Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:27:23 (2201)

1997-12-13 17:27:23# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær jákvæðu umræður sem hér hafa farið fram um málið. Ég heyri það að menn ætla að reyna að afgreiða þetta fyrir jól og það er mikilvægt því að þá tekur þetta frv. gildi sem lög 1. janúar. Ég veit að það er knappur tími en miðað við þessar jákvæðu umræðu ætti það að nást.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði nokkurra spurninga um frv. og þá fyrst og fremst hvort í gang færi endurskoðunarnefnd varðandi heildarlöggjöf um fæðingarorlof. Slík nefnd hefur verið í gangi. Hún er ekki í gangi um þessar mundir. Hún hefur verið í gangi og út úr þeirri vinnu komu breytingar sem ég lagði fram í þinginu í fyrra og voru samþykktar um lengingu orlofs fyrir fjölburaforeldra og varðandi veikindi móður og barns. En endurskoðunarnefndin komst ekki að samkomulagi nú frekar en áður um það að jafna rétt til fæðingarorlofs, en það er mikilvægast að jafna rétt foreldra til fæðingarorlofs.

Hv. þm. spurði líka hvort til greina kæmi í meðförum nefndarinnar að bæta inn í þetta frv. sömu ákvæðum og eru í fæðingarorlofsfrv. varðandi mæður, um að feður gætu fengið lengra frí ef um fjölburðafæðingu væri að ræða eða veikindi barns. Ég tel að nefndin eigi að skoða það og við eigum að skoða kostnaðaráhrifin af því. Við rennum dálítið blint í sjóinn varðandi kostnaðinn af því frv. sem ég hef lagt hér fram. Við reiknum með að það kosti um 100 millj. miðað við það að 92--95% feðra tækju þetta orlof. Aðeins reynslan sem getur skorið úr um það hversu margir feður taka slíkt orlof. En ég tel að sú tillaga sem hér kom fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur komi vel til greina og ég satt að segja hef verið feimin sjálf að leggja fram þessa tillögu því ég er nýorðin tvíburaamma og það hefði kannski þótt hagsmunapot ef ég hefði komið með þá tillögu.

Varðandi þær fyrirspurnir sem komu fram hjá Margréti Frímannsdóttur um reglugerðarbreytingar sem hér voru til umræðu þegar hið fyrra fæðingarorlofsfrv. var samþykkt, þá er það þannig að það eru tilbúin drög að reglugerð sem eru til umsagnar í Tryggingastofnun og ég á von á því að Tryggingastofnun svari okkur innan tíðar.

Varðandi önnur ákvæði er lagatextinn mjög skýr og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir las textann og skildi hann eins og hann er þannig að það þarf ekki að hafa um það fleiri orð.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvaða feður fengju þetta orlof. Það eru feður á almenna markaðnum. Menn hafa rætt um að þetta væri ekki há upphæð sem feður fengju í fæðingarorlofi. Þetta er sama upphæð og mæður fá þannig að um nákvæmlega sömu kjör er að ræða. En þetta er aðeins hálfur mánuður. Það er skref í rétta átt og sérhver ferð hefst á einu skrefi. Ég tel mjög mikilvægt að við samþykkjum þetta frv. fyrir jól eins og ég sagði hér áðan svo að þetta skref sé tekið að fullu þannig að við getum stigið það næsta.