Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 23:47:14 (2098)

1997-12-12 23:47:14# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[23:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn er að mæla fyrir tveimur litlum brtt. sem ég hef leyft mér að leggja fram og eru á þskj. 502. Maður gæti hugsað sér að flytja brtt. við margt í þessu frv. Fjölmörg þörf mál fá ekki þá úrlausn sem maður gjarnan vildi sjá í frv. sjálfu í byrjun, þrátt fyrir brtt. meiri hlutans sem væntanlega njóta hér tilskilins stuðnings á Alþingi og verða samþykktar ef að líkum lætur. Ég er að sjálfsögðu stuðningsmaður breytingartillagna minni hlutans sem minni hlutinn flytur sameiginlega.

Auðvitað er ýmislegt sem maður gæti hugsað sér að styðja hjá meiri hlutanum, en ekki verður hvaðeina eins og hverjum og einum líkar. Sennilega yrðu seint samin þau fjárlög sem allir væru ánægðir með, bæði útgjalda- og teknamegin. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þó mikið sé talað um góðæri og alveg óskaplega mikið þegar svo ber undir, þegar ríkisstjórnin heldur blaðamannafundi í ráðherrabústaðnum þá stendur góðærið alveg upp úr skýjum. Hins vegar er minna talað um tilraunir til að réttlæta niðurskurð eða naumar fjárveitingar til heilbrigðismála, menntamála og fleiri brýnna verkefna eða skerðingu á mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar. Í því sambandi er góðærið ekki notað sérstaklega sem rökstuðningur. Jafnvel þó það sé góðæri og tekjur ríkissjóðs hafi aukist, þá þarf að sjálfsögðu að gæta aðhalds. Mér er það alveg jafnljóst og hverjum öðrum.

Ég verð að vísu að segja, alveg eins og ég hef margsagt á undanförnum 2--3 missirum, að mér finnist hæstv. ríkisstjórn ekki halda að öllu leyti þannig á málum við efnahagsstjórnina að ég gæti talið það skynsamlegt. Ég tel til að mynda að það hefði ekki átt að grípa til jafnflatrar og almennrar skattalækkunar, sérstaklega ekki á hátekjufólk né hagnað fyrirtækja, eins og ríkisstjórnin hefur gert. Við þessar aðstæður hefði verið hyggilegra að halda meiri tekjum inni, bæði til að mæta brýnni og uppsafnaðri þörf í ýmsum geirum velferðarkerfisins en einnig til þess að reka ríkissjóð með raunverulegum afgangi og greiða niður skuldir.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar og keynískrar hyggju, ef svo má að orði komast, að skynsamlegt sé og óhjákvæmilegt sé að beita ríkissjóði og tekjuöflunartækjum hans að nokkru leyti sem hagstjórnar- og sveiflujöfnunartækjum. Þá gefur auga leið að á góðæristímum þarf að reka ríkissjóð með afgangi og greiða niður skuldir. Þá þarf að taka fé úr umferð ef svo má að orði komast, hvetja til sparnaðar svo eitthvað sé upp á að hlaupa þegar harðnar á dalnum. Ég tel með alveg sömu rökum réttlætanlegt og óumflýjanlegt að ríkissjóður væri að einhverju leyti þátttakandi í erfiðleikunum og niðursveiflu áranna 1988--1993 og fullkomlega réttlætanlegt út frá efnahagslegum og hagstjórnarlegum sjónarmiðum að reka hann með einhverjum halla.

Þær tillögur, herra forseti, sem ég ætlaði að mæla fyrir eru tvær. Þær varða fjárveitingar til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og Háskólans á Akureyri. Ég mun koma nánar að þeim hér á eftir en vildi fyrst nefna nokkur atriði sem ég flyt að vísu ekki breytingartillögur við en þyrfti þó að koma inn á. Þar er reyndar málaflokkur sem flestir, ef ekki allir, ræðumenn hér í umræðunum hafa eitthvað drepið á. Það eru að sjálfsögðu heilbrigðismálin og staðan í þeim efnum. Ég þarf ekki að endurtaka það sem þar hefur verið sagt um fjárþörfina og um það óraunsæi sem einkennir tilraunir meiri hlutans og hæstv. ríkisstjórnar til að skálda saman niðurstöður í þessum málaflokki. Vitandi þó að ekki mun halda á komandi ári og væntanlega þurfi að grípa til aukafjárveitinga og reddinga rétt eins og á þessu ári og hinu síðasta.

Efst í huga mér þegar ég velti þessu fyrir mér almennt eru þau vinnubrögð sem hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru verið að innleiða í öllum þeim geirum samfélagsins eða velferðarkerfisins. Hún er að dulbúa niðurskurð sinn, dulbúa atlöguna að velferðarkerfinu með því að færa velferðarstigið í landinu niður. Að sjálfsögðu er hæstv. ríkisstjórn og reyndar einnig fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili, ekki að gera neitt annað en að færa velferðarstig þjóðfélagsins niður. Þetta er hins vegar gert með ýmsum hætti, t.d. með því að dulbúa það eða færa í nýjan búning kerfisbreytinga og skipulagsbreytinga af einhverju tagi.

Hver er aðferð hæstv. ríkisstjórnar nú sem og að verulegu leyti á síðasta ári í þessu sambandi? Jú hún er ósköp einföld og hefur áður verið lýst en það má vel fara með þá vísu einu sinni enn: Byrjað er með því að fyrirskipa niðurskurð og sparnað, beint eða óbeint í formi þess að fjárveitingar eru beinlínis skornar niður eða það er ekki ætlað fyrir fyrirsjáanlegum og augljósum útgjöldum á komandi árum. Síðan horfast menn í augu við að ekki verði spítalarnir eða skólarnir reknir með þessum hætti. Ljóst er að 5 eða 10% vantar upp á raunverulegt rekstrarfé samkvæmt þörfum. Þá er búinn til pottur sem er svona um það bil 1/3 af nauðsynlegum fjárveitingum. Potturinn er þannig úr garði gerður að hann er sameiginlegur fyrir fjölda stofnana, fyrir öll sjúkrahúsin á landsbyggðinni, fyrir alla framhaldsskólana og því um líkt. Síðan er aðferðin sú að menn eru keyptir til að sætta sig við niðurskurðinn og þrengingarnar með því að hygla þeim úr pottinum, aurum sem þeir verða þá sjálfsagt að koma og biðja um í allri sinni auðmýkt og menn þykjast kannski hafa sloppið vel og komist vel frá hlutunum með því að fá helmingin af því sem átti að taka af þeim til baka í gegnum slíka ölmusupotta.

