Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 17:55:53 (2215)

1997-12-13 17:55:53# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[17:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frv. er 338. mál og er að finna á þskj. 427. Í frv. eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt í þeim tilgangi að kveða skýrt á um skattalega meðferð ófyrnanlegra réttinda, svo sem aflaheimilda í sjávarútvegi og sambærilegra réttinda.

Ég vil taka fram, virðulegi forseti, að fyrir þinginu liggur annað frv. sama efnis en þó ekki samhljóða heldur um sama efni. Það er frv. sem er 77. mál þingsins og flm. er Kristinn H. Gunnarsson. Í því frv. er stefnt til sömu áttar og gert er í þessu frv.

Aðdraganda þessara breytinga má rekja til ágreinings um það hvernig færa má keypta aflahlutdeild til gjalda í rekstri. Úr þeim ágreiningi var skorið með dómi Hæstaréttar Íslands 18. nóv. 1993 í málinu Hrönn hf. gegn fjmrh. Var það niðurstaða réttarins að heimilt væri að færa keypta aflahlutdeild til gjalda eins og um væri að ræða fyrnanlega eign samkvæmt lögunum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Niðurstaða þessi var í samræmi við afstöðu úrskurðaraðila í skattkerfinu að því leyti að heimilt væri að gjaldfæra stofnkostnað vegna kaupa á aflahlutdeild.

Ágreiningur var um það á hve löngum tíma heimilt væri að dreifa gjaldfærslunni. Embætti ríkisskattstjóra hafði talið að afskrifa mætti þennan stofnkostnað með sama hætti og skip, þ.e. á 10--20 árum eins og afskriftareglur eru nú. Taldi ríkisskattstjóri að þar sem aflahlutdeild tengdist skipi væri eðlilegt að um fyrningu á kaupverði hennar giltu sömu reglur og um skip gilda. Úrskurður þáverandi ríkisskattanefndar, nú yfirskattanefndar, var hins vegar sá að heimilt væri að gjaldfæra kaupverð aflaheimilda að fullu sem rekstrarkostnað á kaupárinu. Niðurstaða nefndarinnar byggðist fyrst og fremst á því að í lögum væri ekki til að dreifa neinum sérstökum ákvæðum um meðferð aflaheimilda í skattskilum og það er kannski kjarni málsins fyrir dómstólum og yfirskattanefnd.

Þegar álitamálið kom síðan til kasta dómstóla ákvað fjmrh. að gerð yrði krafa um að litið yrði á aflaheimildir sem ófyrnanleg réttindi. Fyrir dómstólunum var því gerð sú aðalkrafa að synja bæri um gjaldfærslu stofnkostnaðarins. Þeirri kröfu var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. júní 1993 og þar kveðið á um að heimilt væri að gjaldfæra stofnkostnað vegna kaupa á aflahlutdeildinni á fimm árum. Þessi úrskurður var síðan staðfestur af Hæstarétti 18. nóv. 1993. Niðurstaða Hæstaréttar og skattyfirvalda var byggð á túlkun á ákvæðum laga nr. 81, m.a. með þeim rökum að ekki væri í þeim lögum að finna ákvæði sem kveða berum orðum á um skattalega meðferð veiðiheimilda.

Í forsendum hins staðfesta héraðsdóms er þess getið að réttindi þessi séu í sjálfu sér ekki eyðanleg verðmæti og er tekið undir það í niðurstöðum Hæstaréttar. Meðal annars með tilvísun til óvissu um fégildi aflaheimilda fyrir kaupin er það niðurstaða dómstólanna að jafna kaupum á aflahlutdeild á réttindum sem tilgreind eru í 4. tölul. 32. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar er um að ræða keyptan eignarrétt á hugverkum, svo sem höfundarétti, útgáfurétti, rétti til einkaleyfis og vörumerkis. Einn dómari Hæstaréttar taldi að ekki ætti að heimila fyrningu vegna stofnkostnaðar keyptrar aflahlutdeildar.

[18:00]

Sammerkt með forsendum fyrir úrskurðum skattyfirvalda og niðurstöðum dómstóla er að vitnað er til skorts á beinum ákvæðum í lögum um tekju- og eignarskatt sem reisa má niðurstöðu á og er það eitt vísbending um þörf á því að löggjafarvaldið setji skýrar reglur í þessum efnum í samræmi við meginreglur skattalaga.

