1997-12-13 00:50:31# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[24:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er orðið nokkuð áliðið nætur og ekki margt um manninn í þingsal en mannval ágætt engu að síður því á meðal annarra eru hér formaður og varaformaður fjárln. Mig langar til að byrja á því að fjalla örlítið um fjárlagafrv. og nýmæli sem þar er að finna.

Þau fjárlög sem eru til umræðu eru athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Frv. er með breyttu sniði frá því sem áður var. Það er sett fram á rekstrargrunni sem kallaður er, en ekki greiðslugrunni eins og áður hefur tíðkast. Þetta er í samræmi við ný lög um fjárreiður ríkisins sem voru samþykkt fyrr á þessu ári en því hefur verið haldið fram að kostir þessarar framsetningar séu þeir að betra yfirlit fáist yfir tekjur og gjöld, skattheimtan og tekjujöfnun verði sýnilegri. Þessi bókhaldsmáti gerir og ráð fyrir því að allar skuldbindingar verði sýnilegar, þar með taldar lífeyrisskuldbindingar sem nú er stofnað til og eru til framtíðar. Samfara þessu eru ýmsar breytingar gerðar. Þar á meðal eru markaðir tekjustofnar B-hlutastofnana á borð við Ríkisútvarp og sjóða ýmissa, Þróunarsjóðs sjávarútvegs og ýmissa sjóða landbúnaðarins, tekjustofnar þeirra eru skilgreindir sem tekjur ríkissjóðs en þessar tekjur færast síðan sem tilfærsluútgjöld frá ríkissjóði til þessara stofnana. Þetta kann að vera allt til að gera hlutina sýnilegri en ég vil benda á eina pólitíska þýðingu þessara breytinga.

Fram til þessa hafa menn litið svo á að Ríkisútvarpið, svo að dæmi sé tekið, sé sjálfstætt. Menn hafa haft á orði þar á bæ að stofnunin fái ekki krónu úr ríkissjóði, hún afli sinna tekna með auglýsingum og fái afnotagjöld frá hlustendum. Nú er þessi tími liðinn. Hún er á framfæri ríkissjóðs samkvæmt skilgreiningum fjárlagafrv. Hið sama gildir um þá sjóði sem ég nefndi og eru fjármagnaðir með framlögum frá sjávarútvegi annars vegar, sjóði sjávarútvegsins, og frá landbúnaðinum hins vegar. Í þeim skilningi hefur verið litið á þá sem sjálfstæða sjóði en nú með þessum breytingum eru þeir á framfæri ríkissjóðs. Þetta kann að skipta ekki ýkja miklu máli í augum margra en ég vil benda á þá pólitísku þýðingu sem þetta kann að hafa og til þess er nú leikurinn gerður af hálfu þeirra sem nú róa að því öllum árum að umskapa þjóðfélagið. Það kunna að vera ýmsir kostir við þessa framsetningu. Ef sú yrði raunin í framtíðinni að allar sértekjur og öll þjónustugjöld yrðu skilgreind og skráð í fjárlögum --- þannig er það nú enn að alla vega lögboðin þjónustugjöld eða þau gjöld sem eiga sér einhverja stoð í lögum er að finna í fjárlögum --- þá held ég að þegar fram líða stundir og ef eimreið hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar dyggilega knúin áfram af kyndurum Framsfl. verður ekki stöðvuð, ef hún nær sínum leiðarenda, þá eigi eftir að verða breyting á þessu, spái ég. Hugmyndafræði frjálshyggjumanna í Sjálfstfl. gengur út á að keyra ríkisútgjöldin niður, hafa þau öll sýnileg og til sýnis en þjónustugjöld og sértekjur stofnana verði dulin í framtíðinni. En hitt skal allt vera til sýnis, sérstaklega þegar sjúkir og fatlaðir eiga í hlut, samanber hinn ósmekklega vasabækling ríkisstjórnarinnar um fjárlögin, vasafjárlögin sem svo voru nefnd en þar var rækilega tíundað hvað fatlað fólk kostaði samfélagið. Það var reyndar hugsun sem gengur þvert á það sem boðað hefur verið af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Hér var sérstakur talsmaður fatlaðra hjá Sameinuðu þjóðunum fyrr í vikunni til að fjalla um reglur Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra. Ég minnist þess ekki að hann hafi verið spurður sérstaklega um vasafjárlög ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar en mér segir svo hugur að sá bæklingur hefði ekki verið honum að skapi því inntakið í boðskap þessa manns --- Bengt Lindqvist hét hann --- var að manneskjurnar væru ólíkar en ættu kröfu á því að búa við áþekk réttindi og allar við mannréttindi. Tilkostnaðurinn við að rétta hlut fatlaðra væri ekki byrðar sem samfélagið bæri þeirra vegna, þ.e. hinna fötluðu, heldur sjálfs sín vegna. Það vildi láta líta á sig sem mannréttindasamfélag. En í vasaútgáfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hins vegar er rækilega tíundað hvað hinir fötluðu kosti samfélagið og eru þeir skilgreindir sem byrðar á því samfélagi.