Það versta við aðferðir ríkisstjórnarinnar er kannski ekki endilega að viðkomandi stofnanir fái ekki raunverulega það sem þær þurfa til að reka sína starfsemi sómasamlega. Ekki er hægt að halda uppi þeirri þjónustu sem vera ætti, gæði menntunar eða heilsugæslu dragast niður á við. Það versta eru auðvitað stjórnunarhættirnir og samskiptahættir sem þarna er verið að innleiða. Ekki vantar að þessu séu valin fín nöfn. Ég veit ekki hvort ég hef náð því alveg rétt, herra forseti. Ég held að þetta hafi heitið núna síðast árangurs- og stýrinefndir og árangursstjórnunarsamningar. Getur það ekki verið, hv. formaður fjárln., að það sé nýjasta orðið á þumalskrúfuaðferðum, sem eru auðvitað gamla góða þumalskrúfan þegar allt kemur til alls, búin að fá á sig hin fínu heiti: Árangursstjórnunarsamningar, stjórnunarsamningar og stýrinefndir.

En það er athyglisvert, herra forseti, að sjá hvar stjórnin kýs að setja upp stýrinefndir og hvar ekki. Ég spurði að því í umræðu um fjáraukalög um daginn af hverju ekki væri sett stýrinefnd á utanrrn. eða t.d. varnarmálaskrifstofuna. Hún er svo úti á þekju að hún gleymir sínum eigin heræfingum og þarf að koma skríðandi í desembermánuði og biðja um aukafjárveitingar til að borga upp heræfingar frá því í sumar. Ekki er sett stýrinefnd á hið háa utanrrn. Þó það sé að fara hálfan milljarð fram úr fjárlögum á yfirstandandi ári þarf enga stýrinefnd þar. Nei, en stýrinefndum er þrælað upp þegar verið er að dulbúa niðurskurðinn á heilbrigðisnefndum á landsbyggðinni. Þá er fínt að kalla það árangursstjórnunarsamning, stýrinefndir, úttektir og tilsjónarmenn. --- Já, hvar eru nú tilsjónarmennirnir? Þeir eru alveg gleymdir. Var það í fyrra eða hittiðfyrra sem það hét tilsjónarmenn? Jú, það var um það bil þá. Ég á við, herra forseti, hvað á svona kjaftæði og rugl að þýða? Af hverju horfast menn bara ekki í augu við hlutina eins og þeir eru og kalla þá réttum nöfnum? Það er einfaldlega verið að dulbúa niðurskurðinn, þær þrengingar sem velferðarkerfið er látið búa við. Pólitíkin um þessar mundir er að eitt helsta vandamál okkar séu útgjöldin til skóla og heilbrigðismála, er það ekki? Miðað við áherslur þær sem hér eru hlýtur svo að vera. En svo ganga menn lausir annars staðar. Hvað er búið að eyða í iðnrn. og stóriðjuvitleysu? Hve marga tugi milljarða á hverju ári, kostar reksturinn á öllu markaðsbatteríinu og mönnunum á flandri út um allar jarðir að auglýsa Ísland sem paradís fyrir erlenda stóriðju þar sem sé lágt raforkuverð og litlar kröfur gerðar til umhverfisverndar o.s.frv. Það kostar sitt en þarf engar stýrinefndir þar. Þar eru bara aukafjárveitingar eftir þörfum af því að það er ekki vandamál þar þó að menn fari fram úr fjárlögum. Ekki virðist það heldur mikið vandamál þó að menn fari hálfan milljarð fram úr fjárlögum í hinu litla utanrrn. Þar þarf enga stýrinefnd, engan árangursstjórnunarsamning á utanrrh., enga tilsjónarmenn með varnarmálaskrifstofunni. Nei. En ef lítið sjúkrahús á landsbyggðinni lendir í því að fara nokkrar milljónir fram úr, þá skal setja þar tilsjónarmann og árangursstjórnunarsamning og fínerí.

Auðvitað er þetta harla dapurlegt, herra forseti, og á náttúrlega ekkert að láta menn komast upp með það. Aðeins geðleysi og aumingjaskapur í umræðunni kæmi í veg fyrir að hægt væri að fletta ofan af þessum staðreyndum og láta þær liggja fyrir, nokkurn veginn eins og þær eru. Menn koma hér og belgja sig út af þeim mikla árangri sem þeir hafi náð og talað fjálglega um byggðavandann og um hann kemur ein skýrsla á dag. Menn eru alveg gapandi hissa á fólksflóttanum til Reykjavíkur. Þingmenn stjórnarliðsins á landsbyggðinni skilja jafnvel ekkert í þessu, rjúkandi hissa og klóra sér í kollinum en svo skera þeir vegáætlun niður um milljarð. Það er ekki í neinu samhengi við byggðavandann, nei, nei, nei. Þrengingarnar í heilbrigðismálunum á landsbyggðinni eru ekki í neinu samhengi við byggðavandann. Þar hafa fjölmörg læknishéruð verið gerð mannlaus af því að menn hafa skorið niður starfskjör héraðslækna í dreifbýlinu, tekið af þeim staðaruppbætur og rýrt þannig starfskjör þeirra að þeir sjá sér ekki fært að sitja í sínum embættum. Gamalgrónir héraðslæknar á landsbyggðinni, t.d. í kjördæmi hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., hafa sárnauðugir flúið sín héruð eftir margra ára og jafnvel áratuga setu þar. Ég þekki suma þessa menn persónulega. Hvers vegna flýja þeir stöður sínar? Þeir gera það m.a. í mótmælaskyni við þá lítilsvirðingu sem störfum þeirra hefur verið sýnd og hvernig komið hefur verið fram við þá síðustu eitt til þrjú árin með því að reyta af þeim hluta þeirra staðbundnu réttinda og kjara sem þeim hafði tekist að ná í á undangengnum árum.

