Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 16:38:46 (2195)

1997-12-13 16:38:46# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[16:38]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna því frv. sem hæstv. heilbrrh. mælir fyrir um rétt feðra til fæðingarorlofs þó hér sé allt of skammt gengið eins og ég kom reyndar inn á í atkvæðaskýringu við fjárlagafrv. áðan. Það er svo að ég hygg að fulltrúar allra stjórnarandstöðuflokka á þingi hafi flutt tillögur eða frumvörp er lúta að því að feðrum verði tryggt fæðingarorlof enda er það sanngjarnt réttlætismál.

Þótt feður hafi átt kost á að taka hluta af fæðingarorlofi móður þá eru einungis örfáir sem hafa nýtt sér það eða á bilinu 10--17 feður á ári. Þess vegna er þetta mál mjög brýnt en hér er allt of skammt gengið vegna þess að ég tel að hér sé á ferðinni kannski eitt stærsta jafnréttismál sem við fjöllum um, að gera feðrum fært að vera með börnum sínum. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir barnið heldur einnig til að breyta viðhorfum til jafnréttismála því að jafnrétti á heimilum hlýtur að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaðinum. Þess vegna erum við að fjalla um eitt stærsta jafnréttismálið.

Hæstv. ráðherra nefndi að áætlað væri að 90--95% karla gætu nýtt sér þetta fæðingarorlof og það kostaði um 100 millj. kr. Samkvæmt fjárlagatillögunum fær ráðherrann ekki nema 75 millj. kr. til þessa verkefnis þannig að ég geri ekki ráð fyrir að þetta kosti ekki nema 75 millj. kr. Engu að síður dreg ég í efa að svo margir muni nýta sér fæðingarorlofið þó þeir gjarnan vildu vegna þess að hér er um mismun að ræða gagnvart feðrum á almennum vinnumarkaði og feðrum hjá hinu opinbera. Hæstv. fjmrh. hefur nýlega breytt reglugerð sem tryggja á feðrum hjá hinu opinbera fæðingarorlof. Þeir fá óskert dagvinnulaun auk helmings af meðaltalsyfirvinnu og vaktaálagi greitt þannig að þeir hafa miklu meiri möguleika til að nýta sér þennan rétt en feður á almenna vinnumarkaðinum. Þó að þeir hafi nú með þessu frv. ef að lögum verður fengið sjálfstæðan rétt í tvær vikur, þá fá þeir einungis greiðslu sem nemur fæðingarorlofi sem greitt er af Tryggingastofnun ríkisins sem í tvær vikur væri sennilega um 30 þús. kr. Maður getur gert sér í hugarlund hvort faðir sem hefur margfalt meiri tekjur á vinnumarkaðinum hafi yfirleitt möguleika til að nýta sér þennan rétt. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er í bígerð að endurskoða í heild lögin um fæðingarorlof, þ.e. í þá veru að tryggja aukinn rétt til fæðingarorlofs, lengingu á fæðingarorlofi í 12 mánuði eins og liggur fyrir frv. sem hv. þm. Guðný Gubjörnsdóttir er 1. flm. að? Er eitthvað slíkt í undirbúningi af hálfu ráðherrans? Er endurskoðunarnefnd í gangi til þess að enduskoða lögin um fæðingarorlof? Þá er ég að tala um að lengja fæðingarorlof. Er fyrirhugað eitthvað breytt fyrirkomulag á fjármögnun fæðingarorlofs eins og er m.a. lagt til í frv. því sem ég nefndi áðan? Ég tel mjög brýnt að breyta fyrirkomulaginu á fjármögnun þannig að þetta komi úr sameiginlegum pottum sem atvinnurekendur greiða til þess að konur og karlar sem taka fæðingarorlof séu ekki sett í þá stöðu að það geti bitnað á vinnu þeirra eða stöðu ef þeir taka fæðingarorlof.

Ég nefndi áðan að vegna þess að hér er einungis um að ræða bætur almannatrygginga en ekki það að feður haldi sínum launum, þá gæti það leitt til þess í raun og sanni að ekki væru margir sem gætu nýtt sér þennan rétt. Annars staðar á Norðurlöndunum hafa feður hins vegar mikið nýtt sér þennan rétt og það kemur fram í frv. hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og fleiri að um 50--80% hafa nýtt sér réttinn og það er vegna þess að í flestum tilvikum halda þeir launum sínum eða verulegum hluta þeirra.

Mér finnst orðið tímabært að skilgreina fæðingarorlof. Fyrir hvað er það? Eru þetta bætur sem hið opinbera greiðir vegna fæðingar barns eða eigum við að líta á þetta sem ígildi taps á vinnulaunum? Ég held að við hljótum að líta á þetta sem ígildi vinnulauna eða taps á vinnulaunum sem á að bæta að fullu þannig að foreldrar geti verið hjá börnum sínum.

