Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:48:09 (2277)

1997-12-15 17:48:09# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér kom loksins nokkur botn í þetta mál sem við höfum verið að ræða. Frsm. nefndarálits túlkar það sem viðhorf meiri hluta umhvn. að meiri háttar framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt sem haft geti áhrif á ásýnd lands skuli háðar framkvæmdaleyfi, þó ekki þegar um er að ræða náttúrulega endurheimt landgæða vegna friðunar eða landgræðsluaðgerðir sem lúta þeim reglum sem snerta náttúrulega endurheimt landgæða. Ég er hv. þm. alveg sammála um að ekki sé ástæða til, þegar um er að ræða að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum, að það eigi að vera háð framkvæmdaleyfi.

Mér finnst að sú niðurstaða sem hér er túlkuð, sem leyfir hæstv. umhvrh. að setja regluna um það að meiri háttar aðgerðir í landgræðslu og skógrækt skuli háðar framkvæmdaleyfi, sé eðlileg niðurstaða, niðurstaða sem ég get fyllilega sætt mig við. Þessi niðurstaða hefur jafnframt verið ítrekuð af einstökum nefndarmönnum hér sem hafa ritað undir þetta álit og þar með ekki tekið undir aðrar túlkanir og í trausti þess að sú túlkun fái að standa hér, þá mun ég íhuga að draga til baka brtt. sem ég hef flutt. En ég vænti þess, virðulegur forseti, þó að það sé kannski ekki rétt að nefna í andsvari, að fá að heyra í talsmanni framkvæmdarvaldsins um málið sem e.t.v. er á mælendaskrá.