[24:00]

Þessi pottaaðferð, þessi pottablómarækt hjá ríkisstjórninni að setja alla peninga í potta er, herra forseti, svo ekki sé fastar að orði kveðið ákaflega ógeðfelld. Stjórnunarstíllinn og hugsunin sem þar liggur á bak við er mér a.m.k. ekki að skapi. Af hverju er ekki hægt að láta hlutina vera á sæmilega hreinlegum grunni gagnvart þessum rekstri eins og öðrum? Er ekki alltaf verið að tala um að menn vilji innleiða nýjar aðferðir með ábyrgð stjórnenda og samsama sig meira einkarekstrinum eða fyrirtækjarekstri varðandi árangur í opinberum rekstri? Halda menn að það sé þá gert svona? Halda menn að þetta sé vænleg aðferð til árangurs? Að brjóta stjórnendur í opinberum rekstri niður með því að halda þeim í bullandi óvissu um það á hverju einasta ári hvað þeir fái til síns rekstrar með því að láta þá þurfa að koma knékrjúpandi til að biðja um hluta af þeim fjármunum, sem fyrir liggur að þarf í rekstur þeirra, og búið er að ákveða að þeir fái en þeir skulu samt koma skríðandi til hinna háu ráðuneyta til að sækja einhvern hluta af því.

Hvernig er grunnurinn í fjárlagafrv. gagnvart skólunum? Menntmrh. ætlar að halda eftir nokkrum prósentum af árlegum rekstrarfjárveitingum til skólanna sem skólastjórarnir eða -stjórnendurnir eiga síðan að koma skríðandi upp í ráðuneytið til að sækja. Hvað er verið að gera með þessu? Það er auðvitað verið að breyta þeim samskiptum á þann veg að það gengur ekki upp, fyrir utan það að Alþingi er í raun að afsala sér fjárveitingavaldinu að verulegu leyti með þessu vegna þess að það eru auðvitað síðustu krónurnar í rekstrinum sem skipta mestu máli og völdin liggja sérstaklega í því að halda utan um þær. Ef Alþingi hættir að skammta nema 90--95% af því sem þarf til rekstrarins og lætur ráðherrana hafa meira og minna sjálfdæmi um afganginn, þá færast mestöll völdin þangað því að það er auðvitað það sem upp á vantar til að klára dæmið sem setur stjórnendurna í þá stöðu gagnvart ráðuneytinu sem raun ber vitni. Ég er ekki viss um að hinir háu herrar sem ráða ferðinni hjá stjórnarliðinu á Alþingi, og telja sig væntanlega þingræðissinna, hafi hugsað alveg til enda hvert þetta muni að lokum leiða, m.a. hvað varðar valdahlutföll og samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Kempurnar sem hér eru, núverandi sitjandi forseti og hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, --- finnst þeim þetta framför miðað við stöðu Alþingis og fjárln. að ganga svona frá hlutunum? Finnst mönnum það virkilega? Ég leyfi mér að spyrja, herra forseti, hvort menn hafi í rólegheitum velt því almennilega fyrir sér út á hvaða leið þeir eru að halda með þessu.

Auðvitað er það svo, herra forseti, eins og rækilega hefur komið fram að heilbrigðismálin sem málaflokkur eru náttúrlega í hinu hörmulegasta ástandi. Þau eru nánast í upplausn. Mönnum finnst að þetta sé of mikið sagt. Ég hef tekið eftir því að hæstv. heilbrrh. verður ætíð mjög hvumpinn þegar svona er tekið til orða. En staðreyndin er nú sú að þegar svipast var um og litið yfir stöðu heilbrigðismála fyrir nokkrum vikum, þó að þar hafi vonandi að einhverju leyti óvissu verið eytt með samningum t.d. við lækna sem að vísu á eftir að samþykkja, það best ég veit, þá var nánast allt í upplausn sem gat verið í upplausn. Rekstur stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, Akureyri og víðar, menn vita hvernig það mál stóð og stendur, fjárvöntun upp á hundruð milljóna og stjórnendur vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Hvernig stóð með lækna? Jú, kjarasamningar við þá voru meira og minna lausir og landflótti skollinn á. Hvernig gekk með sérfræðinga? Engir samningar við þá og eru ekki enn. Er það ekki þannig að enn þá er bullandi óvissa um hvað menn fá endurgreitt af þeim reikningum frá sérfræðingum sem þeir hafa verið að leggja út fyrir undanfarnar vikur og mánuði? Við vitum hvernig það gengur. Hvernig var ástandið í heilbrigðismálunum á landsbyggðinni? Fjölmörg læknishéruð auð og gífurlegir erfiðleikar í rekstri sjúkrastofnana og minni sjúkrahúsa úti um allt land o.s.frv. svo ekki sé minnst á ástandið í ráðuneytinu sjálfu. Og svo finnst mönnum það skrýtið og sérkennilegt, nöldur og leiðindi að stjórnarandstaðan skuli draga athyglina að því hvernig komið er í þessum málaflokki. Eðlilega segi ég, þeim sem fylgst hafa með þróun mála í heilbrigðismálum á Íslandi sl. 5--7 ár, hefur ekki dulist að hverju stefndi. Það þarf ekki að þekkja margt starfsfólk, hjúkrunarfólk, sjúkraliða, lækna eða aðra, sem á þeim vettvangi starfa, til að vita hvernig andrúmsloftið hefur verið að breytast til hins verra á undanförnum missirum og árum, hvernig vinnuálagið hefur verið að aukast og hvernig óánægjan hefur verið að gerjast á þessu sviði.

