Spilliefnagjald

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 11:21:58 (2115)

1997-12-13 11:21:58# 122. lþ. 42.8 fundur 331. mál: #A spilliefnagjald# (hámark gjalds o.fl.) frv. 134/1997, Frsm. GE
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[11:21]

Frsm. umhvn. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 56/1996, um spilliefnagjald.

Þessi lög voru samþykkt á síðasta þingi og hefur komið í ljós að ákveðin atriði þarf að laga og er verið að mæla fyrir því hér.

Í frumvarpinu er lagt til að breytt verði ákvæðum um hámark spilliefnagjalds og það hækkað fyrir tiltekna vöruflokka. Hámarkið í lögunum er of lágt og álagt gjald nægir einungis til þess að greiða hluta af kostnaði sem til fellur, þannig að þeir sem skila spilliefnum til móttökustöðvar bera enn beinan kostnað af því. Í frumvarpinu er lagt til að spilliefnanefnd sé heimilt að greiða meðhöndlun og förgun úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist viðkomandi spilliefnum, enda dragi það úr kostnaði við meðhöndlun og förgun spilliefna. Loks eru lagðar til breytingar á uppgjörstímabili vegna innlendrar framleiðslu úr einum mánuði í þrjá.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu atriði breytingartillagnanna eru:

1. Lögð er til breyting á 3. gr. laganna þess efnis að ráðherra ákveði laun nefndarmanna í spilliefnanefnd, en eðlilegra þykir að ákvörðun sem þessi sé á valdi og ábyrgð ráðherra en ekki nefndarinnar eins og hefur verið til þessa.

2. Lagt er til að fyrri efnismálsliður 1. gr. falli brott, en þar er kveðið á um heimild til þess að greiða förgun annars úrgangs sem krefst sérstakrar meðhöndlunar og tengist spilliefnum. Á grundvelli ákvæðis þessa var m.a. ætlunin að láta gjald á olíumálningu bera uppi förgunarkostnað við vatnsmálningu. Umhverfisnefnd telur að slíkt ákvæði samrýmist ekki tilgangi og anda laganna og leggur til að það falli brott.

3. Loks er lagt til að ákvæði 6. tölul. 2. gr. falli brott, en þar er kveðið á um að spilliefnagjald skuli lagt á plöntu- og dýrafeiti og matarolíu, en úrgangur þessara efna hefur ekki verið skilgreindur sem spilliefni og í lögunum segir að aðeins sé heimilt að leggja spilliefnagjald á slík efni sem verða að spilliefnum.

Allir nefndarmenn eru samþykkir álitinu. Sérstaklega er tekið fram að Hjörleifur Guttormsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins sem kom til af því að flugi var frestað þegar þetta mál var til afgreiðslu.

Þeir sem undirrita þetta skjal eru hv. þm. Gísli S. Einarsson, Árni M. Mathiesen, Ísólfur Gylfi Pálmason, Tómas Ingi Olrich, Kristín Halldórsdóttir, Kristján Pálsson, Vigdís Hauksdóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Aðeins um þetta mál frekar. Það eru nokkrar deilur út af ákveðnum efnum sem er spurning um hvort þurfi að vera skilagjald á. Það eru m.a. olíusíur úr bílum og hjólbarðar, en ef á þeim væri skilagjald þá mundu þessi efni koma betur til skila og hverfa úr umhverfinu. Það býður upp á ákveðna hættu þegar þarf að leggja út í mikla vinnu við söfnun þessara efna í fyrirtækjum þannig að það þyrfti að skoða ákveðna hluti í þessum málum. Eins má ræða um ísogsefni sem verða hreinlega að spilliefnum vegna þess sem þau taka til sín svo sem tvistur og ýmislegt annað.

Herra forseti. Ég hef ekki fleira um þetta mál að segja og legg til að það fari til afgreiðslu við 3. umr.