Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:45:36 (2257)

1997-12-15 16:45:36# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:45]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Á síðasta þingi samþykktum við lög um bygginga- og skipulagsmál og eins og hv. þingmenn muna voru hvorki meira né minna en 63 breytingar, ef ég man rétt, á þeim lagabálki. Það áttu sér stað ákveðin mistök við kynningu á lögunum og þess vegna teljum við, þeir fulltrúar sem stöndum að þeirri brtt. sem hér hefur verið kynnt svo ágætlega, að full ástæða sé til að breyta þessum lögum. Sjálfur tel ég meginmismun á malartekju og efnistöku annars vegar og skógrækt og landgræðslu hins vegar. Þetta eru ákaflega ólíkir málaflokkar og ég er mjög sammála hv. þm. Tómasi Inga Olrich þar sem hann sagði í ræðu sinni áðan að við værum í raun ekki að taka neina áhættu þegar um skógrækt væri að ræða. Við erum alls ekki komin að þeim tímapunkti á Íslandi. Við erum að tala um skógrækt og landgræðslu --- við erum ekki að taka neina áhættu í þessum efnum --- við erum fyrst og fremst að keppast við að gera landið okkar betur gróið og hlýlegra en það er í dag.

Eyðing gróðurlendis er eitt mesta umhverfisvandamál á Íslandi. Það hefur víða komið fram. Forseti Íslands hefur m.a. bent á þetta í ræðu og riti og um þetta erum við, held ég, flest sammála um. Það er í raun alveg óþarfi að leggja stein í götu þeirra sem vinna að uppgræðslumálum. Bændur er einir mestu landgræðslumenn landsins og vinna þar mjög gjarnan í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og það er mjög merkilegt að fylgjast með því samstarfi. Og á nákvæmlega sama hátt er óþarfi að leggja fjötra á þá þætti.

Það eru mörg skógræktarfélög víðs vegar um landið. Þau eru yfirleitt til þess að gera fátæk og við eigum að vera hvetjandi í starfi þeirra. Við eigum ekki að draga kraft og kjark úr þeim með því að vera með ákveðnar reglugerðir sem draga úr því að skógræktarfélögin geti unnið á frjálsum markaði. Á sama hátt vakna spurningar bænda ef þeir ætla að skipta eða breyta landnotkun, ef þeir breyta t.d. gróðurlendi í kartöflugarða eða kornræktarakra eða því um líkt. Það er engin ástæða til að þeir þurfi að fá einhver sérstök framkvæmdaleyfi til þess.

Við getum líka velt fyrir okkur þeirri spurningu hvað breytir ekki ásýnd landsins. Ef við friðum ákveðin landsvæði breytist auðvitað ásýnd þeirra landsvæða. Við sjáum líka hvernig landsvæði geta breyst með ofbeit og ég vil meina að ræktun hafi í nánast öllum tilfellum mjög jákvæð áhrif á ásýnd landsins.

Eitt af því sem við höfum líka velt fyrir okkur varðandi þessa lagasetningu er hið svokallaða deiliskipulag. Það þarf að vera alveg skýrt þegar hæstv. ráðherra gefur út reglugerð með þessum lögum að landeigendur sem fara fram á deiliskipulag á viðkomandi jörðum, t.d. vegna sumarbústaðabyggða eða þess háttar, að landeigendurnir sjálfir beri kostnað af slíku deiliskipulagi, þ.e. að sveitarfélögin geti innheimt hjá viðkomandi landeigendum þann kostnað sem til fellur.

Það eru líka til ýmsir öfgamenn þegar verið er að tala um ræktun lands og skógrækt. Ekki alls fyrir löngu hlustaði ég á mjög virtan vísindamann á Íslandi sem talaði m.a. um að t.d. af skógræktinni fyrir austan stafaði jarðyglan sem kom upp á síðasta sumri. Á nákvæmlega sama hátt getum við líka velt fyrir okkur, að ef við hefðum aldrei farið út í að rækta landið, þá hefði aldrei komið grasmaðkur í tún bænda. Við megum gæta okkur á því að leggja þessi mál ekki fram með öfgakenndum skoðunum vegna þess að það dregur kraft og kjark úr þeim sem vilja vinna og vinna að þessum málum, t.d. hin frjálsu skógræktarfélög víðs vegar um landið.