Ég held að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem af ýmsum ástæðum og skiljanlega hefur nokkuð lent inn í þessa umræðu allt frá því að verið var að ræða hér fjáraukalög, 1. umr., og ég gerði það að umtalsefni hversu fráleitur frágangur eða framkoman við fjórðungssjúkrahúsið þá var þar sem á grundvelli einhverra samninga sem gerðir höfðu verið, að sögn, milli borgarinnar og stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík, var þó um talsverða lagfæringu á þeirra málum að ræða, en fjórðungssjúkrahúsið fékk ekkert, sem var og er meira og minna í sambærilegum vanda.

Ég held, herra forseti, að það hvernig sigið hefur á ógæfuhliðina í rekstri þeirrar ágætu stofnunar, sem hér hefur ítrekað fengið hæstu einkunn fyrir ráðdeildarsemi og góðan rekstur á undanförnum árum, ætti að verða mönnum umhugsunarefni. Er það ekki nokkuð góður mælikvarði á það hvernig komið er þegar þær stofnanir sem hafa staðið upp úr hvað varðar aðhaldssemi og ráðdeild í rekstri undanfarin ár ráða ekki lengur við stöðuna og lenda í sjálfheldu með sín mál? Ég held það, enda er það í sjálfu sér viðurkennt og hefur ekki verið á móti mælt hér að þar standa menn frammi fyrir bláköldum staðreyndunum, að leggja verður að einhverju leyti meira fé til þeirrar starfsemi ef menn ætla að halda henni úti eins og kröfur eru gerðar um. Það er mergurinn málsins.

Þetta er ekkert flóknara en það, herra forseti, að fyrir liggur úti um allan heim, að þær þjóðir sem ætla sér að njóta góðs af framförum læknavísindanna hvað snertir framfarir í lyfjagerð, lækningatækjum, aðgerðafræði og öðru slíku, verða að láta auknar fjárveitingar jafnframt fylgja. Þetta verður að fara saman. Það er ekki hægt að fá annað án hins, það gerist ekki því að þessi tækni kostar sitt. Hún kostar fjárfestingar í tækjum, lyfjagjöf, húsnæði og öðrum búnaði, og síðast en ekki síst í menntun og sérhæfingu starfsfólks, kannski einkum þar. Þegar upp er staðið er það e.t.v. sá þáttur sem Íslendingar eru að vanmeta mest um þessar mundir, að við munum ekki ná að halda í horfinu og verða jafnframarlega í sérhæfðri og háþróaðri heilbrigðisþjónustu á komandi árum eins og okkur hefur tekist að vera eða tókst a.m.k. að verða um ákveðið árabil nema við getum jafnframt orðið þátttakendur í þeirri þróun sem er í gangi, er á bullandi ferð úti um allan heim þar sem háþróuð læknavísindi eru til staðar, að starfsfólkið verður menntaðra og menntaðra og sérhæfir sig meira og meira. Það mun að vísu verða okkur erfitt hvað við erum fámenn þjóð og lítil eining ef svo má að orði komast, jafnvel þó við sameinuðum það sem menn kalla hér í umræðunni stóru sjúkrahúsin í Reykavík. Það er dálítið athyglisvert og mér liggur við að segja fyndið að alltaf er talað um stóru sjúkrahúsin í Reykjavík eins og þau séu óvenjulega stór og leitun að öðru eins. En staðreyndin er náttúrlega sú, herra forseti, að þó að við sameinuðum þau, þá væru þau með allra minnstu stóru sérhæfðu nútímasjúkrahúsum á Norðurlöndum. Það er þannig. Þau væru í hópi þeirra allra minnstu. Það væru helst sjúkrahús á nyrstu svæðunum, t.d. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi sem væru þá sambærileg að stærð, þ.e. sjúkrahús sem reyna að halda úti fullkomlega deildaskiptri og sérhæfðri læknisþjónustu. Okkur er hollt, held ég, að hafa þær staðreyndir í huga þegar við erum að ræða þessa hluti og þá e.t.v. kemur á daginn að deilurnar sem hér standa eru að hluta til ekki reistar á réttum forsendum.

Menn eru að rífast um hluti sem eru kannski undir röngum formerkjum. Við eigum fyrst og fremst að byrja á því í umræðunni að spyrja okkur þeirra grundvallarspurninga hvort við Íslendingar ætlum að reyna að halda uppi heilbrigðisþjónustu hér á landi sem er í fararbroddi og jafngóð, helst betri, og best gerist í nágrannalöndunum sem við viljum bera okkur saman við.

Ef svarið er já, a.m.k. hvað varðar allar almennar greinar læknavísinda, þá verðum við auðvitað að sætta okkur við hvað þetta kostar. Við getum ekki fyrst tekið ákvörðun um það fyrra og sagt já við því, en neitað síðan að horfast í augu við að það þýði þá breyttar áherslur að einhverju leyti í okkar fjármálum. Við verðum að láta þennan málaflokk taka meira til sín. Og hvað er merkilegt við það þó að þannig breytingar séu að gerast? Það tala sumir um það eins og heimsendir sé í nánd ef hlutdeild málaflokks af þessu tagi er vaxandi á einhverju tímabili t.d. sem hlutfall af þjóðartekjum eða sem hlutfall af ríkisútgjöldum. En eru menn með því að segja að einhver gömul hlutföll aftan úr grárri forneskju eigi endilega við í nútímanum eða þau eigi að haldast um aldur og ævi? Nei, auðvitað ekki.

