Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:31:46 (2202)

1997-12-13 17:31:46# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því hversu jákvætt hæstv. heilbrrh. tekur í tillögu mína um að bæta því inn í þetta frv. að sé um að ræða fjölburafæðingar, sjúkleika barns eða veikindi móður, þá verði réttur föður til fæðingarorlofs einn mánuður. Ég vænti þess að heilbr.- og trn. taki þessa tillögu til skoðunar og vona að jákvætt verði mælt með tillögunni þegar málið kemur til 2. umr.

Ég held að hæstv. ráðherra þurfi ekki að óttast kostnað af þessu. Ég held að hann sé ekki nema 2--3 millj. og því er líka við að bæta að það eru áformaðar 75 millj. í þetta feðrafæðingarorlof sem er hálfur mánuður. En ég óttast og spyr hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sama sinnis að tiltölulega fáir feður sjái sér kleift að taka fæðingarorlof þegar þeir fá einungis það sem ráð er fyrir gert úr almannatryggingum eða um 66 þús. kr. á mánuði. Það eru 33 þús. kr. sem feður fengju og yrðu kannski af verulegum tekjum og móðirin jafnvel líka. Ég held að að feður muni ekki fyllilega geta nýtt sér þetta fæðingarorlof fyrr en það er búið að jafna þessar greiðslur þannig að feður fái óskert laun á vinnumarkaðnum með sama hætti og mæður fá óskert laun í fæðingarorlofi.

Hæstv. ráðherra sagði að akkúrat núna væri ekkert í gangi varðandi endurskoðun á fæðingarorlofinu eða löggjöfinni. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með það að ekki skuli vera í gangi nein heildarendurskoðun á fæðingarorlofslöggjöfinni og spyr hæstv. ráðherra hvort hún vilji ekki endurnýja þessa nefnd og þá með aðild stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan hefur mjög margt fram að færa í málinu og eins og fram hefur komið hefur verið lagt fram frv. eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir lýsti hér áðan.