Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 23:19:30 (2095)

1997-12-12 23:19:30# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[23:19]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði í athyglisverðri ræðu hv. 4. þm. Austurl. sem ég vildi koma inn á í stuttu andsvari. Það er um vinnu fjárln., vinnu við safnliðina, þingsköpin. Margt athyglisvert kom fram hjá hv. þm. um þau efni.

Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að fara yfir reynsluna af úthlutun safnliða, sett um það ákveðnar reglur að hækkun safnliða ætti að sækja um bréflega eða skriflega til fjárln. en það þarf að fara yfir þessa reynslu. Sömuleiðis hefur fjárln. kynnt sér fjárlagagerð á Norðurlöndum og fór hluti nefndarinnar m.a. sérstaka ferð til þess til sænska þingsins sem er að breyta fjárlagagerð sinni mjög mikið. Það er alveg rétt að það væri skýrara og greinarbetra að hafa með hverjum málaflokki inngang um stefnuna í viðkomandi málaflokki. Ýmsar fleiri úrbætur mætti gera, t.d. að ræða forgangsröð í ríkisfjármálum á vorþingi. Það kæmi alveg til greina og auðvitað þarf að vinna í framhaldi af þessu og þá í tengslum við breytingar á þingsköpum. Það er ekki verk fjárln. einnar að þróa þessa vinnu heldur að sjálfsögðu forsætisnefndar þingsins og þingsins alls. Ég tek undir að þægilegra væri fyrir formann fjárln. og aðra nefndarmenn ef þeir sætu bara í fjárln. en þetta allt saman yrði að taka til athugunar í vinnu við breytt þingsköp.