Það sem ég er að leggja áherslu á er að hugmyndafræði frjálshyggjumanna gengur út á að keyra ríkisútgjöld niður, hafa þar allt sýnilegt og til sýnis nema, og það held ég að sé fyrirheitna landið, þjónustugjöldin, álögur sem verða til innan stofnana. Þar er stefnt að því að gera allt ósýnilegt. Þjónustugjöldin eiga að vera á valdi einstakra stofnana og við sjáum frumdrögin að þessu í fjárlagafrv. Þar er talað um skólagjöld. Það á að vísu enn að setja reglur fyrir skólana um skólagjöld, ólík skólagjöld eiga að koma þar til sögunnar. Það er verið að undirbúa sjálfstæði stofnana að þessu leyti að innheimta gjöldin meðan þau eru lögboðin. Þá er þau að finna í fjárlagafrv. og opinberum textum. En þegar fram líða stundir verður horfið frá því. Það er minn spádómur, ef þessi stefna nær fram að ganga. Og til þess að formúlan gangi síðan endanlega upp, þá er búið til nýtt launakerfi þar sem forstöðumenn geta ráðstafað fjármunum sem skapast með sértekjum eða með því að reka fólk, með því að fækka fólki. Þeim fjármunum eiga þeir að geta ráðstafað að eigin vild, jafnvel til launahækkana og þannig er verið að byggja inn í sjálft kerfið, innviði hverrar stofnunar, hvata til þess að koma á þjónustugjöldum. Í allri hugmyndafræði og framsetningu ríkisstjórnarinnar og þar með þessu fjárlagafrv. er unnið að því að skapa þetta kerfi. Þetta vildi ég segja um hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar. Mér finnst afskaplega sorglegt hlutskipti fyrir Framsfl. sem er um margt ágætur flokkur og nýtur stuðnings margra ágætra félagshyggjumanna, að sá flokkur skuli gerast kyndarasveit í járnbrautarlest Sjálfstfl. Reyndar er hlutskipti Framsfl. dapurlegt fyrir margra hluta sakir nú þessa dagana.

[25:00]

Þeir láta sér ekki nægja að standa hér fyrir fjárlagafrv. þar sem þeir telja sig vera að gera mjög góða hluti með því að færa allt hér á snyrtilegan hátt í debet og kredit, telja að hér snúist allir hlutir um snyrtilegt bókhald á meðan þeir eru að reisa undirstöður fyrir markaðsvæðingu velferðarþjónustunnar.

Annað mætti nefna og það er sú stefna sem þeir reka í iðnaðarmálum. Menn virðast miður sín yfir því að hafa ekki náð meiri árangri í Kyoto. Ég skildi ekki betur á talsmanni ríkisstjórnarinnar sem talaði til þjóðarinnar í Ríkisútvarpinu í morgun en að hann teldi að árangurinn hefði mátt vera meiri og átti þá við að Íslendingar hefðu þurft að geta fengið leyfi til að menga meira. Það er verst að þarna var ekki talsmaður iðnrh. á ferðinni, en sá ágæti maður virðist sjá fátt annað í framtíðinni hér á landi en koma upp sem allra flestum álverum og olíuhreinsistöðvum. Sá sem talaði var talsmaður umhvrh. sem maður hefði haldið að ætti að halda uppi málstað umhverfisverndar. Þetta var nú eiginlega svona innskot þar sem farið var að ræða um hugmyndafræði þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr. Ég mun koma að henni síðar, enda má segja að fjárlagafrv. hverju sinni birti raunsannasta mynd af stefnu og hugmyndafræði hverrar ríkisstjórnar.

Það sem einkennir þetta fjárlagafrv. öðru fremur er það efnahagsumhverfi sem við hrærumst í og á ég þar einkum við það góðæri sem efnahagslífið býr við og vísa ég þar fyrst og fremst til fjármagns- og stórfyrirtækja sem búa við svo góðan hag að þess þekkjast fá dæmi í síðari tíma sögu, enda leggst allt á eitt, mjög hagstæð ytri skilyrði og ríkisstjórn sem er klæðskerasaumuð fyrir fjármagn og stórfyrirtæki en þeim mun óhagstæðari fyrir launafólk, þeim mun óhagstæðari fyrir aldraða, öryrkja og atvinnulausa. En alla þessa hópa hefur ríkisstjórnin valið sem sérstaka skotspóna sína. En fyrst að góðærinu og hvernig það hefur skilað sér í ríkissjóð.

Það er áætlað að á þessu ári verði tekjur ríkissjóðs 4,7 milljörðum meiri en samþykkt fjárlög fyrir 1997 gerðu ráð fyrir, enda hagvöxtur miklum mun meiri en gert var ráð fyrir haustið 1996. Þá var spáð hagvexti upp á 2,5% en hann virðist ætla að reynast verða 4,5%, enda hefur afkoma ríkissjóðs batnað að sama skapi. Afkoma fyrirtækja hefur verið mun betri en áætlað var og gert er ráð fyrir að tekjuskattar fyrirtækja skili um 5,3 milljörðum á þessu ári í stað 4,55 eða 750 millj. meira en fjárlögin höfðu gert ráð fyrir. Eignarskattar skila 200 millj. meiri tekjum en fjárlög 1997 gerðu ráð fyrir og koma um 2/3 hlutar þeirrar upphæðar frá fyrirtækjunum og þannig mætti áfram telja. Þannig má gera ráð fyrir 600 tekjuskattsmilljónum umfram það sem ætlað var og fleiri stærðir mætti nefna.