Staðreyndin er auðvitað sú að heilbrigðismálin allt frá grunnheilsugæslu og til sérhæfðrar læknaþjónustu yfir í umönnun við aldraða, fatlaða eða aðra slíka, er ósköp einfaldlega málaflokkur sem er alltaf að verða stærri og stærri hluti af þeirri daglegu og almennu velferð sem velmegunarríki heimsins byggja á og gera kröfur til. Aðrir málaflokkar að sama skapi þurfa þá kannski minna til sín.

Herra forseti. Ég er ekki sáttur við þann frágang sem hv. fjárln. hefur sýnt almennt séð hvað heilbrigðismálin snertir. Ég vil aftur koma sérstaklega að málefnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Mér fannst það hrakleg niðurstaða sem að lokum var lögð til af meiri hlutanum að fela vanda fjórðungssjúkrahússins í raun og veru inni í einhverjum potti sem Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á síðan að fara að fljúgast á um við hin landsbyggðarsjúkrahúsin. Og kemur þá upp einn ein hliðin á þessum pottablómamálum, þessu pottablómaveseni ríkisstjórnarinnar að í raun er verið að etja mönnum saman, aðilum sem vilja vera samherjar og vilja að sjálfsögðu ekki standa í innbyrðis togstreitu og spennu. En þetta hlýtur að skapa þannig andrúmsloft þegar búinn er til 200 millj. kr. pottur og það eiga öll sjúkrahús, utan Reykjavíkur, að fá úr þeim potti, togast á um einhverja fjármuni úr þeim potti beint eða óbeint í gegnum ráðuneytið að vísu sem millilið, til þess að brúa vanda sem er tvöfaldur eða þrefaldur að stærð. Þetta eru afar ógeðfeld vinnubrögð, herra forseti, svo ekki sé meira sagt. Ég hefði talið lágmark að fjórðungssjúkrahúsið hefði fengið a.m.k. 70--80 millj. til að mæta þeim uppsafnaða vanda sem þar blasir við á þessu ári og hinu síðasta. Það kann að vera að út úr þessum potti hafist upphæð sem slagar upp í það. En hvers vegna í ósköpunum var þá ekki hægt að ganga frá því hvaða hlutdeild það fengi í þessum efnum?

Ég geri að sjálfsögðu ekki lítið úr vanda annarra sjúkrahúsa á landsbyggðinni. Ég get nefnt sjúkrahúsið á Húsavík og Fjórðungssjúkrahús Austurlands í Neskaupstað sem er auðvitað ákaflega mikilvæg stofnun fyrir það svæði. En heila málið er það, herra forseti, að rekstur á þeim grunni sem menn á þessum stöðum hafa búið við undanfarin ár gengur auðvitað ekki upp til lengdar. Það skemmir innan frá og út í frá að búa þannig um hlutina. Á næsta ári held ég að lágmark væri að grunnur Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri yrði hækkaður um a.m.k. 50 millj. kr. Ég tek því svo sannarlega undir brtt. minni hlutans þar um sem flutt er á þskj. 481, ef ég man rétt.

[24:15]

Herra forseti. Þá eru okkur orð um vegamálin. Það er fyrst og fremst til að halda því til haga hér í umræðunni þannig að það sé enn einu sinni sagt að útkoman í þeim efnum er náttúrlega með hreinum ólíkindum. Útreiðin á hæstv. samgrh. Halldóri Blöndal er náttúrlega þvílík að leitun er á öðru eins, að einn ráðherra skuli vera flengdur svo og rassskelltur eins og hæstv. samgrh. af samráðherrum sínum og auðvitað stjórnarmeirihlutanum sem ber ábyrgð á þessu öllu saman og að menn skuli hýða sjálfa sig svona endalaust með hrísi eins og þarna er verið að gera. Ég skil bara ekkert í því, herra forseti, hvað vakir fyrir hv. þm. stjórnarliðsins, t.d. á landsbyggðinni, hvort þetta er einhver sjálfspíningarhvöt eða árátta. Hvers vegna langar hv. þm. Jón Kristjánsson svona austur á land í jólaleyfið með það í farteskinu að meira en milljarði króna verði stolið af mörkuðum tekjum Vegagerðarinnar á næsta ári? Meira en nokkru sinni fyrr í sögunni og er þó ferill hæstv. ráðherra Halldórs Blöndals býsna ljótur. En nú verður sett Íslandsmet, enn eitt Íslandsmetið í þessu, í miðju góðærinu. Það er nú ekki eins og þörfin hafi gufað upp allt í einu fyrir vegabætur. Það er grenjað á meiri framkvæmdir, bæði á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður á landsbyggðinni og einkum þar. Hvernig getur þetta þá orðið niðurstaðan? Hvernig getur þetta gerst --- í miðjum umræðum sem á nýjan leik hafa gosið upp um byggðavanda þar sem liggja fyrir fínar skýrslur, sumar vel unnar og góðar, eins og skýrsla Stefáns Ólafssonar, um að það eru ekki síst samgöngurnar sem í nútímanum verða alltaf mikilvægari og mikilvægari, sem eru ein af undirrótum og meginorsökum þessa byggðavanda. Og fólk nefnir það yfirleitt númer eitt, tvö og þrjú, þegar spurt er um hvað sé hægt að gera, að það sé að bæta aðstæður byggðanna og fólksins í þessu tilliti --- að bæta samgöngurnar. Maður skyldi þá aldeilis ætla þegar þetta fer allt saman, hin mikla umræða um byggðaröskunina og byggðaröskunin sjálf eins og hún er, þörfin fyrir úrbætur í vegamálunum og góðærið með auknum tekjum og auknum mörkuðum tekjum til vegagerðar, þá skuli því öllu vera stolið og rúmlega það. Ég kalla það ekkert annað en stuld á hinum mörkuðu tekjum Vegagerðarinnar, því við skulum athuga það að ríkissjóður er að fá dálaglegan búhnykk í formi þess sem hann fær sjálfkrafa í skatttekjum af umferðinni --- bróðurpartinn, eins og nú er komið. Að þá skuli fara á annan milljarð króna út úr þeim brýna framkvæmdaflokki, það skil ég ekki. Mér er alveg ómögulegt að skilja hvernig það gat orðið hin pólitíska niðurstaða eða niðurstaða sem a.m.k. stefnir í og að hv. þm. stjórnarliðsins, hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin öll og allir aðstandendur hennar skuli ætla sér með þetta veganesti inn í umræðurnar um nýja vegáætlun til 10 eða 12 ára, sem við að vísu heyrum fyrst og fremst draugasögur af hér í þinginu vegna þess að ekki hefur tekist samkomulag um að leggja hana fram, að sögn. Hún er einhvers staðar í hrakningum milli þingflokka stjórnarliðsins og innan þeirra.

