Skipulags- og byggingarlög

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 17:51:16 (2279)

1997-12-15 17:51:16# 122. lþ. 43.14 fundur 332. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (byggingarnefndir, gjaldtaka o.fl.) frv. 135/1997, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[17:51]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. umhvn. fyrir hennar vinnu við frv. sem hér hefur verið til umræðu nokkurn tíma dags í dag --- það er hér til 2. umr. --- og þær athugasemdir og reyndar smávægilegar breytingar sem gerðar hafa verið eða lagðar hafa verið til á efnisatriðum þess frv. eða þeirra frumvarpsgreina sem settar voru fram af minni hálfu fyrir nokkru síðan. Reyndar ekki löngu síðan því að það hafði dregist nokkuð að koma frv. hér inn og ég þakka þess vegna umhvn. aftur fyrir það hversu röggsamlega hún hefur staðið að verki.

Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það mál heldur kannski fremur í hitt sem hér hefur tekið mestan tíma umræðunnar í dag, þ.e. breytingu á 27. gr. laganna frá því í vor og minna á að ég gat þess í framsöguræðu minni 4. des. sl. að ég óskaði eftir því að nefndin liti á þessa grein og þær athugasemdir sem þá höfðu þegar borist, bæði umhvrn. og landbrn. reyndar einnig sem ég vissi að nefndin mundi fá framsendar, þ.e. þær athugasemdir. Það hefur nefndin gert og umræður hér í dag hafa snúist að mestu um það mál.

Ég vil þakka meiri hluta nefndarinnar fyrir þær breytingar sem hann hefur lagt til og eru fyrst og fremst þær að gera ákvæðið í 27. gr. aðeins þrengra en það var og er í lögunum þar sem segir: ,,Allar framkvæmdir.`` Það var erfitt að búa við svo víðtækt ákvæði fyrir ýmiss konar atvinnustarfsemi og kannski ekki síst fyrir landbúnaðinn. En hér er gerð tillaga um að þetta sé skilgreint sem meiri háttar framkvæmdir og ráðherra skuli síðan kveða nánar á um meðferð þessa ákvæðis með útgáfu reglugerðar og hvað skuli falla undir útgáfu framkvæmdaleyfa.

Ég hef hlýtt á þessar umræður með athygli og ég lýsi ánægju minni með það líka að þó að einhver áherslumunur sé og hafi komið fram í umræðunum þá er niðurstaða þeirra í mínum huga nokkuð skýr, bæði af hálfu frsm. fyrir nefndaráliti meiri hlutans svo og einnig fyrir þau orð sem hv. 4. þm. Austurl. lét falla hér í lokin um að hann gæti þá, að því sögðu og því tilskildu að það væri líka skilningur handhafa framkvæmdarvaldsins, fallið frá sínum brtt. Ég held að það sé mjög mikilvægt ef um málið getur náðst sátt á þennan hátt.

Ég vil, hæstv. forseti, segja það fyrir mína parta að ég tel að gerðar séu jákvæðar breytingar á greininni hvað varðar það að fella út svo altæk ákvæði eins og voru inni og þau viðhorf réttmæt að draga úr því sem hér er tilgreint sem sérstaklega skuli fjallað um eins og skógrækt og landgræðsla. Það er alveg ljóst að ég er sammála hv. frsm. nefndarinnar að ef um meiri háttar framkvæmdir er að ræða, þá þarf auðvitað að fjalla um þær eins og lögin gera ráð fyrir með framkvæmdaleyfum og öðrum þeim aðferðum sem lögin kveða á um. Ég minni á að í greininni segir, bæði eins og hún er í lögunum og eins og brtt. hljóðar, þó dregið sé úr upptalningunni: ,,svo sem``, sem er skilgreining sem dregur fram áherslur en þessi upptalning getur ekki verið bindandi eða lokun á þætti sem talið er eðlilegt að séu í reglugerð um meiri háttar framkvæmdir sem beri að fá framkvæmdaleyfi fyrir.

Við höfum áður rætt nokkuð um það hér á hv. þingi hvernig fjalla skuli um einstakar skógræktaráætlanir og stór verkefni á sviði landgræðslu. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar en minni á að sá sem hér stendur ákvað það á sínum tíma að mikið uppgræðsluverkefni á Hólasandi færi í mat á umhverfisáhrifum. Auðvitað geta verið nokkuð skiptar skoðanir um það hvernig úrskurður umhvrh. var síðar á því verkefni, en verkefnð fór í mat á umhverfisáhrifum. Það er unnið samkvæmt því og ég veit ekki betur en um það sé fullkomið samkomulag. Lögin um mat á umhverfisáhrifum eru að öðru leyti í endurskoðun núna þar sem áfram verður tvímælalaust fjallað um þessa þætti og hvernig á þeim beri að taka þannig að þessi mál eiga eftir að vera áfram í umræðu hjá okkur á hv. þingi og það á eftir að skýrast betur hvernig framkvæmdarvaldinu ber að fylgja eftir óskum og ákvæðum löggjafans, ekki síst þegar við höfum endurskoðað þá löggjöf sem er tiltölulega ný. Hún hefur verið að sanna sig á þessum árum sem hún hefur gilt og endurskoðun er í gangi samkvæmt ákvæðum laganna sjálfra.