Í hagvaxtarspá fyrir komandi ár er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,5% en ekki má gleyma því að yfirleitt hefur Þjóðhagsstofnun og þeir sem spá fyrir um hagvöxt verið í varfærnari kantinum, yfirleitt verið með lægri prósentu en reyndin hefur orðið. Oft hefur þetta verið, grunar mann, í tengslum við kjarasamninga. Þá er eins og stofnanir þjóðfélagsins leggist á eitt um að telja kjarkinn úr launaþjóðinni með því að setja fram svartar spár. Ég veit ekki hvort það blandast eitthvað inn í það núna að fyrir dyrum standa samningar við sjómenn og svo náttúrlega þarf að sannfæra þjóðina um nauðsyn þess að koma hér upp fleiri álverum og olíuhreinsistöðvum o.s.frv. Spáin er sem sagt upp á 3,5% sem er þó mikill hagvöxtur og talsvert meiri en spáð er í iðnríkjum á næsta ári þannig að við erum að tala um talsverðan hagvöxt.

Það er samdóma álit manna að veruleg hætta sé á þenslu hér í efnahagslífinu sem er áhyggjuefni launafólki sem er með bundna samninga í mörgum tilvikum fram yfir næstu aldamót. Og þá skiptir mjög miklu máli að hafa bönd á verðbólgunni, að koma í veg fyrir þenslu og menn ræða það að sjálfsögðu hvernig það verði gert. Þar þarf tvennt að koma til að mínum dómi, mjög strangt verðlagseftirlit þar sem öll þjóðin þarf að leggjast á eitt um að reyna að halda aftur af verðsprengingum og þar þurfa að sjálfsögðu einnig að koma til varfærnislegar fjárfestingar og skynsamlegar. Íslendingar hafa verið óvarkárir oft á liðnum árum í þeim efnum og má minna á í því sambandi að á þenslutímum reistu Reykvíkingar stórhýsi á borð við Ráðhús og Perlu en drógu síðan saman seglin þegar kreppti að. Að sjálfsögðu átti þetta að vera á hinn veginn. Sem sagt, við þurfum á verðlagseftirliti og verðlagsaðhaldi að halda þar sem öll þjóðin leggst á eitt og við þurfum skynsamlega fjárfestingarstefnu.

Við vitum hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram í þeim efnum. Á meðan verkalýðshreyfing og Neytendasamtök sameinast um verðlagseftirlit til að halda aftur af verðhækkunum og verðsprengingum, þá gekk nú Póstur og sími hf. fram fyrir skjöldu undir merkjum samgrh. og keyrði upp verðlag á póst- og símgjöldum, svo maður nefni nú frægasta dæmið, og síðan hafa ríkisstjórn og ráðamenn dásamað frumkvæði Seðlabankans um að stuðla að vaxtahækkun. Þetta telja menn að verði til þess að slá á þenslu, fólk neiti sér um að taka lán. Ég bendi hins vegar á að skuldir heimilanna eru nú áætlaðar 374 milljarðar kr. Þessar skuldir hafa aukist verulega. Þannig hafa skuldir heimilanna í hlutfalli við ráðstöfunartekjur aukist úr 117,3% á árinu 1993 í 132,8% á þessu ári samkvæmt áætlun Seðlabankans. Þetta var ekki ýkjamikil hækkun sem Seðlabankinn gekkst fyrir nú á dögunum, 0,03% minnir mig að það hafi verið, en ef haft er í huga að við búum núna við mjög háa vexti og ef litið er á verðtryggð skuldabréfalán, þá liggja þau núna í 9% sem er mjög hátt. Árið 1990 var prósentustigið 8%. Þarna marar einu prósentustigi. Það voru gerðar tilraunir undir árslok 1993 með samræmdu átaki að keyra vextina niður. Það tókst að keyra þá niður um á annað prósent með samræmdu átaki, með handafli. Menn sameinuðust um það til hagsbóta fyrir atvinnulíf og heimili en það varði ekki lengi. Fjármagnskostnaðurinn, vaxtakostnaðurinn var aftur látinn æða upp á við, var hleypt lausum. Og nú er hann sem sagt einu prósentustigi hærri en hann var 1990 og nú er ég að tala um verðtryggð skuldabréfalán. Þá var hann 8% en núna 9%. Hvað skyldi þetta eina prósentustig þýða þegar menn eru núna að tala um það á léttvægum nótum sem sjálfsagða efnahagsráðstöfun að keyra upp vexti til að slá á þensluna? Hvað skyldi það þýða þegar við erum að tala um eitt prósentustig þegar skuldir heimilanna nema 374 milljörðum kr.? Við erum að tala þar um tæpa 4 milljarða, 4 þúsund milljónir króna sem verið er að velta yfir á heimilin í landinu með vaxtahækkunum og þetta er eina úrræði ríkisstjórnarinnar til að slá á þensluna. Eina úrræðið sem ríkisstjórnin hefur til að slá á þensluna er að keyra upp vextina. Og þegar þjóðin er að reyna að sameinast í verðlagsmálum, þegar verkalýðshreyfingin og Neytendasamtökin eru að sameinast um að reyna að halda verðlagi niðri með ströngu verðlagseftirliti, þá gengur ríkisstjórnin, þá gengur hæstv. samgrh. fram. Hann hefur forgöngu um það að láta Póst og síma keyra upp símgjöld og póstburðargjöld um tugi prósentna og það er ekki fyrr en þjóðin hefur sameinast um það í mótmælum að ríkisstjórnin treystir sér ekki til annars en að afturkalla hluta af þessum verðhækkunum. Við erum með öðrum orðum að tala um hættu á þenslu í þjóðfélaginu og ég er að benda á hvert framlag ríkisstjórnarinnar hefur verið til að slá á þensluna. Það hefur annars vegar verið þetta sem gengur reyndar í gagnstæða átt, að reyna að keyra verðlag upp og síðan hefur hún talið eina úrræðið vera það sem Seðlabankinn hefur haft forgöngu um, að keyra upp vextina. Ég ítreka það að vaxtastigið á Íslandi er hættulega hátt. Það er einu prósentustigi hærra en það var árið 1990. Og ef við færum það yfir á skuldabagga heimilanna, hvað það þýðir á einu ári? Þá erum við að tala um tæpar 4.000 millj. sem er velt yfir á heimilin í landinu og þetta hefur Seðlabanki Íslands forgöngu um að gera og er klappaður upp hvað eftir annað af ríkisstjórn Íslands. Menn óttast sem sagt þenslu í þjóðfélaginu.

