Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:12:22 (2283)

1997-12-15 18:12:22# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:12]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti menntmn. sem liggur fyrir á þskj. 528 en ásamt mér eru hv. þm. Svavar Gestsson og Guðný Guðbjörnsdóttir aðilar að því minnihlutaáliti.

Á vorþingi var lagt fram frv. um háskóla. Þá voru gerðar ýmsar athugasemdir við frv. Flestir þeir sem málið varðaði með einhverjum hætti gerðu athugasemdir og komu með ábendingar. Þó var ljóst að mjög margir talsmenn þeirra skóla sem verið hafa á svokölluðu gráu svæði fögnuðu frv. Þá fýsti mjög að það næði fram að ganga, enda væri með lögfestingu þess verið að rétta mjög og skýra þeirra stöðu. Raunin er að sjálfsögðu sú að þeir skólar sem hafa verið að vaxa úr því að vera framhaldsskólar upp í að vera eins konar háskólar vilja átta sig betur á stöðu sinni. Jafnframt er ljóst að ekki voru allir jafnsælir með það frv. sem fyrir lá og ýmsar alvarlegar athugasemdir komu fram, einkum frá Háskóla Íslands og stúdentaráði Háskóla Íslands.

Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hlutans, þá benti Háskóli Íslands einkum á það að með IV. kaflanum væri skólanum settar ónauðsynlegar skorður og að samræming um skipulag háskólaráða og ráðningu rektora hefði ekkert sjálfstætt gildi. Afgreiðslu frv. var síðan frestað sl. vor að beiðni Háskóla Íslands. Síðan var það endurflutt á þessu þingi, ótrúlega lítið breytt miðað við þær alvarlegu athugasemdir sem fram komu.

[18:15]

Það kemur eins og ég sagði ótrúlega lítið breytt inn í þingið. Ég held að við höfum mörg hver trúað því að frestunarbeiðni Háskóla Íslands, sá vilji til samstarfs um breytingar á frv. sem þar kom fram og þær ábendingar sem háskólinn kom með mundu skipta meira máli. Við trúðum því að meira tillit yrði tekið til þeirra en reyndin varð.

Herra forseti. Í upphafi máls míns vil ég fá að fara yfir tillögur Háskóla Íslands um breytingar á frv. Eins og hér hefur komið fram, þá var fyrsta tillaga háskólans sú að ekki yrði kveðið á um stjórn ríkisháskóla í frv. umfram það sem segir í 3. gr. þess. Þar með félli IV. kafli frv. niður en hann lýtur að stjórn ríkisháskólanna.

Í öðru lagi gerði Háskóli Íslands þá tillögu að yrði IV. kafli áfram hluti frv. þá yrðu gerðar aðrar breytingar á frv. Tillaga þeirra var sú að 2. málsl. 1. mgr. orðaðist þannig að ákvæði IV. kafla laganna gilti einvörðungu um ríkisháskólana en heimilt yrði að víkja frá einstökum ákvæðum kaflans í sérlögum um ríkisháskóla. Með þessari tillögu var Háskóli Íslands að fara fram á að sérstaða hans, sem er mikil, fengi að njóta sín að einhverju. Með þessu orðalagi fengi háskólinn jafnframt svigrúm til að móta hugmyndir um breytta stjórnskipan háskólans.

Ef þessi tillaga næði ekki fram að ganga var háskólinn með aðra tillöu til vara. Þá að aftan við 3. mgr. 13. gr. bættist ný málsgrein sem yrði 4. mgr. og orðaðist svo:

,,Ákvæði 1.--3. mgr. þessarar greinar gilda ekki ef sérlög einstakra háskóla mæla á annan veg um þau atriði sem þar greinir.``

Varðandi 14. gr. sem snýr að ráðningu rektors, hafði háskólinn tillögu um að við 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. mundi bætast: ,,nema öðruvísi sé kveðið á um stöðu rektors í sérlögum.``

Tillögur háskólans miðuðu sem sagt að því, herra forseti, að tekið yrði tillit til mikillar sérstöðu Háskóla Íslands. Varðandi þessi atriði í 13. og 14. gr. yrði sú opnun að hægt yrði að skipa þeim með þeim hætti sem Háskóla Íslands hentaði betur í sérlögum.

Ég sé á brtt. meiri hlutans og heyri á hv. frsm. meiri hlutans að menn þar á bæ telja sig vera að mæta gagnrýni háskólans með þeim brtt. sem fyrir liggja. Það má til sanns vegar færa að þær eru örlítið í áttina. En herra forseti, þær eru einungis örlítið í áttina og eftir stendur að frv. er hálfgert klúður hvað varðar stjórnunarkaflann.