Þótt dómur Hæstaréttar hafi skorið úr um túlkun gildandi laga hefur það þótt vera álitamál hvort niðurstaða sé eðlileg með tilliti til þeirrar meginreglu skattalaganna að til rekstrarkostnaðar skuli aðeins telja þann kostnað sem lagt er í vegna viðkomandi atvinnustarfsemi og gengur til að afla tekna. Samkvæmt þeirri reglu skal einungis gjaldfæra stofnkostnað eigna í samræmi við þá verðmætarýrnun sem hlýst af notkun þeirra við framleiðsluna. Á það hefur verið bent að lítil rök standi til þess að ætla að verðmæti aflahlutdeildar rýrni við notkun. Reynslan hefur verið sú að verð aflahlutdeildar hefur farið hækkandi frá því að framsal á þeim hófst. Verðmæti aflahlutdeildar í hendi þeirra sem það hafa keypt hefur því ekki rýrnað heldur farið vaxandi. Skattaleg meðferð er hins vegar sú að kaupverð aflahlutdeildar hefur verið gjaldfært að hluta eða alveg. Skattskyldar rekstrartekjur hafa þannig verið lækkaðar án þess að um hafi verið að ræða raunverulegan kostnað. Á sama hátt hefur bókfærð eign verið lækkuð á sama tíma og verðgildi hennar hefur aukist.

Þá hafa menn ekki verið á einu máli um þau rök að óvissa um varanleika fiskveiðistjórnarkerfisins réttlæti fyrningu keyptrar aflahlutdeildar. Bent hefur verið á að óvissa í þessu efni komi væntanlega fram í verði aflahlutdeildanna og að óvissa af einhverju tagi tengist flestum eignum, einnig ófyrnanlegum eignum án þess að það verði tilefni til afskriftar. Í tengslum við ýmsar ráðstafanir og athuganir í sjávarútvegsmálum, sem sjútvrh. beitti sér fyrir í árslok 1996, fyrir um ári, beindi hann þeim tilmælum til fjmrh. að skattaleg meðferð keyptrar aflahlutdeildar og hliðstæðra réttinda yrðu tekin til athugunar. Í framhaldi skipaði ráðherra með bréfi, dags. 27. febr. 1997, fyrr á þessu ári nefnd til að fjalla um málið og semja lagafrv. til að koma breytingum samkvæmt tillögum sínum til framkvæmda. Hefur nefndin samþykkt frv. þetta en í nefndinni sátu Árni Kolbeinsson ráðuneytisstjóri, tilnefndur af sjútvrh., Friðleifur Jóhannsson forstöðumaður, tilnefndur af ríkisskattstjóra, Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri, tilnefndur af fjmrh. sem formaður nefndarinnar, og Lárus Finnbogason, löggiltur endurskoðandi, tilnefndur af viðskrh., en ritarar nefndarinnar voru Friðgeir Sigurðsson lögfræðingur við embætti ríkisskattstjóra og Ragnheiður Snorradóttir lögfræðingur í fjmrn.

Niðurstaða nefndarinnar varð sú að margt mælir með því að breyta núgildandi reglum í þessum efnum á þann veg að keypt aflahlutdeild verði ekki frádráttarbær frá rekstrartekjum og verði með hana farið að flestu leyti eins og ófyrnanlegar eignir, svo sem lönd og lóðir.

Nefndin lagði enn fremur til að kveðið yrði beint á um að hagnaður af sölu aflahlutdeildar sé skattskyldur og að um ákvörðun þessa hagnaðar yrðu settar nánari reglur og þess þá m.a. gætt að skipti á aflahlutdeildum og breytingu á samsetningu þeirra verði ekki hindruð af skattalegum ástæðum. Þá lagði nefndin einnig til að sett yrðu ákvæði um lagaskil þar sem kveðið yrði á um með hvaða hætti núverandi fyrirkomulag verði lagt af. Felur tillaga nefndarinnar í sér að fyrning vegna aflahlutdeildar sem keypt var fyrir gildistöku laganna verði lækkuð í áföngum og það frv. sem mælt er fyrir er samið af nefndinni. Ég ætla ekki að fara ítarlega í hugsanlegar spurningar um afturvirkni. Um það er fjallað í greinargerðinni og komist þar að ákveðinni tiltekinni niðurstöðu og ég vek athygli á því að í nefndinni eru fremstu skattasérfræðingar og lögfræðingar í þessum efnum.