Hér fyrr í kvöld hefur verið fjallað um ýmsa þætti fjárlagafrv. og menn hafa þar talað um mjög misvísandi málflutning. Þessi misvísandi málflutningur kemur ekki aðeins fram hér í þingsölum, annars vegar frá stjórnarliði og hins vegar stjórnarandstæðingum. Hann kemur einnig fram í fjölmiðlunum. Í fréttum sjónvarpsins var verið að klippa á borða, opna sjúkrahús, ársfundir spítala, allt með miklum glans og þannig mætti skilja á málflutningi talsmanna ríkisstjórnarinnar á hv. Alþingi að allt væri í himnalagi.

[25:15]

Hins vegar eru þeir sem vilja velferðarþjónustunni vel og ég efast nú reyndar ekkert um að allir geri það þó að ég gagnrýni ráðstafanir þeirra. Í málflutningi sínum draga þeir upp mynd sem þeir reyna að fegra vegna þess að inni á þessum stofnunum, inni á sjúkrahúsunum og inni í skólunum, er ekki verið að klippa á neina borða. Það er að vísu unnið mjög vel og unnið mikið þrekvirki í mörgum tilvikum. Inni á sjúkrahúsum landsins fer fram mikið og gott starf og þar hafa orðið miklar framfarir á liðnum árum og áratugum enda búum við við eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Rannsóknir og athuganir sem hafa verið gerðar hér á vegum OECD t.d. hafa sýnt fram á að við búum við mjög gott heilbrigðiskerfi þar sem við nýtum fjármunina mjög vel. En það virðist líka vera helsta áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar. Það er helsta áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar ef hægt er að sýna fram á að við stöndum sæmilega samanborið við aðrar þjóðir og þá þurfum við endilega að skera það niður. Það er einmitt það sem verið er að gera. Það er verið að þrengja mjög alvarlega að velferðarþjónustunni í landinu og sérstaklega heilbrigðisþjónustunni, reyndar menntakerfinu einnig. Það kemur t.d. fram þegar litið er á fjárvöntun sjúkrahúsanna í Reykjavík.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi ítarlega í máli sínu áðan um vanda sjúkrahússins á Akureyri. Hann vék að vanda sjúkrahúsanna víða á landsbyggðinni. Hann vék einnig að vanda heilbrigðiskerfisins í Reykavík en tók sérstaklega fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Í Reykjavík er það svo að samtals nemur halli frá fyrri árum 408 millj. kr. Áætlaður halli 1997 er tæpar 300 milljónir. Áætlaður halli 1998 er 901 milljón. Samtals erum við að tala hér um rúma 1,5 milljarða. Við alþingismenn höfum hér undir höndum gögn frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur þar sem þessar staðreyndir og tölur eru tíundaðar og það hefur komið fram í málflutningi forráðamanna þar á bæ að verði ekkert að gert þá þýði þetta að loka þurfi 100 rúmum. Það er verið að tala um að menn þurfi að losa sig við 200 ársverk. Hið sama á við um Landspítalann. Hvað erum við að tala um þegar við segjum 200 ársverk? Við erum að tala um að það þurfi að segja upp 400 einstaklingum. Við erum að tala um það. Svo segja menn að þetta sé allt í himnalagi og rýna ofan í einhverjar prósentutölur og reyna að blekkja þjóðina og telja mönnum trú um að allt sé í himnalagi, að ástæða sé til að vera klippandi á borða út og suður, að allt sé þetta í himnalagi. Það er það ekki.

