Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 11:05:22 (2110)

1997-12-13 11:05:22# 122. lþ. 42.4 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv. 124/1997, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[11:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir það sem þingmaðurinn benti á og er ekki með ræðu minni að mæla með því að einhver prósentutala eða eitthvert hlutfall eigi endilega að vera tengt tekjuskattstofni, eins og hér er gert, en ég bendi á að þegar við höfum sett það í lög þá er fremur óeðlilegt að fara svo að valta á milli ólíkra þátta innan þess þar sem þessir tveir aðilar, kirkjugarðarnir og sóknarnefndirnar, hafa átt að fá sína hefðbundnu hækkun, að við förum þá með einhverjum hætti að flytja hlutföllin á milli.

Ég vil líka benda á það, af því ég tek undir það með hv. þm. að skoða þarf stöðu kirkjugarðanna úti á landi, að mér hefur verið sagt að mjög erfitt sé fyrir Kirkjugarðasjóð að þetta 15 millj. kr. framlag kemur ekki frá Reykjavíkurprófastsdæmi. Þarna er verið að laga eitthvað með prósentum en sjóðurinn sá þarf sannarlega á því að halda. Ég veit að það er erfitt, sérstaklega þegar ríkisstjórn hefur sett sér þau mörk sem þessi hefur að halda niðri fjárlagarammanum hvað sem það kostar, og þess vegna sér maður hvergi forgangsröðun eða einhvern sérstakan skilning á þörfum og ætla ég þá ekkert að bera þetta saman við aðra þætti sem okkur finnst mjög mikilvægir að gefinn sé forgangur. Það er mjög erfitt þegar alls staðar er haldið í og ekki er hægt að líta fram hjá því að ákveðnir þættir verða í svelti að einhverjum árum liðnum eins og nú hefur gerst.