Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 10:47:57 (2107)

1997-12-13 10:47:57# 122. lþ. 42.4 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv. 124/1997, GHelg
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[10:47]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara varðandi það frv. sem liggur fyrir um breytingu á lögum um sóknargjöld o.fl. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í sjálfu sér er um að ræða tilfærslu á milli kirkjugarða annars vegar og sókna hins vegar og út af fyrir sig er ég ekkert andvíg því hvernig það hlutfall skiptist. Það er hins vegar kannski meiri spurning hvort lögin frá 1987, um sóknargjöld, nr. 91/1987, þarfnist ekki bráðlega endurskoðunar. Það varð auðvitað mikil bylting hjá sóknum landsins þegar þau lög voru sett en það er jafnframt ljóst að feiknalegir fjármunir renna núna til kirkjusóknanna. Þá má spyrja sig hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þessar upphæðir miðað við að nú hafa fjölmargar sóknir staðið í miklum framkvæmdum og margt hefur verið fært til betri vegar og á einhverjum tímapunkti væri kannski ástæða til að forgangsraða á annan hátt í samfélaginu. Þetta er ekki sagt af neinum óvilja til kirkjusóknanna heldur held ég að það sé hreinlega skynsemisatriði að kanna þessi mál nokkru frekar.

Ég er heldur ekkert andvíg 4. gr. frv., sem nefndin breytti raunar í ákvæði til bráðabirgða, að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis verði undanþegnir greiðslu framlags til Kirkjugarðasjóðs árin 1998 og 1999. Hins vegar fer ekki á milli mála að hér er auðvitað verið að hækka sóknargjöld. Þau hækka sjálfkrafa miðað við aukna veltu í samfélaginu og hér er orðið um að ræða allmikla peninga sem eru 1,6 milljarðar. Nú er það svo að kostnaður kirkjugarðanna hlýtur að hafa minnkað verulega þegar útfararþjónusta var aðskilin að mestu leyti frá kirkjugörðunum og það kostar núna um 10 þús. kr. að taka gröf í kirkjugarði en hirðing garðanna nemur hins vegar um 30--40%.

Mér finnst líka ástæða til að staldra við að með reglugerð frá 1994 var kirkjugörðum gert skylt að greiða prestskostnað vegna útfara. Áður höfðu aðstandendur greitt þennan kostnað sem nemur nú um 12 þús. kr. vegna hverrar útfarar. Mér finnst það ekki vera verkefni kirkjugarðanna að greiða þessa upphæð og gæti séð fyrir mér breytingu á því. Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri til að upplýsa að það hefur komið í ljós að með því að svokölluð samkeppni er hafin um útfararþjónustu þá hefur það gerst að útfararkostnaður hefur aukist um 40% og það finnst mér ástæða til að hugsa aðeins um. Það er svo komið að það kostar líklega um eða yfir 200.000 kr. að jarða manneskju og um langt skeið hefur það verið svo að fátækt fólk hefur getað sótt til verkalýðsfélags sín um styrk til útfararkostnaðar. Eftir að þessi frjálsa samkeppni hófst í útfararþjónustu er svo komið að verkalýðsfélögin, stéttarfélögin, veita þennan styrk orðið sjálfkrafa vegna þess að það er mörgum venjulegum fjölskyldum ofviða að greiða þann gífurlega kostnað sem orðinn er við útfararþjónustu. Þetta vildi ég einfaldlega upplýsa hv. þingheim um því ég er ekki viss um að fólk viti það almennt og þetta er kannski það sem fólki er erfiðast að kvarta yfir. Það má segja að samkeppni sé góð og gild við vissar aðstæður en grun hef ég um að fólk sé ekki hlaupandi milli fyrirtækja til að leita eftir tilboðum til að annast útför ástvina sinna. Ég held að það sé ekki það sem fólk er best meðvitað um hvað varðar kostnað.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti skal ég ekki tefja afgreiðslu þessa máls. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sagði um úthlutanir á styrkjum og lánum úr Kirkjugarðasjóði. Það er afar ánægjulegt að sjá lista þar sem aðilar fá miklu meira en þeir biðja um. Það er sjaldgæft við úthlutun á fjármunum. Ég endurtek það sem ég hef sagt hér, ég tel að kominn sé tími til að endurskoða lög um sóknargjöld og væri kannski ástæða til að fá einhvern tíma yfirlit frá hæstv. kirkjumrh. um hvernig þetta fé, sem sóknargjöldin hafa skilað, hefur nýst því að það er fróðlegt að sjá hvort fjárþörfin hefur ekki minnkað eitthvað, a.m.k. hjá þeim sóknum sem hafa byggt myndarleg félagsheimili og aðstaða öll er orðin til hins betra, sem ber auðvitað að fagna. Við erum einu sinni í þeirri stöðu að við verðum að deila út fjármunum landsmanna þannig að öll svið samfélagsins fái sitt og þá er auðvitað spurning um að forgangsraða og ég held að það gæti verið kominn tími til að líta aðeins nánar á forgangsröðun varðandi þessi útgjöld.