Ég nefni frv. sem hæstv. ráðherra kom inn á í máli sínu sem var samþykkt í fyrra þar var raunverulega viðurkennt með því að það beri að tryggja lengra fæðingarorlof vegna fjölburafæðinga, sjúkleika barns eða veikinda móður. Mig undrar nokkuð að hæstv. ráðherra hafi ekki litið á það atriði þegar hún undirbjó þetta frv. að þegar um er að ræða fjölburafæðingar verði föður gert kleift með sama hætti og móður var gert með lögunum í fyrra að vera lengur með barni sínu en þessar tvær vikur.

[16:45]

Ég hef ásamt hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni leyft mér að dreifa hér brtt. við þetta frv. sem lýtur að því að bæta ákveðnu ákvæði við frv. sem ég ætla að mæla fyrir við 2. umr. þessa máls. Þetta er kynnt við 1. umr. svo að nefndin sem fær þetta til skoðunar geti tekið það sérstaklega til athugunar að faðir eigi rétt á fæðingarorlofi í einn mánuð ef um er að ræða fjölburafæðingu, alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Hér er alls ekki um mikil útgjöld að ræða, herra forseti. Ég hef leyft mér að kanna hve mikil útgjöld er um að ræða með því að fara í frv. hæstv. heilbrrh. frá síðasta þingi. Þar má sjá að þegar fjölburafæðingar, alvarlegur sjúkleiki barns eða veikindi móður eiga sér stað, þá hefur hún rétt til lengra fæðingarorlofs sem getur numið allt að 12 mánuðum. Í greinargerð með því frv. er yfirlit um tvíbura- og þríburafæðingar. Þær ná hámarki á árinu 1995. Hér er 10 ára tímabil tiltekið. Þar er um að ræða 81 tvíburafæðingu árið 1995 og tvær þríburafæðingar. Þegar það er skoðað og einnig metið að í vissu tilviki gæti barn reynst alvarlega sjúkt, þá mundi þetta í mesta lagi þýða um 3 millj. kr. útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð. Þetta eru aðeins 3 millj. sem það kostar. Ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson teljum mjög brýnt að bæta við þessi ákvæði til að tryggja rétt föðurins þegar um er að ræða fjölburafæðingar. Faðirinn hefði þá rétt á lengra fæðingarorlofi, þ.e. einum mánuði í stað tveggja vikna. Og ég hygg að hæstv. ráðherra hafi yfirsést þetta við samningu þessa frv. og sé öll af vilja gerð til að bæta hér úr og muni ekki leggjast gegn því að þessu verði breytt í meðförum þingsins. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrrh. sérstaklega um afstöðu hennar til þess að bætt verði inn í frv. ákvæði til að tryggja aukinn rétt feðra til fæðingarorlofs þegar fjölburafæðingu, alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður ber að. Ég ítreka að hér er aðeins um að ræða 3 millj. kr.

Ég tel að það væri stuðningur fyrir því hér á þinginu og mun auðvitað skoða það við 3. umr. fjárlaga að breyting sem tryggir að 3 millj. kr. fari til viðbótar til Tryggingastofnunar ríkisins svo hægt sé að auka rétt feðra í þeim tilvikum sem ég hér nefndi.

Herra forseti. Ég harma mjög að hér áðan við atkvæðagreiðslu um fjárlagafrv. skyldi felld tillaga um að feður hefðu rétt til eins mánaðar fæðingarorlofs sem ég tel algert lágmark. Tvær vikur er allt of stuttur tími og ég teldi það áfanga á réttri leið ef við værum að samþykkja hér eins mánaðar fæðingarorlof. Í stjórnarandstöðunni höfum við lagt til að feður hefðu þriggja mánaða fæðingarorlof.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til þess að orðlengja þetta frekar þó stórt mál sé á ferðinni og hægt að hafa um langt mál. Ég ítreka spurningu mína til ráðherra um hvort það sé almenn endurskoðun í gangi á lögum um fæðingarorlof. Hvert er markmiðið með þeirri endurskoðun ef svo er? Megum við vænta þess að fram komi stjfrv. á þessu kjörtímabili sem tryggi lengri rétt til fæðingarorlofs heldur en sex mánuði og tveggja vikna fæðingarorlofs föður? Megum við vænta þess að fyrirkomulaginu á fjármögnun fæðingarorlofs verði breytt? Megum við vænta þess að reynt verði að samræma fæðingarorlof á almenna vinnumarkaðinum hinu opinbera þannig að foreldrum verði tryggð óskert laun í fæðingarorlofi?

Í lokin, herra forseti, ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til þeirrar tillögu sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum hér lagt fram. Ég held það sé sjálfsögð og eðlileg og réttmæt breyting á því frv. sem við fjöllum hér um.