Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:39:16 (2252)

1997-12-15 16:39:16# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:39]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður skaut sér undan því að svara því með hverju embættismenn sveitarfélaganna ættu yfirleitt að fylgjast ef lögum um mat á umhverfisáhrifum væri ekki beitt. Ef framkvæmd væri skógræktaráætlun á vegum skógræktarfélags og hún félli utan mats á umhverfisáhrifum, með hverju eiga embættismennirnir að fylgjast, með leyfi að spyrja?

Það er allt annars eðlis þegar menn eru að fylgjast með byggingarreglugerðum þar sem tekin er veruleg áhætta ef ekki er fylgt settum reglum. En við erum bara að tala um allt annað eðli málsins þarna (Gripið fram í.) og það er það sem mér finnst skýrt að þingmennirnir, og það gildir einnig um þann ágæta þingmann sem hér er að kalla fram í, reyni að skilja mismuninn sem er á þessu. Það er öðruvísi áhætta sem tekin er. Sú áhætta sem ég er að tala um í sambandi við skógræktaráætlunina er nánast engin. Það er fullkomlega hægt að treysta þessum stofnunum, embættismönnum Skógræktar ríkisins, héraðsskógavörðunum og umdæmisstjórunum, til þess að fylgjast með því að skógræktaráætlanir séu rétt framkvæmdar. Það er algjörlega ástæðulaust að vera að búa til þennan iðnað og varpa kostnaðinum af honum yfir á þá sem eru að vinna að þessu merka verkefni sem landgræðsla og skógrækt í landinu er.