Þetta kemur fram í gögnum sem okkur hafa borist frá sjúkrahúsunum. Þar kemur fram hversu alvarlegt ástandið er. Það var lesið upp úr þessum gögnum við umræðu hér fyrr í kvöld. Ég hlýddi á þá umræðu og ég hélt sannast sagna að það væri verið að lesa upp úr frásögn af neyðarástandi einhvers staðar, jarðskjálftum eða harðvítugum vinnudeilum eða einhverju slíku. Ég hélt það. Ég stóð í þeirri trú. En auðvitað var það rétt. Það var verið að lýsa neyðarástandi. Það var verið að vitna hér í minnisgögn starfsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem segir að fólk liggi á göngum og starfsfólk geti ekki sinnt sjúklingum.

Í kaflanum um öldrun í skýrslu vakthafandi starfsmanns, með leyfi forseta. Ég les upp úr þessari skýrslu:

,,Á B-4 eru einungis 20 rúm opin og þau voru full á mánudag og þriðjudag. Lagt var í eitt umframrúm aðfaranótt þriðjudags þar sem um neyð var að ræða.``

Starfsfólkið er að lýsa neyðarástandi. En það er eins og ríkisstjórninni komi þetta ekki við. En henni kemur annars konar neyð við og þar er skilningurinn miklu meiri. Hann kom t.d. fram í fjáraukalögum þegar framlög til utanríkismála voru aukin um 170 milljónir vegna opnunar nýrra sendiráða og viðhalds á fasteignum. Hér er líka að finna í brtt. meiri hluta fjárln. við fjárlagafrv. að 290 milljónir fara til að mæta útgjöldum vegna sendiráðs Íslands í London. Ég efast ekkert um að það þurfi að gera við sendiráðið í London. En það þarf líka að gera við Borgarspítalann. Á sama tíma og það er fullur skilningur á þörfinni á því að bæta sendiráðin í London og í Washington og opna sendiráð hér og út og suður þá er minni skilningur á því að bæta þurfi húsnæði Borgarspítalans. En viðhald þeirra bygginga hefur lengi setið á hakanum og ljóst er að það verður mjög kostnaðarsamt að taka á þeim vanda.

Ástandinu á Sjúkrahúsi Reykjavíkur er lýst sem mjög alvarlegu. Sagt er að Sjúkrahús Reykjavíkur sé háskalega illa farið af viðhaldsskorti. Áætlaður kostnaður vegna viðgerða utan húss er nærri 400 millj. kr. en viðhald innan húss mun kosta enn hærri upphæðir. Það er sem sagt mikil og brýn þörf á því að laga viðhaldið á sjúkrahúsunum og dæmi eru þess að leki sé þar í húsum og horfi til mikilla vandræða. Á þessu er enginn skilningur. En þegar þarf að laga sendiráð, þegar þarf að gera fínt fyrir sendiráðin og sendiherrana og partíin, þá er fullur skilningur. En á öldrunardeildunum eða gagnvart fötluðum eða gagnvart atvinnulausum, hvað skyldi mönnum helst detta í hug þar? Jú, það má ekki hafa atvinnuleysisbætur það háar að fólk hætti að nenna að vinna. Þannig er boðskapurinn. Þetta hefur verið boðskapurinn frá ríkisstjórninni undanfarna daga. Og ekki má láta fé af hendi rakna til sjúkrahúsanna eða til aldraðra eða til að bæta úr neyðarástandi aldraðra á sjúkrahúsunum eins og kemur fram í þeirri skýrslu sem ég var að vitna til. En sendiráðin, partístaðirnir fyrir fína fólkið, það þarf að hafa þá í góðu standi. Ég efast ekkert um að það þurfi að laga þetta húsnæði. En ég efast stórlega um að þetta sé rétt forgangsröðun. Ég efast stórlega um það. Ég hefði kosið að menn hefðu látið þessa peninga frekar renna til öldrunardeildanna eða til fatlaðra sem verið er að skerða eða til atvinnulausra sem þeir eru líka að skerða. En þetta sýnir hug ríkisstjórnarinnar og hvernig hún forgangsraðar. Ég held að þegar við skoðum þessi fjárlög þá veki eitt kannski mesta athygli og það er hve þetta er allt handahófskennt. Það er reyndar ekkert nýmæli. Svo hefur verið í langan tíma. Verið er að henda fram að áramótum 10 milljónum til viðbótar hér og þar og 100 milljónir koma til sögunnar á síðustu mínútunum. Þetta er handahófskennt til þess að bjarga neyðarástandi þar sem neyðin er mest, þó menn skilji náttúrlega neyðina best í sendiráðunum. Þannig eru menn jafnan að taka á einhverjum aðsteðjandi vanda sem er svo alvarlegur að það verður ekki undan því vikist að gera eitthvað í málunum, í stað þess sem við þyrftum að gera, þ.e. að fjárfesta til framtíðar. Þetta er reyndar nokkuð sem menn hafa talað um og ég efast ekkert um að menn vildu gjarnan gera, hvar í flokki sem þeir standa flestir, vegna þess að við vitum það líka að frjálshyggjumennirnir, hægri mennirnir sem njóta dyggilegs stuðnings Framsfl., vilja náttúrlega svelta þetta kerfi allt inn í einkavæðingu. Það vitum við. En ég geri þá kröfu til annarra sem eru ekki á því máli og það held ég að eigi við um einhverja ágæta sjálfstæðismenn og marga framsóknarmenn, að þeir reyni að hugsa þetta mál á annan hátt og reyni að fjárfesta til framtíðar.

