Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 18:13:32 (2216)

1997-12-13 18:13:32# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, KHG
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:13]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er afar athyglisvert þingmál til umræðu sem hefur verið boðað um hríð og beðið eftir að ríkisstjórnin legði það fram um nokkurt skeið. Eins og hæstv. fjmrh. vék að í upphafi framsögu sinnar hefur legið fyrir þinginu frá því í haust frv. að nokkru leyti um sama efni og þetta stjfrv. lýtur að og frv. var reyndar lagt fram fyrst á síðasta þingi, í maímánuði sl. Ég hef aðeins borið saman efnistökin eða innihald þessara tveggja frv. og það sem er eins í þeim báðum eru eftirfarandi atriði sem eru meginatriði málsins.

Í fyrsta lagi eru réttindin sem frv. eiga að taka til skilgreind í þeim báðum og kveða á um að þau réttindi verði eigi fyrnd. Þá er skilgreint í báðum frv. hver söluhagnaðurinn er og kveðið á um að það eigi að tekjufæra hann á söluári og að fullu. Þessi ákvæði eru nákvæmlega eins í báðum frumvörpunum. Hins vegar eru fleiri atriði í báðum frumvörpunum og þau eru ólík. Það er því rétt að fara aðeins yfir það svo að mönnum sé ljóst að það er ekki sama efnisinnihald í þessum tveimur frumvörpum þegar að er gáð.

[18:15]

Það sem er ólíkt er meðferðin á eignfærslu kaupverðsins eða stofnverðsins á réttindunum sem keypt eru. Í frv. ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að það beri að færa þetta kaupverð til eignar og greiða af þeim eignarskatt. Það er alveg þveröfugt á við ákvæðið í mínu frv. þar sem einmitt er kveðið á um að þessi verðmæti verði eigi færð til eignar og ekki greiddur af þeim eignarskattur. Fyrir því er það sjónarmið af minni hálfu að staðfesta eða ítreka þann vilja löggjöfans að þessi réttindi verði ekki skilgreind sem eign þess sem í hendi hefur. Það er því um gjörólíka nálgun að þessu leytinu til og ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þessi breyting sem frv. ríkisstjórnarinnar leggur til um eignfærslu réttindanna hefur á mat lögmanna á því hvort hætta sé á að eignin fari að falla undir ákvæði stjórnarskrárinnar sem skilgreinir eign og hvort það geti verið að ekki verði hægt að taka af mönnum þessi réttindi nema bætur komi fyrir. Það er einmitt það sem við viljum forðast eða ég a.m.k. trúi því, að allir þingmenn hafi verið þeirrar skoðunar og séu þeirrar skoðunar að forðast beri nokkuð það í lagasetningu í málinu sem dregur málið lengra í þá áttina að einhver vafi leiki á því að unnt sé að breyta lögum án þess að þurfa að bæta mönnum meintan eignamissi. Ég vil beina því til hv. efh.- og viðskn. að láta gera fyrir sig lögfræðilegar álitsgerðir um þetta efni þ.e. hvort sú tillaga í frv. ríkisstjórnarinnar, að færa slík réttindi sem eign í skilningi skattalaga, leiði af sér auknar líkur á því að um verði að ræða eign í skilningi stjórnarskrárinnar og njóti því stjórnarskrárvarinna réttinda. Ég legg áherslu á það sjónarmið að löggjafinn geri ekkert sem dragi málið í þá áttina. En ég óttast að þetta geti einmitt styrkt sjónarmið þeirra sem óttast að málið sé á þeirri leið. Það væri a.m.k. nauðsynlegt af hálfu ríkisstjórnarinnar og talsmanns hennar í málinu að fá yfirlýsingu fjmrh. um hvernig hann skilur þetta ákvæði, hvað það hefur í för með sér að skilgreina þessi réttindi sem eign í skilningi skattalaganna og hvaða áhrif það hefur að skilgreina þá eign í skilningi stjórnarskrárinnar. Þetta er gerólíkt í frv. tveimur og skiptir verulega miklu máli.

Annað sem er ólíkt í frv. er að í mínu frv. eru afnumdar strax allar heimildir til afskrifta á keyptum réttindum. Hins vegar er það ekki í frv. ríkisstjórnarinnar heldur beinlínis kveðið á um það að þær heimildir til almennra fyrninga keyptra réttinda gildi í þrjú ár í viðbót. Þótt fyrningaprósentan sé lækkuð ár frá ári er engu síður kveðið á um það að veita þarna veigamikla undanþágu frá hinu almenna ákvæði laganna um bann við fyrningum þessara réttinda.

