Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 16:58:05 (2262)

1997-12-15 16:58:05# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[16:58]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var um mig eins og fleiri að ég varð satt að segja dálítið áttaviltur við að hlýða á ræðu hv. 4. þm. Suðurl. þegar hann hafði það á orði að engin ástæða væri til á þessu stigi málsins að leggja stein í götu áhugamanna um landgræðslu og skógrækt. Ég skildi ekki samhengið öðruvísi en svo en að hann ætti við sveitarstjórnarmenn. Hann kom síðan aftur hér og hafði þá á orði að hann þekkti enga sveitarstjórn sem væri ekki mjög áhugasöm um þennan þátt mála. Ég hlýt þá að spyrja: Hvaða aðilar eru það eiginlega sem hann hefur áhyggjur af að muni leggja stein í götu áhugamanna um landgræðslu og skógrækt? Mín reynsla af sveitarstjórnarmönnum er einmitt sú að þeir séu manna áhugasamastir um þennan þátt mála og hafi lagt sig eftir því. En telur hv. þm. einhverja ástæðu til þess einmitt að hafa áhyggjur af því að þeir verði til þess að leggja stein í götu áhugamanna um þessi efni? Ég er eindregið þeirrar skoðunar einmitt í ljósi þess að sveitarstjórnarmenn hafa í gegnum tíðina lagt sitt af mörkum til þessara mála, og ég tel það styrkja málaflokkinn og það átak sem sannarlega þarf að gera og að þeir fái tækifæri til að koma að málum og hafi eftirlit og rétt til ábendinga, athugasemda og tillögugerðar. Auðvitað eru ýmis atriði á þessum vettvangi sem orka tvímælis og menn hefur auðvitað hingað til, og hér eftir sennilega, greint á um leiðir að þessum markmiðum sem við öll stefnum að. Ég bið því hv. þm. að skýra þetta út fyrir mér þannig að ég fái nú heila brú í þennan málflutning.