni að vera að nefna þetta, virðulegur forseti, og ég kannast við það að forsetar þingsins eru öðru hvoru að minna okkur á þetta. Ég tek það skýrt fram að það má vel vera að sá sem hér talar hafi gert sig sekan um það að fylgja ekki þessari reglu. Það getur alltaf hent. En í raun lít ég svo til að með þessu sé verið að skjóta ákveðnum skildi fyrir orðaskipti manna þannig að þau verði ekki óeðlilega persónuleg og ekki verði um það að ræða að þingmenn séu beinlínis að munnhöggvast og sem kannski verður þá óvægnara en ella og sem setur svona leiðinlegri blæ á umræðu í þinginu. Og það er, finnst mér, regla sem er rétt að reyna að varðveita, þ.e. þessa gömlu hefð og það var nú ástæðan fyrir því að ég sá ástæðu til að nefna þetta. Ég er ekki frá því að það sæki á þegar haldnir eru kvöldfundir eða þegar líður á dag að regla þessi sé ekki í heiðri höfð.