Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:01:27 (2188)

1997-12-13 16:01:27# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Sá liður sem við höfum óskað eftir sérstakri atkvæðagreiðslu um í fjárlagafrv. er liðurinn 1.15 undir Ýmis verkefni forsætisráðuneytisins. Þar á að verja 15 millj. kr. til að halda áfram einkavæðingartrúboði hæstv. ríkisstjórnar. Eins og fram hefur komið á undanförnum mánuðum hafa þessir fjármunir aðallega farið í áróðursstarfsemi. Þeir hafa farið í veisluhöld í Perlunni og þeir hafa farið í að gefa út ákaflega skrautlega og vandaða bæklinga til áróðurs í þessu efni, í svo hörðum kápum að það mætti rota með þeim mann. Við sjáum ekki, herra forseti, að ástæða sé til að verja peningum í þetta trúboð. Við teljum að frjálshyggjan geti borgað fyrir sig sjálf og ástæðulaust sé að ráðstafa skattpeningum almennings með þessum ósmekklega hætti sem þarna hefur verið gert. Við erum þess fullvissir að menn geta fundið skynsamleg not fyrir þessar 15 millj. kr. sem þarna er auðveldlega hægt að spara. Þetta er þannig einnig af okkar hálfu ákveðið framlag til þess að fjármunir finnist innan ramma fjárlaganna til þess að sinna þörfum málefnum.