Helstu efnisatriði frv. eru sem hér segir:

Í fyrsta lagi er í meginatriðum verið að bæta í lögin um tekjuskatt og eignarskatt beinu ákvæði sem kveður á um að ekki sé heimilt að fyrna stofnkostnað við kaup á réttindum sem rýrna ekki vegna notkunar. Er þetta í samræmi við þá reglu í 32. gr. laganna sem heimilar fyrningar á eyðanlegum náttúruauðæfum og rétt til nýtingar á þeim. Ákvæði þetta er almenns eðlis og tekur til allra slíkra réttinda svo fremi að ekki sé kveðið beint á um annað í lögum. Til skýringar á hinu almenna ákvæði og til þess að taka af allan vafa um gildi þess með tilliti til þeirra dóma sem fallið hafa um skattalega meðferð aflahlutdeilda er í lögunum tekið fram að um þær fari samkvæmt þessu ákvæði. Af hagkvæmnisástæðum, sem er nánar gerð grein fyrir í greinargerð, er þó gert ráð fyrir að um kaup á svokölluðum rúmmálsréttindum verði skattalega farið með á sama hátt og kaup á skipum. Við breyttar aðstæður í þessum viðskiptum kæmi til álita að fella þetta frávik niður.

Þrátt fyrir þetta bann við fyrningu stofnkostnaðar við kaup á þeim réttindum sem um ræðir í lögum er gert ráð fyrir að við þær aðstæður að réttindi falli niður, t.d. vegna þess að fiskveiðistjórnarkerfi verði breytt, verði heimilað að gjaldfæra kostnað við kaup á þeim.

Í öðru lagi er kveðið á um skattskyldu hagnaðar af sölu aflahlutdeildar. Hvað skattskylduna sjálfa snertir er ekki um að ræða breytingu frá því sem nú er en lögfest eru ákvæði um með hvaða hætti söluhagnaðurinn er reiknaður. Er það að mestu í samræmi við almennar reglur í þeim efnum en þó gert ráð fyrir að unnt verði að breyta samsetningu aflaheimilda með kaupum eða skiptum án þess að það hafi þær skattalegu afleiðingar að söluhagnaður verði skattskyldur nema að því leyti sem sala heimilda er umfram kaup á þeim. Í þessu efni skal vakin athygli á því að skipti á aflaheimildum ber samkvæmt ákvæðum skattalaganna að meðhöndla eins og um kaup og sölu með því verði sem almennt gerist í hliðstæðum viðskiptum. Þetta er undirstrikað að þessi lagaákvæði sem til stendur að samþykkja hafa ekki áhrif á þær hagræðingaraðgerðir sem fara fram hjá útgerðum að versla með mismunandi fisktegundir og skipta eftir því sem þannig stendur á svo fremi sem verðmætin eru þau sömu sem ganga til og frá aðila.

Í þriðja lagi er kveðið á um hvernig bókfæra skal keypta aflahlutdeild sem eign. Er í því efni miðað við stofnverðið að frádregnum fyrningum sem að sjálfsögðu á einungis við um þær fyrningar sem heimilar voru fyrir gildistöku laganna eða eru það samkvæmt gildistökuákvæði þeirra.

Í fjórða lagi er í lögunum er ákvæði um að vegna kaupa á aflaheimildum fyrir gildistöku laganna verði núverandi afskriftareglur afnumdar í áföngum.

Framangreint efni kemur fram í einstökum greinum frv. með eftirfarandi hætti:

Í 1. gr. frv. er lagt til að ákvæði um skattlagningu hagnaðar af sölu á réttindum sem um ræðir í 2. gr. frv., svo sem aflahlutdeild og öðrum hliðstæðum réttindum í sjávarútvegi, verði fært undir 14. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt þar sem er að finna almennu ákvæðin um skattlagningu söluhagnaðar ófyrnanlegra eigna. Rétt þykir að vera með sérákvæði um þessi réttindi í 14. gr. þar sem fram að þessu hefur verið litið á aflahlutdeild sem fyrnanlega eign og eins er nauðsynlegt að geta tekið tillit til fyrninga þegar um er að ræða sölu á aflahlutdeild sem keypt er fyrir gildistöku laga þessara.