Þannig hefur verið bent á það t.d. að með því að fjárfesta í svokölluðum sjúkrahótelum þá sé hægt að draga úr heilbrigðiskostnaði þegar fram líða stundir. Og það er engin tilviljun að við höfum lagt hér fram frv., nokkrir þingmenn Alþb. og óháðra, um tannlæknakostnað. Það eru ásamt mér hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Það liggur fyrir þinginu frv. um að auka framlag hins opinbera til tannlæknakostnaðar um 265 millj. kr. og þetta er sett fram núna í brtt. sem við höfum lagt fram við fjárlögin, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og ég, en það er til samræmis við það frv. sem ég vitnaði til áðan. Og til hvers er þetta sett fram? Ég ætla að vitna í niðurlagsorð grg. sem fylgir frv. okkar um þessar breytingar, með leyfi forseta:

[25:30]

,,Erfitt er að áætla nákvæmlega kostnað við breytingarnar en þegar kostnaður við þær er metinn ber að hafa í huga hinn mikla fjárhagslega ávinning sem hlytist af því að bæta tannheilsu þjóðarinnar. Það eitt að bæta tannheilsu og efla vitund ungs fólks um mikilvægi þess að vernda tennurnar mundi stórlega draga úr tilkostnaði þjóðarinnar við tannlækningar þegar fram líða stundir.

Að öllu óbreyttu má hins vegar gera ráð fyrir því að þær breytingar sem hér eru lagðar til mundu, að mati yfirtannlæknis Tryggingastofnunar ríkisins, hafa í för með sér útgjaldaauka fyrir Tryggingastofnun að upphæð 263,7 millj. kr.``

Til samræmis við þetta höfum við lagt fram þessa brtt., hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og ég, þar sem við leggjum til að tilkostnaður ríkisins við tannlækningar verði aukinn um 265 millj. kr.

Ég nefni þetta sem dæmi um fjárfestingu sem mjög miklar og sterkar líkur eru til að mundu skila sér í sparnaði þegar fram líða stundir. Á þessu eru nefnilega ýmsar aðrar hliðar. Á þessu sviði hófust miklar skerðingar upp úr 1991. Frá árinu 1992 var framlag hins opinbera til tannlækninga skert stórlega og þá var byrjað að setja á alls kyns komugjöld á heilsugæslustöðvar. Starfsfólk á heilsugæslustöðvum var tekið í námskeið í kostnaðarvitund. Það var sett á námskeið til að læra á sjóðsvélar og hvernig ætti að fara að því að rukka sjúklinga. Hér má minna á það að við höfum lagt fram frv. á Alþingi sem enn hefur ekki komið til umræðu, nokkrir þingmenn Alþb. og óháðra, þar sem við leggjum til þessi komugjöld á heilsugæslustöðvarnar verði afnumin. Ég nefni þetta því til stuðnings að það verði reynt að fjárfesta hér til framtíðar. Ég nefndi þar viðhaldskostnað bygginga, húsnæðismála og ýmsa þætti heilbrigðismála sem gæti orðið til að spara peninga þegar fram líða stundir. Menn hafa bent á það varðandi viðhaldið, eins og ég gat um áðan, að láti menn opinberar byggingar grotna niður eins og gert er, þá verður það mjög dýrt þegar fram líða stundir.

Það væri ástæða til að víkja að ýmsum öðrum liðum í þessu fjárlagafrv., vekja máls á því og mótmæla því að enn eina ferðina er gengið stórlega á lögbundinn tekjustofn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ætlunin er að taka 235 millj. kr. af þeim tekjustofni í ríkissjóð. Reyndar verð ég að segja að mér finnst það sérstakt áhyggjuefni hvernig horfir með þann málaflokk almennt. Mér finnst mikið áhyggjuefni að sá málaflokkur skuli fluttur yfir til sveitarfélaganna. Ég held að í þessu efni sem ýmsum öðrum séum við fyrst og fremst að apa eftir útlendingum. Það er nefnilega þannig í Evrópu að þar er það í tísku að færa verkefni almennt til sveitarfélaganna. Íslenskir embættismenn og pólitíkusar fara á fundi í Strassborg, Brussel og víðar og á fundunum er verið að segja frá því að þar í álfu sé einmitt verið að gera þetta, að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga.

