Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:12:22 (2244)

1997-12-15 16:12:22# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, TIO
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:12]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að þegar lögin um skipulags- og byggingarmál voru sett í fyrra þá virðast hafa orðið einhver mistök á kynningu frv. þegar það var til umfjöllunar og í ljós hefur komið að allmargir sveitarstjórnarmenn, einkum og sér í lagi í dreifbýlissveitarfélögum, fengu frv. ekki til umsagnar og gátu ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri eins og gert hafði verið ráð fyrir þegar frv. var í vinnslu í þinginu. Frv. var vísað til Sambands ísl. sveitarfélaga en það hefur komið í ljós að allmörg sveitarfélög, einkum og sér í lagi af hinni smærri gerðinni, fengu ekki tækifæri til að kynna sér efni frv. og það berast æ fleiri athugasemdir við frv. og þar á meðal við það mál sem er til umræðu í dag sem varðar einkum og sér í lagi framkvæmdaleyfin.

Að vísu er ánægjulegt að heyra að umhverfisnefndarmenn virðast allir vera sammála um að ekki komi til greina að hafa 27. gr. laganna óbreytta þar sem segir að allar framkvæmdir sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem skógrækt og landgræðsla eða breyting lands með jarðvegi eða efnistöku, skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að hefja slíkar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi skv. IV. kafla fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.``

Að sjálfsögðu er þar um að ræða fortakslausa afskiptasemi hins opinbera af hinum smæstu framkvæmdum sem lúta að því að umhverfi taki einhverjum breytingum. Það á við eins og lögin eru orðuð, smæstu skógræktarframkvæmdir eða landgræðsluframkvæmdir. Ég sé ekki betur en að þar sem þetta er orðað svo hafi það einnig áhrif á það ef einstaklingur tekur þá ákvörðun að friða land. Það er ljóst að friðun lands getur orðið til þess að þar vaxi upp gróður sem breyti verulega ásýnd landsins.

[16:15]

Nú er svo komið að í skógræktarreitum víða um landið vaxa erlendar tegundir eins og lerki, stafafura og Alaskaösp. Þessar þrjár tegundir eru þegar byrjaðar að sá sér út og friði menn land þar sem þessar tegundir vaxa þá má gera ráð fyrir því að þær geti breitt úr sér og ef rýna má í þennan lagatexta eins og hann er í gildandi lögum þá má gera ráð fyrir því að allar framkvæmdir, þar á meðal friðun, heyri undir framkvæmdir sem þarf framkvæmdaleyfi til og þá hugsanlega, ef sett verður í lög að gjald megi taka fyrir slíkt framkvæmdaleyfi, að þá komi þar einnig til gjaldtaka.

Ég endurtek að það er ánægjulegt að menn skuli vera sammála um það í umhvn. að svona víðtækar framkvæmdaleyfisveitingar þjóni ekki neinum tilgangi. Að sjálfsögðu er framkvæmdaleyfið fyrst og fremst fólgið í því að tryggja það að stjórnvöld geti haft hönd í bagga með hvernig framkvæmdum verði hagað þannig að hagsmunum aðila, hvort sem um er að ræða félagasamtök, fyrirtæki eða einstaklinga, sé ekki stefnt í voða með framkvæmdinni. Það er ekki andi þessara laga, hygg ég, að auka svo afskiptasemi hins opinbera að hefta með öllu framkvæmdafrelsi einstaklinganna en þann skilning má þó leggja í lagatextann eins og hann er. Það er því augljóst að nauðsynlegt var að breyta þessu.

Það sem deilan stendur hins vegar um hér er hvort framkvæmdaleyfið eigi að ná til skógræktar- og landgræðsluframkvæmda og þá jafnframt hvernig eigi að skilja þá breytingu sem meiri hlutinn leggur til. Með ákvæðinu um framkvæmdaleyfi og gjaldtöku fyrir slíkt leyfi er verið að tryggja, eins og ég gat um áðan, eftirlit með framkvæmdum og það er verið að tryggja fjármögnun eftirlitsins. Að sjálfsögðu er kostnaður við slíkt eftirlit íþyngjandi fyrir framkvæmdaaðila en það verður að líta svo á að slíkur kostnaður sé í mörgum tilfellum eðlilegur hluti af framkvæmd. Það er hins vegar afar brýnt að til slíks kostnaðar sé ekki stofnað nema brýna nauðsyn beri til. Það fer að sjálfsögðu eftir eðli framkvæmdanna hversu brýn þessi nauðsyn er. Sumar framkvæmdir eru þess eðlis að framkvæmdaleyfi og sá kostnaður sem því fylgir getur ekki talist réttlætanlegur.