En halda menn, herra forseti, að það verði mjög trúverðugt þegar fara á að segja mönnum, seinna á líftíma þessarar nýju vegáætlunar, að þá eigi að spýta í lófana ef upphafið verður svona? Ef upphafið verður verulegur niðurskurður frá þó gildandi vegáætlun og var hún þó hrein hörmung. Og ef upphafið á fyrsta ári hinnar nýju vegáætlunar verður meiri þjófnaður á tekjum Vegasjóðs en nokkru sinni fyrr í sögunni. Halda menn að það verði létt verk að sannfæra fólk um að samt standi til að gera bragarbót? Upphafið lofar ekki góðu, það verður a.m.k. seint sagt. Ef svona gengur í góðærinu, sem ríkisstjórnin gefur út litprentaða bæklinga um með reglulegu millibili, sjálfshólsbæklinga, í hinu skjalfesta góðæri ríkisstjórnarinnar, þá verði létt verk að sannfæra menn um að hvað sem tautar og raular á komandi árum muni verða gert betur ef skyldi harðna á dalnum á nýjan leik í efnahagsmálum undir aldamótin. Ætli einhverjum gæti þá ekki dottið í hug að þá verði nú ekki léttara að draga úr skerðingunni á hinum mörkuðu tekjum og auka þessi framlög?

Nei, þetta er harla dapurlegt, herra forseti, og manni verður stundum á að ætla að tengingar hafi einhvers staðar rofnað í þessum efnum öllum saman eða vírarnir hafi krossast vegna þess að niðurstaðan er algerlega, fullkomlega óskiljanleg. Hún er óskiljanleg út frá efnislegum forsendum og aðstæðum í málinu og hún er fullkomlega óskiljanleg pólitískt séð. Það er ekki glóra í henni frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að mjög skynsamlegur kostur þjóðhagslega séð væri að auka almennar vegaframkvæmdir og sérstaklega í þeim landshlutum sem fjærstir eru þenslusvæðinu á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg borðleggjandi og ég blæs á þau rök að slíkt væri einhver skaðlegur þensluvaldur meðan allt gengur laust á höfuðborgarsvæðinu og fjárfestingarnar eru gífurlegar bæði í einkageiranum en líka fyrir tilstilli opinberra aðila og yfir því hafa menn þó að segja.

Herra forseti. Kannski á þetta eftir að reynast erfið fæðing hjá stjórnarliðinu. Ég læt mér detta í hug að m.a. þessar fæðingarhríðir, þessi rosalega tangarfæðing vegáætlunar, sem hæstv. ráðherra lofaði í byrjun þings og marglofaði síðan í október og nóvember, viti hugsanlega á að stjórnarflokkunum reynist erfitt að koma þessu fram, og þá það. Þá tökum við því auðvitað ef þarna gætu hugsanlega orðið einhverjar úrbætur.

Áður en ég skil við vegamálin og málefni landsbyggðarinnar ætla ég að víkja að fyrri brtt. minni á þskj. 502. Það er brtt. við liðinn 02-210 Háskólinn á Akureyri. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja það til í allri vinsemd að Háskólinn á Akureyri fá sérmerktan lið til stofnkostnaðar á næsta ári. Mér finnst ákaflega snautlegt og metnaðarlítið, herra forseti, og skaði að ekki skuli vera ein einasta sála hér úr því ágæta kjördæmi þar sem háskólinn hefur aðsetur þó hann sé auðvitað málefni okkar allra, að þetta góða mál, sem menn hafa nú yfirleitt náð að sameinast mjög vel um og hefur verið eitt af því ánægjulega sem menn hafa getað bent á að væri að gerast, bæði á sviði menningar- og menntunarmála, æðri menntunar, og líka í byggðalegu tilliti, er ákvörðunin um uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri. Nú liggur það fyrir, samkvæmt ákvörðunum sem stjórnvöld hafa blessað í bak og fyrir og stutt, að háskólinn hefur flutt á nýtt svæði og fengið byggingar til afnota sem háskólinn er að taka í gagnið á Sólborg, svonefndu Sólborgarsvæði, ákaflega fallegu og heppilegu, vel staðsettu svæði nálægt miðpunkti Akureyrarkaupstaðar. Hinir dugmiklu stjórnendur sem þar ráða ríkjum hafa auðvitað stórhuga áform um uppbyggingu háskólans á þessu fallega háskólasvæði, sem ég leyfi mér að fullyrða að verði fallegasti háskólakampur á norðuhveli jarðar þegar það verður fullfrágengið og er þá langt til jafnað. Þeir eru þegar með áætlanir um umtalsverðar framkvæmdir sem er mjög brýnt fyrir alla þróun stofnunarinnar að hægt verði að hefjast handa um sem fyrst vegna þess að núverandi ástand er háskólanum mjög erfitt, að vera með starfsemina dreifða á mörgum stöðum. Slíkur er hugur heimamanna í þessu máli sem endurtekið hafa lagt mikið af mörkum, bæði bæjaryfirvöld, sveitarfélög á svæðinu og einkafyrirtæki og má þá t.d. nefna þegar Kaupfélag Eyfirðinga lagði til húsnæði um skeið undir sjávarútvegsdeild háskólans á sínum tíma.