En það er eitt sem gleymist. Eitt smáatriði gleymist. Sveitarfélögin í Evrópu eru miklu stærri en á Íslandi. Sveitarfélögin mörg eru meira að segja margfalt fjölmennari en öll íslenska þjóðin. Þessu gleyma menn en muna það eitt að formið var þetta að færa útgjöld frá ríki til sveitarfélaga. Það er í tísku í Evrópu að færa alla liði til sveitarfélaganna, skólanna, fatlaða, og því hljótum við að gera það sama á Íslandi. En það bara gleymist að einingarnar eru allt aðrar. Síðan vakna menn upp við það að menn hafa skert réttindi fólks með þessum flutningum. Í rauninni má einu gilda hvort það heitir ríki eða sveitarfélag sem á að fjármagna þessa starfsemi. Málið er að það verði gert sómasamlega. Og það er stórkostleg hætta á því að með þessum tilflutningi öllum verði réttindi fólks skert, að þá gerist það. Þess vegna finnst mér það vera áhyggjuefni sem er að gerast í þessum málefnum.

En vilji ríkisstjórnarinnar og afstaða finnst mér þó koma átakanlegast fram í stefnu hennar gagnvart atvinnulausum, lífeyrisþegum og öryrkjum. Og blekkingarnar þar eru verstar finnst mér. Það sem menn eru að gefa í skyn stöðugt er að menn ætli að passa upp á þessa hópa. Það urðu miklar deilur á sínum tíma þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar afnam eða skar á þá tengingu sem hafði verið á milli bótanna í tryggingakerfinu og launataxta. Menn bentu á það af hálfu stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingin benti á það og Samtök aldraðra og öryrkja bentu á það, allir bentu á að það, að sú hætta væri fyrir hendi að þetta mundi skerða kjör þessara hópa.

Nú er stigið skref í áttina. Það skal viðurkennt. Nú er sagt að kjörin eigi ekki að versna miðað við verðlagsþróun, aldrei fara neðar en verðlagsþróun --- þannig skil ég dæmið --- aldrei að verða lakari en verðlagsþróun. Það getur verið betra en ekki lakara en verðlagsþróun. Þetta er gólfið. Og það er mjög líklegt að þetta verði gólfið og þetta verði veruleikinn. Síðan segja menn: Nú getur það gerst --- og menn hafa haldið því fram að það hafi gerst --- að verðlagsþróun verði betri og hagstæðari en launaþróun og þá þýðir það það að kjör þessara hópa batni, verði betri en þau hefðu ella orðið. Þetta hefur verið sagt. Þetta hefur verið staðhæft. En hver er veruleikinn í þessu?

Veruleikinn er sá að menn voru að taka þessar vísitölur úr sambandi við launataxta sem hækkar langt umfram almenna launaþróun. Það er veruleikinn. Þegar menn koma lægstu launatöxtunum upp í 70 þús. kr., hvar verða þessar bætur þá? Staðreyndin er sú að menn eru að skerða kjör þessara hópa þó þeir láti líta út fyrir að annað sé upp á teningnum. Það er staðreyndin. (ÖS: Hvað ætlar BSRB að gera í þessu máli?) Það er staðreyndin, hv. þm. og ritstjóri DV, að ríkisstjórnin er að skerða kjör þessara hópa og það er alvarlegt og alvarlegastar eru blekkingarnar, þær blekkingar sem eru hafðar í frammi. Það er látið líta svo út að verið sé að standa vörð um kjör þessa fólks. Það er ekki verið að gera það. Það er búið til kerfi sem skerðir kjörin. Og ef það er ekki meiningin að skerða kjörin, hvað er þá því til fyrirstöðu að binda kjörin við launataxtann? (ÖS: Hvað ætlar BSRB að gera í þessu máli?) BSRB, Alþýðusambandið og reyndar öll samtök launafólks á Íslandi hafa mótmælt þessum skerðingum og krafist þess að kjör öryrkja, lífeyrisþega og atvinnulausra verði tengd launataxta á ný og þar hefur tilraunin verið sú og það er tilraunin í samfélaginu almennt að reyna að reisa kaupmátt kauptaxtans við. Hvað þýðir það? Það þýðir að hann hækki umfram verðlagsþróun, (ÖS: Hárrétt. Gott mál.) umfram þá þróun sem ríkisstjórnin ætlar að binda þessa hópa við. Markmiðið í samfélaginu, markmiðið í hreyfingu launafólks er að reisa þennan taxta við, láta hann þróast hraðar upp á við en verðlagið sem ríkisstjórnin ætlar öryrkjum að hvíla á. Það er gólfið sem er ætlað þeim. Enda hefur hæstv. félmrh. sagt núna á síðustu dögum að það sé eðlilegt og sjálfsagt og meira að segja réttlætismál og keppikefli að atvinnuleysisbætur séu lægri en lægstu kauptaxtar þannig að þær séu hvati til þess (ÖS: Allsherjarverkfall.) að atvinnulausir menn taki vinnu sem þeim býðst.

