Rafræn eignarskráning verðbréfa

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 11:35:01 (2119)

1997-12-13 11:35:01# 122. lþ. 42.12 fundur 149. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# frv. 131/1997, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[11:35]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á nokkrum fundum og leggur til breytingar á frv. sem eru í 19 liðum.

Í 1. lið brtt. er lögð til breyting á skilgreiningu á eignarskráningu í 2. gr. frv.

Í 2. lið er lagt til að 2. mgr. 7. gr. verði felld brott.

Í 3. lið er lögð er til sú breyting á 8. gr. að vísun til endurskoðenda er færð til í upptalningu þeirra sem óheimilt er að skýra frá nokkru því sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða stöðu sinni samkvæmt um hagi reikningseiganda, verðbréfamiðstöðvarinnar og viðskiptamanna hennar án undangengins dómsúrskurðar.

Þá er lögð er til sú breyting á 9. gr. að gert er ráð fyrir því að verði endurskoðandi var við slíka ágalla í rekstri verðbréfamiðstöðvar að reikningar verði ekki undirritaður án fyrirvara skuli hann gera stjórn verðbréfamiðstöðvar og bankaeftirliti viðvart.

Lagðar eru til þær breytingar á 10. gr. að annars vegar er bætt við nýjum tölulið þannig að Lánasýsla ríkisins fái auk þeirra sem taldir eru upp í greininni heimild til milligöngu um eignarskáningu í verðbréfamiðstöð. Hins vegar er lagt til að heimild fyrirtækja í verðbréfaþjónustu verði ekki takmörkuð við fyrirtæki sem hafa heimildir til fjárvörslu.

Lagt er til að ákvæði 3. mgr. 11. gr. um aðgang verðbréfasjóða að upplýsingum um skráða eigendur hlutdeildarskírteina verði gert skýrara.

Það er lagt er til að ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 12. gr. verði breytt en þar segir að í reglugerð sem ráðherra setur sé heimilt að ákveða heimildir verðbréfamiðstöðvar til gjaldtöku fyrir umsýslu með rafbréf og skráningu í tengslum við þau. Breytingin miðar að því að einungis verði heimilt í slíkri reglugerð að kveða á um heimildir verðbréfamiðstöðvar til að ákvarða fyrirkomulag gjaldtöku enda er að mati nefndarinnar óeðlilegt að ráðherra stjórni verðlagningu á þjónustu einkafyrirtækis.

Það er lögð til breyting á orðalagi 2. mgr. 14. gr.

Lagðar eru til tvær breytingar á 15. gr. Annars vegar er lagt til að orðið nettun verði fellt brott úr 1. mgr. sem segir að Seðlabanki Íslands taki við innlánum frá reikningsstofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annist efndalok (nettun). Óeðlilegt þykir að kveða á um eina tiltekna aðferð í ákvæðinu við efndalok viðskipta, þ.e. nettun eða jöfnun greiðslna. Hins vegar er lagt til að Verðbréfaþing Íslands eigi aðild að samráðsnefnd þeirri sem getið er um í greininni en hún er einnig skipuð fulltrúum verðbréfamiðstöðva og Seðlabankans.

Lagt er til að 2. mgr. 16. gr. verði breytt í samræmi við breytingar sem hafa verið gerðar að framan.

Það eru lagðar eru til tvær breytingar á 2. mgr. 20. gr. Annars vegar er lagt til að skýrt sé að verðbréfamiðstöð sé einungis heimilt að hafa milligöngu um millifærslu fjármuna og réttinda fyrir hönd útgefanda, að ósk hans, til þess sem hefur rétt til að taka við greiðslu samkvæmt skráningu í miðstöðinni. Hins vegar eru lagðar til orðalagsbreytingar á 3. málsl. Þá er lagt til að 34. gr. frv. verði 3. mgr. 20. gr. þar sem nefndin telur réttara að ákvæðið tilheyri IV. kafla frv.

Lagðar eru til orðalagsbreytingar á 22., 31. og 32. gr.

Lagðar eru til tvær breytingar á 25. gr. Annars vegar orðalagsbreyting á fyrri málslið 1. mgr. Nefndin telur óeðlilegt að ráðherra setji reglur um greiðslu kostnaðar og að það sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkast, t.d. mál sem farið er með fyrir samkeppnisráð og áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

Lögð er til sú breyting á 1. mgr. 27. gr. að fjögurra vikna frestur sá sem aðilar máls skv. 26. gr. hafa til að bera úrskurð úrskurðarnefndar skv. 25. gr. undir dómstóla hefjist við það tímamark er úrskurður hefur verið tilkynntur.

Lögð er til orðalagsbreyting á 1. mgr. 29. gr.

Lagt er til að við 30. gr. verði bætt nýrri málsgrein þar sem kveðið verði á um að stefna megi verðbréfamiðstöð og reikningsstofnun sameiginlega til greiðslu skaðabóta þegar ekki liggur ljóst fyrir hvor aðilanna ber ábyrgð á tjóni.

Lögð er til sú breyting að 34. gr. verði felld brott.

Enn fremur er lagt til að breytingar verði gerðar á ákvæðum til bráðabirgða I og II. Þær miða að því að láta skýrt koma fram að eigandi áþreifanlegs verðbréfs verði ekki skyldaður til að láta eignarskrá eignarréttindi sín yfir verðbréfi með rafrænum hætti heldur sé um valkost að ræða.

Loks bendir nefndin á að ýmis dæmi í almennum athugasemdum með frv., er varða starfsemi verðbréfamiðstöðva, virðast takmarkast við þrengri skýringu á ákvæðum frv. en efni standa til samkvæmt skýru orðalagi lagagreina þess.

Með þessum breytingum, hæstv. forseti, leggur efh.- og viðskn. til að frv. verði samþykkt.