Nýtt hlutverk Seðlabankans

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 15:13:59 (2226)

1997-12-15 15:13:59# 122. lþ. 43.1 fundur 127#B nýtt hlutverk Seðlabankans# (óundirbúin fsp.), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. viðskrh. Mér var það nokkuð ljóst, enda skildi ég ekki seðlabankastjóra á þann veg að hann reiknaði með því að Seðlabankinn kæmi með beinum hætti inn í viðskipti af þessum toga en eins og ég las áðan þá lýsti hann hugmyndum sem hann hafði heyrt á ráðstefnu erlendis og hann tók undir að Seðlabankinn gæti með beinum hætti ábyrgst kaup almennings á hlutabréfum í fyrirtækjum sem ríkið setti á markað. Ég vil árétta: Er það leið sem hæstv. viðskrh. sér fyrir sér að gæti gengið hér heima? Með öðrum orðum að allur almenningur í landinu ætti þess hugsanlega kost að kaupa hlut í viðskiptabönkunum og hugsanlega Pósti og síma, svo ég nefni nú tvö stór ríkisfyrirtæki sem menn hafa verið að ræða í þessu samhengi, á hugsanlega 5% vöxtum --- af því það er tala sem seðlabankastjóri nefndi í einu þessara viðtala --- og að Seðlabankinn væri síðan með bakábyrgð á skuldbindingum almennings og þannig væri tryggð mjög breið eignaraðild. Eins og seðlabankastjóri áréttaði margoft í þessum viðtölum væri þannig komið í veg fyrir að ,,einhverjir haldnir græðgi`` hrifsi það ekki allt saman smám saman til sín og þá á seðlabankastjóri væntanlega við bankana og Póst og síma. Mér finnst þetta fyllilega athygliverðar hugmyndir og ég fagna því satt að segja að hæstv. viðskrh. skuli taka undir í meginatriðum þessar hugmyndir flokksbróður síns og félaga hér frá árum áður.