Í 1. málsl. 1. mgr. 1. gr. frv. er kveðið á um að hagnað af sölu ófyrnanlegra réttinda skuli almennt telja til tekna á söluári. En í 2. málsl. 1. mgr. 1. gr. frv. er að finna skilgreiningu á hagnaði af sölu ófyrnanlegra réttinda og í 2. mgr. 1. gr. frv. er ákvæði sem felur í sér frávik frá 1. mgr. 1. gr. frv. um að söluhagnaður ófyrnanlegra réttinda verði skattlagður að fullu á söluári. Er hér um að ræða frestunarákvæði sem felur í sér að stofnverð sambærilegra réttinda sem keypt er á sama tíma er lækkað sem nemur söluhagnaði þeirra réttinda sem seld voru þannig að það verður ekki fyrr en við sölu þeirra að söluhagnaður verður reiknaður af þeim hluta.

Í 1. mgr. 2. gr. frv. er lagt til að við lögin bætist ný grein með yfirskriftinni ófyrnanleg réttindi. Ákvæði greinarinnar eru almenn í þeim skilningi að þau taka til allra keyptra réttinda sem rýrna ekki við notkun. Í greininni eru tekin af öll tvímæli um að óheimilt er að fyrna keypta aflahlutdeild.

Í 2. mgr. 2. gr. eru tilgreind ein frávik frá almennu reglunni í 1. mgr. 2. gr. þar sem kveðið er á um að keypt leyfi til veiða í atvinnuskyni, svokölluð rúmmálsréttindi, skuli talin með hinu keypta skipi og falli þar með undir fyrningarreglur sem gilda um skip. Þetta er undantekning. Meginrökin fyrir þessu fráviki eru að í viðskiptum með fiskiskip er í flestum tilvikum ekki gerður greinarmunur á kaupverði skips og rúmmálsréttinda og eru verðmæti þessara réttinda ekki metin sérstaklega við ákvörðun á verði skipa. Viðskipti með rúmmálsréttindi eru lítil og er því vafasamt að leggja þau fáu viðskipti til grundvallar við mat á markaðsverði þeirra.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að keypt aflahlutdeild og önnur sambærileg réttindi verði metin til eignarskatts á bókfærðu verði þeirra hverju sinni. Í 1. mgr. 4. gr. frv. er lagt til að afnema í áföngum núgildandi heimildir til fyrningar. Er gert ráð fyrir að á næstu þremur árum eftir gildistöku laganna verði heimildir til fyrningar af stofnkostnaði vegna aflahlutdeildar sem keypt var fyrir gildistökuna lækkaður í áföngum og rekstraraðilum heimiluð allt að 45% fyrning á árunum 1998 til ársins 2000. Í síðari málslið greinarinnar er miðað við að þeim sem selt hafa aflahlutdeild fyrir gildistöku laganna og hafa frestað skattlagningu söluhagnaðarins verði heimilt að fara með söluhagnaðinn skv. 13. gr. laganna. Ítarlega er fjallað um þetta efni frv. í greinargerð og því ekki ástæða til að rekja einstök atriði frekar en benda frekar hv. alþm. á að lesa greinargerðina, bæði hina almennu og þó einkum þá sem kemur fram í athugasemdum við einstakar greinar.

Herra forseti. Þótt tilefni þessa frv. hafi verið hvernig skattaleg meðferð keyptra aflaheimilda hefur þróast eins og rakið er í greinargerð með frv. er efni þess almenns eðlis. Með öðrum orðum er ekki verið að taka eingöngu á aflaheimildum. Með því eru færð í lagabúning ákvæði um ófyrnanleg réttindi sem eru í fullu samræmi við grundvallarreglur skattalaganna. Má því segja að með frv. sé verið að færa skattalega meðferð keyptra aflaheimilda og annarra sambærilegra réttinda til samræmis við það sem almennt og eðlilegt er samkvæmt skattalögunum. Í greinargerðinni er vitnað til þess sem segir um þessi mál í öðrum löndum. Ef ég man rétt er vitnað þar til Noregs, Nýja-Sjálands og einhverra annrra landa, líklega Bretlands ef ég man rétt, a.m.k. hinna tveggja. Þar segir að þar sé farið með þessi réttindi með sama hætti og gert er ráð fyrir að verði gert eftir að þetta er samþykkt hér. Það er rétt hjá mér, það er Noregur, Bretland og Nýja-Sjáland.

Virðulegur forseti. Ég tel ástæðulaust að fjalla frekar á þessu stigi málsins um frv. en vænti þess að það fái umfjöllun í hv. nefnd sem er efh.- og viðskn. þingsins og ég geri tillögu um að málinu verði vísað til 2. umr. og þeirrar hv. nefndar.