Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:03:55 (2282)

1997-12-15 18:03:55# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:03]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá meiri hluta menntmn. við frv. til laga um háskóla. Frv. er ætlað að tryggja lágmarkssamræmi í löggjöf um háskóla.

Í frumvarpinu er lagt til að sjálfstæði háskóla verði eflt og ábyrgð þeirra aukin jafnframt því sem háskólunum er veitt víðtækara umboð til fjármálaumsýslu. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til skólanna byggist m.a. á fjölda nemenda og að ríkisvaldið semji sérstaklega við hvern skóla til nokkurra ára í senn. Þá er lagt er til að ríkisreknir háskólar verði sjálfstæðar ríkisstofnanir og yfirstjórnir þeirra taki ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, námskeiða, námsmats og rannsókna, hafi skólinn rann sóknarhlutverk. Tilgreind eru sérstaklega þau svið þar sem ráðherra skal setja sérstakar reglur. Er það aðallega á þeim sviðum þar sem nauðsynlegt er að tryggja samræmi í skólastarfinu.

Samkvæmt frumvarpinu eiga háskólarnir að bera meginábyrgð á starfsemi sinni en hlutverk ráðuneytisins verður fyrst og fremst að fylgjast með því að skólarnir framfylgi þeim áætlunum sem þeir hafa sett sér og að þeir uppfylli þær kröfur sem þeir gera til kennslunnar. Þá er gert ráð fyrir að staða rektorsembætta verði efld og að þeim verði falið ráðningarvald yfir öllum undirmönnum sínum þar sem annað er ekki tekið fram berum orðum í lögum. Gert er ráð fyrir að staða rektors sé auglýst bæði innan og utan háskólasamfélagsins en hver háskóli tilnefnir hins vegar þann sem samstaða er um. Mismunandi er hvernig tilnefningin fer fram og er gert ráð fyrir nánari fyrirmælum um hana í sérlögum hvers skóla. Þá eru lagðar til breytingar á skipulagi skólastjórnar þannig að menntamálaráðherra skipi fulltrúa til setu í háskólaráði og að háskólafulltrúum verði fækkað. Jafnframt er lagt til að ráðherra setji almennar reglur um kærumál nemenda.

Nokkrar umræður urðu í nefndinni um 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um gjaldtöku af nemendum. Meiri hlutinn ítrekar að hér er um rammalöggjöf að ræða og er það skilningur hans að með gjaldtöku af nemendum í ríkisháskólum sé átt við gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem nemendum er veitt, sbr. skrásetningargjald í 4. gr. frumvarps til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.

Meiri hluti menntamálanefndar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Þær eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 5. málsl. 1. mgr. 13. gr. um kjörgengi fulltrúa í háskólaráð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fulltrúar í háskólaráði séu hvorki kjörgengir í stöðu deildarforseta né í deildarráð og þeir geti ekki gegnt stjórnunarstöðum í deildum. Meiri hlutinn leggur til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að fulltrúarnir séu að jafnaði hvorki kjörgengir í stöðu deildarforseta né í deildarráð. Með því er komið til móts við þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að hafa svigrúm í lögunum til að bregðast við sérstökum aðstæðum í einstökum háskólum, enda séu færð rök fyrir þeim eftir almennar umræður á vettvangi viðkomandi háskóla og fallist á þau við gerð sérlaga.

Í öðru lagi er lögð til breyting á síðari málslið 2. mgr. 14. gr. varðandi skipunartíma rektors. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skipunartími rektors sé fimm ár og að framlenging sé óheimil. Var sú regla sett fram í ljósi þess sjónarmiðs að óæskilegt væri að vísindamenn sem taka að sér að gegna stöðu rektors verji til þess of löngum tíma frá vísindastörfum þar sem þekking þeirra og þjálfun nýtist best. Leggur meiri hlutinn til að framlenging verði heimil en eðlilegra þykir að rektor eigi kost á að sækjast eftir framlengingu skipunar. Ef rektor sækist eftir framlengingu er skylt að auglýsa rektorsstöðuna.

Lagt er til að við 14. gr. bætist ný málsgrein þar sem mælt er fyrir um að rektor verði ekki leystur frá störfum án þess að slíkt sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess. Er ákvæðinu ætlað að taka af allan vafa um að ekki er unnt að leysa rektor frá störfum án samþykkis meiri hluta háskólaráðs.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á fyrri málslið 17. gr. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að háskólaráð geti skipt deild upp í skorir að fengnum tillögum deildarráðs. Meiri hlutinn leggur til að þess í stað geri deild þessar tillögur þar sem deildarfundur er æðsta yfirstjórn deildar og ekki er sjálfgefið að deildarráð sé til staðar í öllum deildum.

Í fjórða lagi er breytingartillaga við 1. mgr. 19. gr. sem miðar að því að skýra frekar innihald þeirra samninga sem menntamálaráðherra er heimilt að gera við hvern skóla í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Ákvæðið er í samræmi við 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, sem samþykkt voru á 121. löggjafarþingi, en þar er einstökum ráðherrum veitt heimild til ákveðinna samningsgerða við ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila.

Í fimmta lagi er í 20. gr. lögð til orðalagsbreyting til samræmis við orðanotkun frumvarpsins.

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umfjöllunar var lagt fram á Alþingi sl. vor. Þá varð samkomulag í menntmn. um að fresta málinu vegna eindreginna óska frá Háskóla Íslands sem taldi sig þurfa lengri tíma til að skoða málið. Jafnframt var samkomulag um það í menntmn. að ljúka málinu eða umfjöllun málsins fyrir áramót. Forráðamenn Háskóla Íslands gagnrýndu IV. kafla frv., einkum 13. og 14. gr. og töldu menn þar á bæ að ekki væri tekið nægilegt tillit til sérstöðu Háskóla Íslands. Meiri hluti menntmrn. hefur komið til móts við þessa gagnrýni með brtt. sínum við 13. og 14. gr. frv. og telur að þokkalegri sátt sé þar með náð um helstu ágreiningsefni þessa máls við háskólann.

Rammalöggjöf um háskóla hefur lengi verið í undirbúningi. Það kom glöggt fram, bæði í umsögnum frá þeim skólum sem málið snertir og í máli forráðamanna þeirra sem komu á fund nefndarinnar við umfjöllun málsins, að almenn ánægja ríkir með framlagningu þess þegar á heildina er litið. Rétt er að árétta að þessi löggjöf inniheldur einungis einfaldar meginreglur um starfsemi háskóla. Endurskoða þarf löggjöf hvers háskóla til samræmis við rammalöggjöfina innan tveggja ára frá gildistöku þessara laga.

Með frv. er stigið framfaraskref í eflingu háskólamenntunar. Á undanförnum árum hafa verið sett ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og með rammalöggjöfinni um háskóla er lokið heildstæðri lagasetningu um öll skólastig hér á landi.