Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:18:30 (2269)

1997-12-15 17:18:30# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. nefndi lög um Suðurlandsskóga, þá er alveg ljóst að gert er mjög ákveðið skipulag, þ.e. eftir að bændur hafa sótt um leyfi til að fara út í skógrækt, þá koma fulltrúar frá Suðurlandsskógum og gera mjög ítarlega athugun á jörðum. Þeir skrá náttúruminjar og þess háttar og unnið er í mjög góðri samvinnu við fulltrúa Skipulags ríkisins. Ef um einhvern minnsta vafa er að ræða í þessum efnum þá stoppar Skipulag ríkisins viðkomandi aðila af en í mjög mörgum tilfellum er um eðlilegar framkvæmdir að ræða. Þetta er mjög nákvæm skráning sem á sér stað hjá starfsmönnum Suðurlandsskóga þannig að ljóst er að telji Skipulag ríkisins að viðkomandi framkvæmd þurfi að fara í umhverfismat, því að þarna er um mýmargar jarðir að ræða, fjölmargir aðilar sem hafa áhuga á þessu, og komi upp einhver slíkur vafi, þá er það ekki barið í gegn að öðru leyti en því að það þarf að fara sinn veg.