Eins og kunnugt er er mesta umhverfisvandamál sem þetta land hrjáir eyðing gróðurlendis og skóga. Á þeim vanda er tekið þótt ófullnægjandi sé í dag með starfsemi skógræktarfélaga, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og með framlagi fjölmargra einstaklinga og félagasamtaka. Eins og að líkum lætur hefur starf allra þessara aðila mikil áhrif á ásýnd landsins en tilgangur starfsins er einmitt sá að hafa hana, að vinna gegn þeirri líffræðilegu fábreytni og þeim spjöllum á ásýnd landsins sem eyðing gróðurlendis og búsvæða hefur haft í för með sér. Ég tel að miðað við það vandamál sem eyðing gróðurlendis er á Íslandi þá standi engin efni til þess að íþyngja þessum verkefnum með sérstöku framkvæmdaleyfi og gjaldtöku vegna eftirlits. Skógræktar- og landgræðsluáætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Eftirlit með framkvæmd skógræktaráætlana er eðlilegt að verði í höndum héraðsskógarvarða og umdæmisstjóra Skógræktar ríkisins. Ég tel ekki á nokkurn hátt eðlilegt að í þessum málaflokki verði komið á sérstökum eftirlitsiðnaði á vegum sveitarfélaga og þar með kostnaði sem framkvæmdaraðilinn á að bera. Og hverjir eru þessir framkvæmdaraðilar? Þeir eru að sjálfsögðu Skógrækt ríkisins, það geta verið einstakir skógabændur eða skógræktarfélög.

Ég tel að ekki hafi verið sýnt fram á það í þessari umræðu að hér sé ekki verið að stofna til verulegs kostnaðar. Það kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að kostir framkvæmdaleyfisins væru einmitt fólgnir í því að þar með væri tryggt að sveitarfélögin litu á það sem sitt verkefni að fylgjast með framkvæmdinni með sínum starfsmönnum. Það er augljóst mál að til þess að geta fylgst með framkvæmdum í skógrækt og landgræðslumálum þurfa sveitarfélögin að koma sér upp mannafla til að gera það og kostnaðurinn við það mun lenda á framkvæmdaraðilunum.

Hver er ástæðan fyrir því að ég tel óskynsamlegt að láta framkvæmdaleyfi af þessu tagi ná til skógræktar- og landgræðsluáætlana? Það er einfaldlega vegna þess að ég tel ekki að hægt sé að sýna fram á að þar séu hagsmunir í húfi sem ekki er hægt að tryggja með eftirliti á vegum Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins. Það er hægt að tryggja það að framkvæmdirnar séu fullkomlega eðlilegar og fari eðlilega fram með slíku innra eftirliti. Þegar komið er að framkvæmdum í skógræktar- og landgræðsluáætlunum er búið að fella þær inn í skipulagsmál, það er búið að fjalla sérstaklega um þær innan þeirra stofnana sem um það fjalla og þá skiptir framkvæmdaleyfið í sjálfu sér ekki öðru máli en því að koma að þessum eftirlitsaðilum sem verið er að leggja til hér að verði komið á fót og færa kostnaðinn við það eftirlit yfir á framkvæmdaraðilana. Og miðað við eðli þess verkefnis, sem hér er um að ræða, þá tel ég að ekki sé skynsamlegt að ráðast í það.

Ég vil einnig geta þess að ég sé ekki með góðu móti hvernig hægt er að framkvæma slíkt eftirlit. Við skulum segja sem svo að menn komist að þeirri niðurstöðu að það beri að friða stórt landsvæði og fyrirsjáanlegt er að það fellur undir meiri háttar verkefni og að verkefnið mun hafa veruleg áhrif á ásýnd landsins, þá þarf framkvæmdaleyfi til að koma samkvæmt þeim hugmyndum sem hér voru kynntar af fyrri ræðumanni. Framkvæmdaleyfið á að þjóna þeim tilgangi að það sé hægt að fylgjast með því að framkvæmdin sé eðlileg, framkvæmdin um friðunina, af því friðunin hefur áhrif á ásýnd landsins. Við erum komin hérna að nokkru aðalatriði málsins sem er að það er mjög erfitt að framkvæma eftirlit af þessu tagi. Það verður alltaf mjög huglægt mat sem menn geta lagt á mál af þessu tagi og það er afar erfitt að menn sjái fyrir sér fyrirmæli þeirra eftirlitsaðila sem hér er verið að tala um að koma upp, eftirlitsaðilar á framkvæmdir í skógrækt og landgræðslu, þ.e. hvaða fyrirmælum þeir eigi yfirleitt að hlýða.