Hér er verið að ganga út frá því að atvinnulaust fólk sé atvinnulaust að eigin vali, langi til að vera atvinnulaust. Ég held að það sé leitun á þeim einstaklingum sem hér eru atvinnulausir og ekki vilja vinna. Og það sem alvarlegast er þegar litið er á kjör atvinnulauss fólks er það mikla tekjuhrun, tekjutap sem það hefur orðið fyrir því það er ekki nóg með að það missi vinnu sína heldur er það nú svo að þrátt fyrir allt, þótt yfirvinna sé að dragast saman og kunni að dragast enn meira saman á komandi árum, þá búum við enn í yfirvinnuþjóðfélagi og hinn atvinnulausi er ekki bara að missa fastakaupið. Hann er að missa bónusana og yfirvinnuna sem hann hafði þannig að það er um umtalsvert hrap að ræða. Og ef við tökum lægstu taxtana, t.d. í fiskvinnslunni, þá hefur fólk þar almennt talsvert umfram þá í alls kyns bónusum. En viðmiðunin er hins vegar þessi lági taxti og nú virðist það vera sérstakt keppikefli að koma atvinnulausu fólki undir þennan taxta.

Hvaða peningaupphæðir skyldum við vera að tala um? Hvaða peningaupphæðir skyldum við vera að tala um sem menn eru að hneykslast svona óskaplega yfir? Hverjar skyldu vera atvinnuleysisbæturnar nú um stundir? Hvaða peninga erum við að tala um sem á að reyna að halda í lágmarki? Það eru 57.339 kr. á mánuði. Það lifir ekki nokkur einasti maður af þessum peningum þannig að mér finnst það vera mikið áhyggjuefni ef ríkisstjórnin ætlar ekki að gera eitthvað marktækt í þessum málum og krafan er að sjálfsögðu sú að þessar bætur allar verði látnar þróast með því sem best gerist í þróun launataxtans og það hefur verið markmið kjarasamninga að undanförnu að reisa þessa lægstu taxta við. Menn hafa sett markið um næstu áramót að koma þeim upp í 70 þús. kr. og það er lágmark að þessir taxtar fari upp að sama skapi og er þó allt of lítið.

Að lokum nokkur orð um Atvinnuleysistryggingasjóð sem nú er skertur að því leyti --- það er eiginlega tvennt sem er að gerast --- tryggingagjaldið er að lækka, tekjustofninn er að dragast saman og talað er um að það sé eðlilegt þar sem atvinnuleysi sé heldur á niðurleið. Engu að síður erum við að tala um þúsundir Íslendinga sem eru án atvinnu, 5.000 Íslendinga sem eru án atvinnu. Það er verið að draga úr tekjum þessa sjóðs með því að lækka tryggingagjaldið. En á sama tíma er verið að setja auknar byrðar á sjóðinn. Þannig eru teknir núna út úr Atvinnuleysistryggingasjóði peningar til þess að fjármagna svæðisvinnumiðlanir. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því og í frv. og í öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar fram til þessa, að þetta yrði fjármagnað úr ríkissjóði, að svæðisvinnumiðlanir yrðu fjármagnaðar úr ríkissjóði. En nú á að taka þessa peninga úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Menn eru að tala þar um 100 millj.

[25:45]

Við skulum ekki gleyma því að auk þess sem menn eru að skerða tekjur sjóðsins og skapa honum aukin útgjöld þá var á síðasta ári settur sá baggi á sjóðina að fjármagna starfsmenntunarsjóð. Atvinnusjóður kvenna er tekinn úr Atvinnuleysistryggingasjóði líka. En við skulum líka muna að samkvæmt lagabreytingu sem gerð var er ríkissjóður lagalega ekki lengur ábyrgur fyrir sjóðnum. Það er gert ráð fyrir því að þar verði sjóðsmyndun og sjóðurinn verði sjálfstæður. Hann á að vera sjálfbær. Honum er búið slíkt lagaumhverfi. En um leið eru stjórnvöld að herða að honum með þessum hætti. Það er mjög mikilvægt að þetta verði ekki gert og þetta verði endurskoðað. Ég vil líka leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt varðandi lögin um vinnumarkaðsaðgerðir og vinnumiðlanir og allar þær stofnanir sem þessum lögum tengjast, að þar verði myndarlega að verki staðið. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þó í þessum nýju lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir sé að finna ýmislegt sem sé gagnrýnivert, og við höfum gagnrýnt það hér á Alþingi, þá er að finna í þessum lögum mjög mikilvæga réttarbót. Ýmislegt horfir til mikilla framfara þar ef rétt er að málum staðið. Þar er margt sem er mjög gott. Ég vil enda mitt mál á þeim jákvæðu nótum að við eigum, í stjórn og stjórnarandstöðu, að reyna að búa að þessum nýju stofnunum, Vinnumálastofnun og svæðisvinnumiðlunum, vel og myndarlega, rausnarlega, úr ríkissjóði. Við eigum ekki að gera það eins og ríkisstjórnin hefur lagt til og lagt er til með þessu fjárlagafrv., að kreista þessa peninga út úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Við eigum að láta ríkissjóð fjármagna þetta eins og gert var ráð fyrir. Við eigum að gera það og standa myndarlega að verki. Takmarkið á að vera, og það á að vera okkur öllum keppikefli, að útrýma atvinnuleysi á Íslandi.