Nú er Akureyrarkaupstaður tilbúinn að fjármagna byggingu rannsóknarhúss gegn endurgreiðslu með tilteknum hætti á síðari tíma. En það er í sjálfu sér, herra forseti, sjálfstætt mál sem auðvitað á að klára tafarlaust og mér er eiginlega alveg óskiljanlegt hvernig menn geta gaufast við það vikum og mánuðum saman að klára slíkt mál. Eftir stendur það að háskólinn sjálfur þarf tafarlaust að komast af stað með sín byggingaáform og það er óeðlilegt, herra forseti, að í ljósi þeirra aðstæðna, svo ekki sé nú talað um hversu metnaðarlaust það er að ekki skuli koma liður inn undir formerkjum Háskólans á Akureyri sjálfs þar sem hann fær tiltekna stofnkostnaðarfjárveitingu. Það er fullkomlega metnaðarlaust. Mér er að vísu ljóst að í óskiptum lið er vísað í, samkvæmt grg. fjárlagafrv., að til undirbúnings skuli renna um 25 millj. en það er samkvæmt orðanna hljóðan eitthvað sem heitir undirbúningsfjárveiting og gefur enga beina vísun um það að framkvæmdir sem slíkar eða stofnkostnaður sem slíkur sé hér með heimilaður af hálfu Alþingis, eins og auðvitað á að gera.

Ég hef þess vegna leyft mér að leggja hér fram, herra forseti, að háskólinn fái tiltekna merkta fjárhæð, 40 millj. kr., og mér finnst það ekki ofílagt. Ég held að það væri ákaflega skynsamleg og sniðug pólitísk aðgerð af meiri hlutanum að samþykkja þetta eða eitthvað í þessa veru. Og satt best að segja verð ég að vísa til þess aftur --- ég er kannski að verða kominn illilega úr takti við það sem eitthvert vit er í að gera í pólitík --- en einhvern tíma hefði maður nú látið sér detta í hug að það væri sniðugt af ríkisstjórn og meiri hlutanum að sýna svolítinn myndarskap í jafnröktu máli og þetta er, sem er í raun og veru jafnóumdeilt eins og það, að byggja upp og efla starfsemi Háskólans á Akureyri sem ég hygg að flestir ef ekki allir núorðið taki undir sem hið besta mál, eins og mjög er í tísku að segja um þessar mundir.

Herra forseti. Ég vil í öllu falli leggja þessa tillögu fram og vekja athygli á henni og stöðu Háskólans á Akureyri í leiðinni. Ég vonast til þess að einhverjum árangri megi ná í þessu máli og megi það verða til þess að auðvelda mönnum það þá er ég meira en tilbúinn að kalla þessa tillögu aftur frekar en að hún gangi hér til atkvæða og taka þá áhættu að hún verði felld, það þætti mér sannarlega miður. En það kemur þá á daginn, herra forseti, hvernig viðrar í þeim efnum.

Að lokum, herra forseti, hef ég samkvæmt venju leyft mér að leggja fram brtt. um nokkra hækkun á framlögum til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ég hef baksað við það býsna mörg ár, oft og lengi, að reyna að fá einhverja umræðu einhvern veginn í ósköpunum í gang, einhvern skilning á því að þessi frammistaða okkar Íslendinga hvað varðar framlög til þróunarsamvinnu er fyrir neðan allar hellur. Hún gengur ekki. Hún er enn þá verri en í Kyoto. Hún er þvílík niðurlæging fyrir þessa ríku þjóð, sem er víst samkvæmt mælingum bestu manna u.þ.b. fimmta ríkasta þjóð í heimi í augnablikinu hvað varðar þjóðartekjur á mann og þar fram eftir götunum og vilja þó sumir meira að segja efast um að rétt sé mælt. Margir halda því fram að í reynd séu Íslendingar enn þá betur settir og samkvæmt öðrum mælikvörðum erum við oft í annaðhvort fyrsta eða öðru sæti, (GÁ : Hvað er þá að?) þegar lífsgæði af ýmsu tagi eru reiknuð. Já, ég skal segja hv. þm. Guðna Ágústssyni hvað er að. Það sem er að er að við leggjum skammarlega nánasarlega lítið af mörkum til okkar minnstu bræðra, eins og stundum var sagt á Íslandi hér áður fyrr. Kannski kannast hv. þm. við slíkt orðalag úr uppvexti sínum. Það er nefnilega þannig að frammistaða Íslands, hvað það snertir að leggja sitt af mörkum með eðlilegum hætti, hlutfallslega að sjálfsögðu, það er verið að tala um það, en ekki að við leggjum til stærri fjárhæðir en milljónaþjóðir eða neitt þvíumlíkt. Nei, að við leggjum hlutfallslega, miðað við okkar ríkidæmi, eitthvað sambærilegt af mörkum og aðrar þjóðir í okkar velmegunarhópi gera. En það gerum við ekki. Við erum neðan við allt sem neðarlega er á þeim lista. Við leggjum jafnlítið eða jafnvel minna af mörkum í þessum efnum og nokkur af ríkjunum sem flokkuð eru sjálf sem þróunarlönd. Skást settu löndin, sem eru flokkuð sem þróunarlönd, eru að reyna að veita t.d. bágstöddum nágrannaríkjum aðstoð og sum hver ráðstafa í það svipuðu eða jafnvel hærra hlutfalli sinna þjóðartekna en við gerum. (GÁ: Hvað leggur þingmaðurinn til?) Ég hef lagt til, nánast hvert einasta ár á Alþingi í bráðum 15 ár, að við hækkum þessi framlög. Ég hef prófað ýmsar leiðir í þeim efnum. Og núna liggur fyrir Alþingi frv., líklega í annað eða þriðja sinn, sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, um að farið verði út í sjálfstæða tekjuöflun megi það frekar verða til þess að við náum þessum framlögum eitthvað upp. Það var prófað á síðasta áratug að samþykkja ákveðna áætlun um hækkun slíkra framlaga í áföngum með beinum fjárveitingum á fjárlögum á nokkurra ára bili og það fór allt í vaskinn.

