Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 18:33:39 (2217)

1997-12-13 18:33:39# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að fara yfir bæði frumvörpin og skýra þau út. Það gefst ekki tækifæri hér til þess að fara í öll atriði sem hann nefndi. Ég vil þó taka fram að þegar rætt er um eignfærslu í stjfrv., þá má ekki koma upp sú pólitíska viðkvæmni að þetta hafi eitthvað með það að gera hvort miðin séu þjóðareign, einkaeign eða eitthvað þess háttar. Í skattalegum skilningi verður að færa þetta til eignar og menn sjá náttúrlega alveg í hendi sér hvað mundi gerast ef þetta ætti ekki að færast til eignar en svo gætu menn keypt kvótann með peningum úr rekstri, þá mundi auðvitað eignarskattsstofninn lækka og þar með skattarnir lækka ef við færum þá leiðina.

Til þess að benda hv. þingmönnum á ágæta grein um eign og hve eign er flókið hugtak og sérstaklega að því er tengist kvótanum, þá vil ég benda á grein í nýútkomnu tímariti lögfræðinga þar sem Skúli Magnússon lögfræðingur fer mjög vandlega yfir þennan þátt málsins og reyndar aðra. Ég bendi á að ef kerfið er tekið upp og fellur niður og það er undirstrikað hjá þeim sem sömdu frv., þá má gjaldfæra þessi réttindi og það bendir til þess að menn hafa það í huga að kerfið verði ekki til eilífðarnóns þannig að það er verið að undirstrika það. Niðurstaðan ef þetta frv. verður samþykkt er auðvitað sú að fyrirtæki muni bera hærri skatta. Það hlýtur að gleðja suma. Það eru minni fyrningar, meiri tekjur fyrir fyrirtækin, eignarskattsstofninn verður annar og ég spái því að þau réttindi sem hér er verið að ræða um, heimildirnar, muni lækka í verði. Ég minni á að hér er verið að fara í sömu átt og við höfum verið að gera að undanförnu og bendi á tryggingagjöldin og yfirfæranlegt tap.

Loks vil ég nefna að auðvitað þurfa að vera undanþágur, a.m.k. að nokkru leyti vegna afturvirknisjónarmiðanna sem vel er gerð grein fyrir í frv. Því miður, virðulegi forseti, sé ég að ég kemst ekki lengra áfram. En þetta vildi ég nefna á þessu stigi málsins vegna þess að mér er kunnugt um að hv. þm. getur ekki verið hér við framhald umræðunnar.