Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:17:12 (2268)

1997-12-15 17:17:12# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:17]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að um ákveðið orðalag sé samkomulag innan nefndarinnar þó svo það sé sett inn í lögin í mismunadi greinum. Ef þessi breyting tryggir það að t.d. framkvæmdin Suðurlandsskógar fari án nokkurs vafa í mat á umhverfisáhrifum og fasta áætlunargerð, þá er þetta til bóta vegna þess að þar er vissulega um stóra framkvæmd að ræða þar sem veruleg breyting getur orðið á náttúrufari öllu, ekki bara gróðurfari heldur öllu náttúrulífi á viðkomandi svæði. Á sínum tíma var dregið í efa að þetta væri framkvæmd sem ætti að fara í mat á umhverfisáhrifum. Ef sú breyting sem hér er lögð til --- bæði af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og öðrum nefndarmönnum, þó á mismunandi hátt sé, ég tel reyndar að sú breyting sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson leggur til sé eðlilegri, það sé eðlilegra að þessi lagabreyting komi í 9. gr. --- ef breytingin tryggir það að framkvæmdir eins og Suðurlandsskógar fari án nokkurs vafa í mat á umhverfisáhrifum, þá er þetta til góðs.