[24:30]

Það voru ekki ómerkari kempur en núverandi seðlabankastjóri og þáv. hæstv. forsrh. ef ég man rétt, Steingrímur Hermannsson, sem var einn af forgöngumönnunum í því máli og ég leyfi mér að segja, að Alþingi hafi einróma líklega á árinu 1985 eða svo samþykkt slíka áætlun og næstu ár á eftir lækkuðu framlögin og voru með því lægsta sem þau hafa nokkurn tíma verið, 1988, við stjórnarskiptin þá. Sú ríkisstjórn sem þá tók við völdum og stjórnaði landinu í verstu kreppu sem við höfum gengið í gegnum um langt árabil hækkaði að vísu þessi framlög hvert einasta ár, en nú hefur aftur sigið á ógæfuhliðina. Ég legg þess vegna til, herra forseti, að þetta framlag verði hækkað um 50 millj. kr. Til vara gæti ég vísað í þær tillögur sem eru í frv. því sem ég nefndi og liggur fyrir þinginu og kveður á um að þessar fjárveitingar verði hækkaðar í áföngum á næstu árum, annars vegar með beinum framlögum á fjárlögum og hins vegar með sjálfstæðri tekjuöflun sem verði í formi þess að leggja sérstakt álag á tekjuskatt lögaðila og hátekjuskatt einstaklinga. Það er a.m.k. tilraunarinnar virði, herra forseti, finnst mér að reyna að fá menn til einhverrar umhugsunar um þessi efni með tillöguflutningi af þessu tagi.

Aftur má minna á það að ef okkur gengur ekkert að koma þessu upp á við í miðju góðærinu, hvenær ætli það heppnist þá? Ætli menn muni þá ekki nota það sem rök fyrir því, að nú sé þröngt í búi og erfitt að breyta einhverju í þessu ef aftur fer að halla undan fæti í þeim efnum, þ.e. á efnahagslegu hliðinni sem við a.m.k. vonum að verði ekki?

Það var lengi þannig, herra forseti, að Íslendingar skömmuðust sín svo mikið fyrir frammistöðu sína í þessum efnum að þeir reyndu að komast undan því að vera hafðir með í yfirliti Efnahags- og framfarastofnunarinnar um framlög aðildarríkja til þróunarsamvinnu. Það var á árabili sem Íslendingar duttu alltaf út úr þeim skýrslum og það var erfitt stundum að fá almennilegar upplýsingar um það hvar við stæðum vegna þess að þetta vandamál eða leyndarmál var falið. Frammistaðan þótti svo skammarleg að menn reyndu að fela það á alþjóðavettvangi hvernig þetta mál stóð. Auðvitað er það ekki hægt sem betur fer, þá komumst við ekki upp með slíkt, og nú skipar Ísland þennan vafasama heiðurssess að leggja langminnst af mörkum nánast allra aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar og náttúrlega langminnst miðað við það hvar við erum á velmegunarskalanum í þeim hópi. Það getur vel verið að mönnum finnist það allt í lagi. Það getur vel verið eða a.m.k. ímynda ég mér að sömu mönnum, sem finnst ekkert tiltökumál að fara til Kyoto og hafa það eina erindi þangað að reyna að biðja um undanþágu til þess að menga jörðina sem allra mest, finnist líka allt í lagi að Ísland verði frægt að endemum fyrir það að leggja ekkert af mörkum sem heitið getur til þróunarsamvinnu í heiminum, til að hjálpa fátækustu ríkjum heims. Það getur vel verið að það sé bara þannig og þá er best að menn horfist í augu við það og segi að þannig vilji þeir hafa það. Það ber að vísu að taka fram, hvað almenning snertir, að þá er þessu ekki svo farið. Almenningur sýnir það ítrekað með frjálsum söfnunum, með miklum stuðningi við hjálparstofnanir að hér er mikill vilji fyrir því að leggja sitt af mörkum. Ég hygg að miðað við alþjóðlegan samanburð sé Ísland alveg þokkalega statt hvað það snertir, að hjálparstofnanir og frjáls félagasamtök ýmis safni hátt upp í það hlutfall sem samþykkt Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir. Það er þannig hugsað svo þingmenn hafi það í huga að hjálparstofnanir og félagasamtök leggi af mörkum kannski sem nemi um 0,3% af landsframleiðslu en opinberir aðilar sjái þá um afganginn, þ.e. 0,7% sem á vantar til að fylla upp í þetta eina prósent sem viðmiðunin er. Ég leyfi mér að giska á að framlög Rauða krossins, Hjálparstofnunar kirkjunnar og fjölmargra bæði nýrra og eldri frjálsra félagasamtaka og klúbba leggi samtals fram fjárhæðir sem fari a.m.k. einhvers staðar á bilinu frá 0,2--0,3%. Það er ekki frammistaða sem nein þörf er á að skammast sín fyrir, þ.e. frjáls framlög almennings. Það bendir þá fyrst og fremst til þess að ekki sé samræmi milli vilja almennings í landinu í þessum efnum og þeirra sem ráðið hafa ferðinni í stjórnmálunum og haft meiri hlutann á Alþingi, að það er fyrst og fremst okkar hlutur sem eftir liggur sem hér höfum starfað. Það eru mér nokkur vonbrigði, herra forseti, satt best að segja, sem kom hingað ungur og áhugasamur maður fyrir býsna löngu síðan og átti mér það m.a. sem hugsjóna- og baráttumál að reyna að leggja mitt af mörkum að bæta eitthvað úr þessari skammarlegu stöðu okkar, en ég hef ekki haft meira erindi en þetta enn þá sem komið er a.m.k. (Gripið fram í.) sem sennilega þýðir að ég verð að sitja hérna lengi enn til þess að halda áfram að vinna að því máli.