Í öðru lagi eru ýmsar heimildir opnar í frv. ríkisstjórnarinnar til að beita fyrningum aðrar en sú sem ég hef þegar getið. Þar vil ég nefna fyrst heimild til að færa niður kaupverð réttinda um sem nemur söluhagnaði af áður seldum réttindum. Þetta er almennt undanþáguákvæði ótímabundið þannig að skattaðili getur komist undan því og hjá því svo lengi sem hann kýs að greiða tekjuskatt af söluhagnaði með þessu móti.

Í öðru lagi gilda heimildir skattalaga um frestun eða dreifingu á söluhagnaði um þann söluhagnað í frv. ríkisstjórnarinnar, en í mínu frv. er tekið fyrir það og meðferð söluhagnaðar af þessum réttindum er ákveðin sérstaklega og öðruvísi en almennt gerist í skattalögum og kveðið á um að engar heimildir séu um frestun eða dreifingu. Þetta ákvæði skiptir líka verulegu máli og er mjög ólíkt því sem ríkisstjórnin hefur hér kynnt.

Í þriðja lagi er undanþága eða heimild til þess að fyrna keypt réttindi sett inn í frv. ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að færa megi til gjalda verðmæti þessara réttinda verði þau af skattaðila tekin eða þau réttindi falli niður eins og gæti gerst ef lögin yrðu afnumin og sett önnur lög eða aðrar breytingar gerðar sem hefðu þessi áhrif. Þetta er satt að segja mjög víðtæk heimild til að tefja kaupverð réttinda til rekstrarkostnaðar þegar svona stendur á. Að öllu samanlögðu eru mjög rúmar heimildir og mjög margar undanþágur frá hinu almenna ákvæði laganna um að ekki eigi að fyrna réttindin.

Í mínum huga hefur það alltaf verið meginmarkmiðið, fyrir utan það að varðveita réttindin á þann hátt að þau verði ekki eign í skilningi stjórnarskrárinnar, að gæta þess með lagabreytingunni að draga úr verðmæti þeirra réttinda, a.m.k. að löggjöfin sé ekki að auka þau sérstaklega eins og löggjöfin gerir með því að heimila mönnum að afskrifa réttindi og færa kaupverðið sem rekstrarkostnað sem leiðir síðan af sér að menn komast hjá skattgreiðslum í ríkissjóð. Þegar málið er rakið til baka þá hafa skattareglurnar áhrif á að hækka verðmæti réttindanna og með því að taka fyrir þær leiðir mun væntanlega verðmæti þeirra lækka. Af minni hálfu hefur það verið aðalkeppikefli málsins að lækka verðmæti þessara réttinda sem ég tel vera eitt það allra brýnasta í breytingum á þessu fyrirkomulagi sem við búum við varðandi stjórn fiskveiða.

Ef ég reyni að meta áhrif frv. ríkisstjórnarinnar á verðmæti veiðiheimilda, þá sýnist mér ekki mjög líklegt að áhrifin verði þau að lækka verð þeirra svo að einhverju muni. Til þess eru heimildirnar allt of rúmar til að telja að lokum þetta kaupverð til gjalda í rekstrarreikningi fyrirtækjanna. Mér sýnist því að þau ákvæði í frv. ríkisstjórnarinnar, sem eru frábrugðin þeim ákvæðum sem er að finna í mínu frv., leiði til þess að menn ná ekki þeim árangri sem ég a.m.k. hef stefnt að með því að flytja þetta mál.

Ég hef líka dálitlar efasemdir um það ákvæði að heimila skipti á aflaheimildum án þess að telja það til söluhagnaðar eða láta reikna það út á þann hátt. Ég skil í sjálfu sér hvað átt er við og við fyrstu sýn virðist það vera eðlilegur gangur en ég hef við frekari hugsun á þessu atriði frv. fyllst nokkrum efasemdum um það og sé fyrir mér að þessa leið geti menn notað til þess að komast hjá því að söluhagnaður verði sýnilegur. Ég hvet hv. efh.- og viðskn. til að athuga þetta ákvæði frv. alveg sérstaklega einmitt með það í huga hvort þarna kunni að vera leið fyrir skattaðila að komast hjá skattgreiðslu en það er í sjálfu sér eðlileg hugsun og viðbrögð þeirra sem eru í atvinnurekstri að haga honum þannig að þeir lágmarki skattgreiðslur sínar á hverju tíma. Því leita menn að leiðum í löggjöf sem þeir búa við á hverjum tíma sem skilar þeim lægri sköttum en annars.

