Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:21:29 (2271)

1997-12-15 17:21:29# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, KH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:21]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hluta umhvn. án nokkurs fyrirvara og gerði það sannarlega í góðri trú en eftir því sem umræðan virðist hafa þróast hér í dag og eftir því sem fram kom á aukafundi umhvn. í morgun, þá held ég að nauðsynlegt sé að fram komi hvernig ég túlka það álit og þær brtt. sem gerðar eru. Því miður hef ég ekki getað hlustað á allar umræðurnar. Ég er í þeirri stöðu núna að þurfa að hlaupa á milli húsa því verið er að afgreiða ýmis mál í fjárln. sem nauðsynlegt er að vera við. Það sem fyrst og fremst er um að ræða er í sambandi við brtt. nefndarinnar við 27. gr. laganna. Sú brtt. kom fram á fundi þar sem ég í raun var að kynnast þeirri brtt. í fyrsta sinn því að af óviðráðanlegum ástæðum gat ég ekki verið viðstödd fundinn þar á undan þar sem þessi mál munu hafa verið til umræðu. En allt um það. Ég treysti félögum mínum ágætlega og skildi það svo að ekki væri þarna um ýkjamikla breytingu að ræða, enda var ágætlega frá þessu atriði gengið að mínu mati við afgreiðslu málsins í vor, þ.e. að við værum öll með hinn sama skilning á því hvernig skógrækt, landgræðsla og fleira því tengt félli að þessum lögum.

Ég er með nál. sem fylgdi afgreiðslu umhvn. á síðasta þingi og þar segir m.a. um þá grein, 27. gr. í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

,,Með 27. gr. er lagt til að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um framkvæmdaleyfi. Á það við um framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi og hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess. Falla skógrækt, landgræðsla og efnistaka til dæmis þarna undir. Framkvæmdir þessar þurfa að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og fara skal um þær eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem það á við. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaleyfi falli úr gildi ef framkvæmdir eru ekki hafnar innan tólf mánaða frá útgáfu þess.``

Þarna er sú grein skýrð og ég taldi að við værum öll sammála um það. Þess vegna leit ég ekki á það sem nein frávik frá þessari túlkun og þeim skilningi allra nefndarmanna að gerð væri örlítil orðalagsbreyting á þeirri grein á afgreiðslu nefndarinnar núna þegar hún var að gera nokkrar nauðsynlegar breytingar á lögunum áður en þau taka gildi 1. janúar nk. En það hefur nú komið í ljós við umræður í nefndinni að það eru ekki allir nefndarmenn sem túlka þetta á sama hátt og þess vegna er nauðsynlegt að fram komi hvernig hver og einn túlkar þessa grein og þær breytingar sem hafa orðið vegna þess að þetta er mjög mikilvægt atriði. Málið snýst sem sagt í raun og veru um það hvort tryggt sé eftir þessa breytingu að framkvæmdaleyfi þurfi vegna landgræðslu- og skógræktaráætlana sem hafa verið ákveðnar samkvæmt skipulagsáætlunum og mati á umhverfisáhrifum.

Ástæðan fyrir því að þetta þarf að vera ljóst er sú að sé ekki um framkvæmdaleyfi að ræða, þá er ekki með öllu tryggt eftirlit með því að skilyrðum sem sett eru í mati á umhverfisáhrifum sé framfylgt. Það er túlkun skipulagsstjóra að framkvæmdaleyfi þurfi til ef farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum og sett einhver þau skilyrði, sem þarf að tryggja að framfylgt verði. Ég skrifaði undir þetta nál. í góðri trú og þar með er ég meðflutningsmanneskja að þessum brtt. en nú er greinilegt að nefndarmenn eru ekki allir einhuga um að þessi sé niðurstaða okkar. Þess vegna vil ég að það komi alveg skýrt fram í þessari umræðu, að það komi fram skýr skilningur hæstv. umhvrh. á því hvort tryggt sé með þessari breytingu að þær landgræðslu- og skógræktaráætlanir sem hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum, að skilyrt verði að þær þurfi framkvæmdaleyfi. Þar með væri þá tryggt að sveitarstjórnir fylgdu eftir eftirliti með þessum skilyrðum og tryggðu að allt færi fram samkvæmt settum reglum.

Ég held að ég þurfi í raun og veru ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. framsögumanns áðan, hv. 2. þm. Reykn. sem mælti fyrir nál. um túlkun á stærð og umfangi skógræktar og landgræðsluaðgerða. Við erum að gera ákveðna breytingu á greininni í þeirri lagasetningu sem fram fór í vor, að í staðinn fyrir ,,allar`` framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið o.s.frv., komi ,,meiri háttar`` og það finnst mér sanngjarnt. Það er ýmislegt sem maður gæti hugsað sér að óþarfi væri að leita eftir framkvæmdaleyfi fyrir en ég legg áherslu á að skógrækt og landgræðsla hljóta að þurfa að falla undir þessi lög eins og ýmislegt annað sem hefur umtalsverð áhrif á ásýnd landsins. Það er því mín túlkun að ekki þurfi að vera neitt neikvætt í því sambandi heldur að við einfaldlega getum gert okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar það hafi hvort sem við erum að græða upp landið eða spilla því.

Herra forseti. Ég held að ég sé búin að gera grein fyrir skoðun minni í þessu efni og túlkun minni á því sem felst í nál. og brtt. sem meiri hluti umhvn. hefur lagt fram.