Fæðingarorlof

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:44:59 (2210)

1997-12-13 17:44:59# 122. lþ. 42.13 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:44]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar áðan þó að þau hafi vissulega valdið vonbrigðum. Frá hendi ríkisstjórnarinnar virðist ekki vera í sjónmáli nein meiri háttar uppstokkun á lögunum um fæðingarorlof. Ég vil einnig fagna góðum undirtektum ráðherrans við því að stjórnarandstaðan gæti komið að endurskoðun á núgildandi fyrirkomulagi fæðingarorlofs. Ég tek undir það með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að verulegur vinnusparnaður geti orðið af því, þar sem við í stjórnarandstöðunni höfum kynnt okkur þessi mál mjög vel og höfum lagt gífurlega vinnu í það frv. sem nú liggur fyrir þinginu og bíður umræðu.

Ég skildi hæstv. heilbrrh. svo að þetta frv. nái eingöngu til feðra á almennum vinnumarkaði og vitnaði í ræðu minni til fréttatilkynningar hæstv. fjmrh., nr. 13/1997. Ég vil þá nota tækifærið hér fyrst hæstv. fjmrh. er í salnum og spyrja hann hvort það sé réttur skilningur að enga lagastoð þurfi fyrir hans tilkynningu. Er þetta bara kjarasamningsatriði eða tilkynningaratriði af hans hálfu? Ef svo er, hvernig er þá með réttarstöðu annarra feðra, t.d. bankamanna? Hvernig er þeirra réttarstaða nú ef þetta á við almenna vinnumarkaðinn og tilkynning fjmrh. á við ríkisstarfsmenn, hvernig er þá með t.d. bankamenn sem hafa sérstök kjör að þessu leyti?

Einnig vil ég, fyrst hæstv. fjmrh. er hér staddur, spyrja hann hvort hann sé þeirrar skoðunar að stefna beri að kerfisbreytingu þar sem fólk fái full laun í fæðingarorlofi og því beri að lengja fæðingarorlof og þennan sjálfstæða rétt feðra um meira en tvær vikur.