Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:36:39 (2250)

1997-12-15 16:36:39# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:36]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að taka dæmi um hugsanleg framkvæmdaleyfi sem hér er verið að ræða. Tökum sem dæmi skógræktaráætlun sem umhvrh. telur ekki ástæðu til að fara með í mat á umhverfisáhrifum, það er skógræktaráætlun sem þarf að framkvæma. Þá sækir viðkomandi skógræktarfélag um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnarinnar. Hún þarf þá, til að uppfylla skyldur sínar, að setja sína sérfræðinga og sinn mannafla í að fylgjast með því að skógræktaráætlunin sé rétt framkvæmd. Með öðrum orðum er ekki verið að treysta skógræktarfélaginu til að framkvæma sína áætlun sjálft. Á hvaða forsendum á sveitarfélagið að dæma þetta, með leyfi að spyrja?

Við skulum hins vegar taka hitt dæmið sem er þó svolítið skiljanlegra. Ef ráðherrann tæki þá ákvörðun að setja málið í mat á umhverfisáhrifum og upp kæmi mat sem skilyrti framkvæmdina. Er þá rétt að setja upp einhvern eftirlitsiðnað til að ganga úr skugga um að framkvæmdaaðilarnir hlíti þessum fyrirmælum eða er hægt að treysta Skógrækt ríkisins til að fara eftir fyrirmælunum? Um það snýst málið. Því ef það er ekki hægt að treysta Skógrækt ríkisins eða Landgræðslunni til að fara eftir fyrirmælum í mati á umhverfisáhrifum þá þarf vissulega að koma upp einhverjum eftirlitsiðnaði með þeim kostnaði sem honum fylgir.