Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 18:38:14 (2219)

1997-12-13 18:38:14# 122. lþ. 42.15 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[18:38]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé varla hægt að fara hér í fræðilegar umræður um það mál sem hv. þm. ræddi hérna síðast. Ég tel að í raun og veru hafi þetta enga úrslitaþýðingu fyrir það hvort kvótinn, aflaheimildin sé talin eign og varin af eignarréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég get ekki alveg fullkomlega útilokað það en ég bendi á að fræðimenn hafa verið að skrifa um þessi efni. Ég sagði frá grein sem ég hef nýlega lesið eftir Skúla Magnússon lögfræðing og ég veit að Sigurður Líndal prófessor hefur skrifað um þetta, gerði það fyrir nefnd þingsins á sínum tíma og ræddi þar um eignina og hvort réttindi á borð við þessi væru varin af stjórnarskránni. Og það kemur í ljós að slík réttindi geta verið varin af stjórnarskránni án þess að þau séu tiltekin nákvæmlega í lögum. Ég vil einnig minna á að eign er ekki neitt ótvírætt hugtak. Eign getur verið fólgin í ýmsu. Það er bara spurningin um afstöðu þess sem getur nýtt sér viðkomandi hluti sem geta verið réttindi eða fasteignir eða hvað annað sem hefur virði á markaði og er miklu flóknara samband en menn gera sér almennt grein fyrir.

Um það hvort síðan stjórnarskrárákvæði sem segir að menn skuli fá bætur fyrir ef af er tekið, þá vil ég bara vísa til þessarar greinar en jafnframt segja frá því að prófessor Þorgeir Örlygsson hefur fjallað um þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu m.a. að ef kerfið breytist vegna þess að umráðaaðilinn, ríkið, ákveður að fara öðruvísi að með auðlindina sem fulltrúi þjóðarinnar, þegar ríkið kemur fram sem fulltrúi þjóðarinnar, þá eigi útgerðin ekki rétt á bótum þess vegna. En ég hvet menn til þess að lesa þessar fræðilegu ritgerðir sem liggja nú þegar fyrir um þetta mál.