Herra forseti. Það er svo sem ekki margt til viðbótar sem ég hef um málið að segja á þessu stigi að öðru leyti en því að mér finnst að þau atriði sem eru frábrugðin mínu frv. geri stjfrv. ekki eins gott og annars ætti að vera. Það eru of mörg ákvæði sem draga úr gildi þeirrar ákvörðunar að heimila ekki lengur fyrningar á keyptum réttindum sem frv. fjallar um. Ég hef því nokkrar efasemdir um að málið leiði til þess gagns sem því er ætlað þegar upp er staðið og ég hef sérstakar efasemdir um það ákvæði að kveða á um að telja þessi réttindi til eignar og láta borga af þeim eignarskatt. Ég vil segja varðandi rökin fyrir því að heimila þurfi afskriftir á þessum réttindum næstu þrjú ár til þess að gefa mönnum aðlögun að gildandi fyrirkomulagi, að ég tek ekki undir þau rök að um sé að ræða hættu á að afturvirkar breytingar eða breytingar á löggjöf sem menn búa við í dag leiði til verulegrar breytingar á rekstrarumhverfi þeirra. Ég bendi á að engin lagaákvæði gilda um þetta efni í dag. Það er því ekki um það að ræða að löggjafinn sé núna að gera breytingar á einhverjum tilteknum lögum sem um málið hafa gilt. Það gilda einfaldlega engin lagaákvæði um það og framkvæmdin í dag styðst við skilning Hæstaréttar á lögunum en ekki að í þeim sé að finna einhver bein ákvæði um að svo skuli fara með, eins og menn hafa gert í reynd. Ég tek því ekki undir það að gefa þurfi aðlögunartíma af þessum sökum. Þvert á móti tel ég öll rök hníga að því að láta breytinguna taka þegar gildi og veita engar undanþágur frá henni.

Herra forseti. Ég vil svo benda á galla á málfari frv. sem ég tel að geti skipt máli, en talað er um varanlega aflahlutdeild í 2. gr. frv. Samkvæmt mínum skilningi er ekki til neitt sem heitir varanleg aflahlutdeild. Aflahlutdeild er skilgreind í lögunum um stjórn fiskveiða og er í raun réttindi sem fela í sér ákveðinn hlut af heildarmagni sem veiða má hverju sinni úr tilteknum fiskstofni. Síðan ræðst það af því hversu mikið má veiða í heildina úr viðkomandi fiskstofni ár hvert hvað þessi hlutdeild gefur mörg tonn af sér á hverju fiskveiðiári og það er kallað aflamark þannig að hugtökin sem til eru í lögunum um stjórn fiskveiða eru aflamark og aflahlutdeild. Varanleg aflahlutdeild væri þá væntanlega eitthvert annað hugtak en aflahlutdeild. Og hvaða hugtak væri það þá? Ég get ekki séð neitt annað en að menn hljóti að túlka það sem svo að varanleg hlutdeild væri eitthvað sem menn hefðu varanlega í hendi og ef menn teldu sig hafa eitthvað varanlegt í hendi, verður væntanlega erfiðara fyrir Alþingi að taka það af. Ég legg til að efh.- og viðskn. taki út úr frumvarpstextanum orðið varanleg.

Herra forseti. Ég hef þá farið yfir frv. ríkisstjórnarinnar og borið það saman við ákvæði í mínu frv. og ég vek athygli á því að veruleg frávik eru eins og ég hef rakið og vil þó nefna eitt til viðbótar sem ég hygg að ég hafi gleymt þegar ég fór yfir þessi atriði. Það er að í mínu frv. er kveðið sérstaklega á um það að tap af sölu aflahlutdeildar sé eigi heimilt að færa til rekstrargjalda en það er hins vegar heimilt í frv. ríkisstjórnarinnar. Þetta atriði mun skipta miklu máli og hafa vaxandi þýðingu á komandi árum ef svo fer sem vænta má að með vaxandi leyfðum heildarafla lækki verð á heimildunum eitthvað og þá fer að myndast tap af sölu veiðiheimilda sem skattaðili hefur keypt á fyrri tímum á hærra verði en hann fær á þeim tíma sem hann selur. Þetta er enn ein opnunin fyrir það að koma kaupverði að lokum í gegnum rekstrarreikning og þegar opnanirnar eru orðnar svona margar eins og raun ber vitni þá eru líkurnar á því að frv. frá ríkisstjórninni hafi þau árif að lækka verðið orðnar mjög litlar og ég hef miklar efasemdir um að stjfrv. leiði til þess markmiðs sem ég hef sett fram sem einn helsta tilgang lagasetningar að draga úr þessum miklu verðmætum sem eru þarna á ferðinni.