Einkaleyfi

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:00:27 (2281)

1997-12-15 18:00:27# 122. lþ. 43.15 fundur 153. mál: #A einkaleyfi# (EES-reglur) frv. 132/1997, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:00]

Frsm. iðnn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, með síðari breytingum, frá iðnn.

Frumvarp þetta er flutt vegna ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um útgáfu viðbótarvottorðs um vernd plöntuvarnarefna.

Reglugerðir þessar mæla fyrir um að sá sem hefur öðlast einkaleyfi fyrir lyfi eða plöntuvarnarefni geti sótt um viðbótarleyfi þannig að verndartími einkaleyfisins lengist um allt að fimm ár. Þessar reglur eru til komnar vegna þess að hinn raunverulegi eða virki gildistími einkaleyfa á þessum sviðum er oft mun styttri en annarra einkaleyfðra uppfinninga. Ástæðuna má rekja til þeirra umfangsmiklu tilrauna sem eru undanfari framleiðslu og markaðssetningar slíkra efna. Ekki er óalgengt að helmingur einkaleyfistímans, sem er 20 ár, líði án þess að heimilt sé að markaðssetja þessi efni. Með ákvæðum reglugerðanna er leitast við að nálgast hinn venjulega virka verndartíma uppfinninga á öðrum tæknisviðum.

Nefndin telur nauðsynlegt að til skýringar fylgi með frumvarpinu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/97, en hún er viðbót við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1610/96. Reglugerðin er hins vegar birt sem fylgiskjal með greinargerð frumvarpsins þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að texti hennar öðlist lagagildi hér á landi. Nefndin telur augljóst að reglugerðinni sé ætlað að vera hluti laganna og eigi því að birtast sem fylgiskjal I með frumvarpinu og jafnframt sé nauðsynlegt að texti ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar birtist sem fylgiskjal II. Iðnaðarnefnd mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Iðnn. er einróma í áliti sínu um málið.