Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 15:39:27 (2238)

1997-12-15 15:39:27# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, Frsm. ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[15:39]

Frsm. umhvn. (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til laga um breyting á skipulags- og byggingarlögum. Frumvarpið var til ítarlegrar umfjöllunar á síðasta ári, stórt og viðamikið frv. upp á yfir 60 greinar og brtt. við frv. voru þá fleiri en greinarnar voru sjálfar. Ráð var fyrir því gert í frv. að lögin tækju gildi 1. janúar nk. Frá því lögin voru samþykkt hafa komið fram nokkrar athugasemdir um hluti sem betur mættu fara. Flest hefur það verið smávægilegt en rétt þótti að lagfæra það áður en lögin tækju gildi, 1. janúar nk., fyrst við höfum tíma og rúm til þess.

Nefndin fékk á sinn fund þá Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóra í umhvrn., og Hjörleif Kvaran frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Nefndin leggur til minni háttar breytingar á frv. og lúta þær að lagfæringum á ákvæðum laganna sem ég nefndi áðan.

Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem greint er frá á sérstöku þingskjali.

Í fyrsta lagi er um að ræða orðalagsbreytingar sem lagðar eru til við 3., 6. og 7. gr. frv.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 27. gr. laganna um framkvæmdaleyfi. Lúta þær annars vegar að því að lagt er til að ákvæðið nái aðeins til meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess, en ekki allra framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið. Hins vegar er lagt til að felld verði úr ákvæðinu vísun til skógræktar og landgræðslu og verði því einkum ætlað að ná til breytinga á landi með t.d. jarðvegi eða efnistöku. Einnig er lagt til í breytingum við þessa grein að sett verði inn reglugerðarákvæði þannig að ráðherra geti útfært frekar á hvern hátt verður farið með framkvæmd á útgáfu framkvæmdaleyfa.

Með því að fella út úr ákvæðinu vísun í skógrækt og landgræðslu og með orðunum ,,einkum ætlað að ná til breytinga á landi með t.d. jarðvegi eða efnistöku`` er meiri hluti nefndarinnar að leggja áherslu á að hann telur skógræktar- og landgræðsluaðgerðir til þess að endurheimta náttúruleg gæði lands eða friðun lands sem leiðir til aukins náttúrulegs gróðurfars ekki til meiri háttar framkvæmda sem hafa áhrif á umhverfið eða breyta ásýnd lands.

Að öðru leyti ætlast nefndin til þess að hæstv. ráðherra skilgreini nánar í reglugerð hvað teljist til meiri háttar framkvæmda sem hafi áhrif á umhverfi og breyti ásýnd lands. Auk þess er rétt að geta þess að í 27. gr. eins og hún var samþykkt síðasta vor er jafnframt gert ráð fyrir því að úrskurðarnefndin, sem á að úrskurða um deilumál samkvæmt lögunum, úrskurði um það hvað eru meiri háttar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd lands.

Loks leggur meiri hluti nefndarinnar til breytingu við 12. gr. frv. þess efnis að nýjar skipulags- og byggingarreglugerðir verði settar á grundvelli laganna í síðasta lagi 1. júlí 1998, en í ljós hefur komið að þær reglugerðir sem setja á geta ekki verið tilbúnar fyrir 1. janúar nk. Það er mjög mikilvægt að þær sjái dagsins ljós sem allra fyrst og því ákvað meiri hluti nefndarinnar að leggja til að setja eindaga um það hvenær þær reglugerðir ættu að sjá dagsins ljós svo vel geti orðið.

Að öðru leyti leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum, sem gerð er grein fyrir í þingskjalinu og ég hef rakið.