Hér í þinginu hefur farið fram ítarleg umræða um það hvort það eigi að fella skógrækt og landgræðslu undir mat á umhverfisáhrifum. Um það höfum við, sá sem hér stendur og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, deilt oftar en einu sinni. Það verkfæri sem var komið inn í skipulagslögin til þess að íþyngja þessum framkvæmdum er grein á meiði ákveðinnar tilhneigingar sem verður vart víða, þ.e. að setja sem mestar hömlur á framkvæmdir af þessu tagi. Ég tel að full ástæða sé til þess að vera á varðbergi gagnvart þeim sem vilja setja sem mestar hömlur á þessar framkvæmdir. Ég lít svo á að þegar tekið er tillit til þess hvernig málið er lagt upp þá skýri nál. það að nokkru leyti hvers vegna hér er lagt til að fella landgræðslu- og skógræktaráætlanir út úr orðalagi textans eins og hann er í lögunum en setja það hins vegar inn sem sérstaka málsgrein í 27. gr. Með þessu er verið að leggja drög að því að framkvæmdaleyfi þurfi ekki fyrir skógræktar- og landgræðsluáætlanir. Það er skilningur minn á þessu máli og ég vil ítreka hann hér.

Ég vil að lokum, herra forseti, taka fram að ég held að meginvandamálið sem hér er verið að leysa sé það að breyta orðalaginu yfir í meiri háttar framkvæmdir, en ég vil leggja áherslu á að það skiptir miklu máli hvers konar framkvæmdir við erum að tala um. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson talaði um það áðan að af tilfinningaástæðum væru menn að flokka verkefni í góð verkefni og vond verkefni og vildi í þeim efnum kannski vekja spurningar um hvort það að opna malargryfjur væri í sjálfu sér vont verkefni. Ekki vil ég dæma um það. Það er sennilega hins vegar sameiginlegur skilningur okkar beggja, mín og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að malargryfjur sem opnaðar eru án tillits til umhverfisaðstæðna séu heilmikið vandamál og það sé fullkomin ástæða til þess að fylgjast vel með þeim og halda vel utan um slíkar framkvæmdir vegna þess að þær geta valdið umhverfisspjöllum. Það á ekki við um skógrækt og landgræðslu sem lúta að því að bæta umhverfisspjöll.

Og af því að hér var vitnað í lög um mat á umhverfisáhrifum þá sér þess nokkur merki í nýrri tilskipun Evrópusambandsins að þar eru menn byrjaðir að velta fyrir sér hvort skynsamlegt sé að beita lögum um mat á umhverfisáhrifum gegn öllum breytingum á umhverfinu eða hvort menn eigi að beita þessum lögum fyrst og fremst gegn neikvæðum breytingum á umhverfinu. Inn í þessa nýju tilskipun eru nú komin hugtök sem ekki voru þar áður þar sem fjallað er sérstaklega um það að beita skuli lögum um mat á umhverfisáhrifum til þess að koma í veg fyrir neikvæðar breytingar á umhverfinu. Þar sem eyðing gróðurlendis og fábreytni gróðurlendisins sem hefur orsakast af því er aðalvandamálið, þá er að sjálfsögðu ekki tilgangurinn hér á Íslandi með starfsemi Skógræktar ríkisins og Landgræðslunnar að valda umhverfisspjöllum. Þvert á móti er verið að reyna að bæta umhverfið, endurvekja mátt þess og megin og auka við fjölbreytileika, en ekki að gera lífríkið fábreytilegra. Það er ekki ástæða til þess að leggja sérstaka steina í götu þeirra sem að þessum verkefnum vinna né að búa til íþyngjandi reglur og fjármagnsútgjöld á sviði skipulagsmála til þess að gera þeim lífið leitt.