Herra forseti.Tvö meginefnistriði þessa frv. til laga um háskóla eru þess eðlis að minni hluti menntmn. lýsir við þau fullri andstöðu. Þau eru í fyrsta lagi ofstjórnarárátta gagnvart háskólastiginu en sú ofstjórnarárátta kemur fram í ýmsum greinum frv. og má kannski segja að upptalning mín áðan á tillögum háskólans um breytingar lýsi því nokkuð vel.

Í öðru lagi, herra forseti, lýsir minni hluti menntmn. fullri andstöðu við þá grundvallarbreytingu sem hér verður á íslensku skólakerfi, verði 19. gr. og 26. gr. frv. samþykktar óbreyttar. Með þeim yrðu engar lagalegar hindranir á því að lögð verði á skólagjöld í opinberum skólum. Auk þessara gagnrýnisatriða eru fjölmörg smærri atriði í frv. sem koma munu fram við þessa umræðu þó að þeirra sé ekki sérstaklega getið í nefndaráliti minni hlutans eða gerð við þau sérstakar breytingartillögur.

Í greinargerð með frv. kemur fram að helsta markmið löggjafar um háskóla eigi að vera að festa það skólastig í sessi sem tekur við af framhaldsskólastiginu. Víðtæk samstaða hefur verið um að nauðsynlegt sé að draga saman þau meginskilyrði sem stofnun þarf að uppfylla til að geta talist háskóli og veita háskólagráðu við námslok. Um þetta hefur ekki verið ágreiningur, herra forseti. Hins vegar gerir minni hlutinn athugasemd við það hve ítarleg ýmis ákvæði frv. eru, jafnvel smásmuguleg, vegna þess að hér á að vera um rammalöggjöf að ræða. Við gagnrýnum áfram að ekki skyldi við yfirferð og samningu frv. tekið tillit til sérstöðu Háskóla Íslands en hann er bæði fyrsti, langelsti og auk þess langstærsti og fjölmennasti háskóli þjóðarinnar. Litið hefur verið fram hjá sérstöðu skólans og þeim hefðum og venjum sem Háskóli Íslands hefur haft í heiðri frá upphafi.

Háskólinn hefur, eins og fram hefur komið, knúið fram lágmarksbreytingar og fundið einhverjar leiðir til að lifa við stjórnunarkafla frv. þó auðvitað sé ekkert víst í því efni vegna þess að frv. til sérlaga um Háskóla Íslands hefur ekki verið sýnt. Það er óskiljanlegt, herra forseti, að ekki skuli hafa verið orðið við óskum skólans um að þeim ákvæðum sem ágreiningur hefur verið um, yrði einfaldlega vísað í sérlög um háskólann. Þar er einmitt komið að hinu stóra gagnrýnisefni minni hlutans sem beinist að þeirri ofstjórnaráráttu sem fram kemur í frv. og hefur af sumum verið orðuð þannig að héðan í frá verði miðstýring reglan, sjálfstæðið skólans og lýðræðið undantekning.

Frá upphafi hefur rektor Háskóla Íslands verið valinn af háskólasamfélaginu og val hans tilkynnt Stjórnarráðinu eða menntmrn. Sami háttur hefur verið hafður á í Kennaraháskóla Íslands. Þetta fyrirkomulag styðst við aldargamlar hefðir sem við erlenda háskóla þykja nauðsynleg forsenda frelsis og sjálfstæðis háskóla gagnvart stjórnmálalegu valdi.

Í þessu samhengi er athyglisvert, herra forseti, að í greinargerð með frv. um háskóla er alveg sérstaklega rætt um hvað það sé mikilvægt að auka sjálfstæði háskóla gagnvart ríkisvaldinu. Með leyfi forseta vil ég vitna í greinargerð frv. um háskóla en þar stendur á 8. síðu:

,,Á vegum Evrópuráðsins hefur mikil umræða farið fram um stöðu æðri menntunar á undanförnum árum. Sérstök nefnd um stöðu æðri menntunar og rannsókna, The Higher Education and Research Committee, hefur unnið að sérstöku verkefni um endurskoðun á löggjöf um æðri menntun. Þar hefur sérstaklega verið lögð áhersla á að endurskoða samband eða tengsl háskólastofnana við ríkisvaldið, m.a. með það í huga að auka sjálfstæði þeirra gagnvart ríkisvaldinu án þess að veikja stjórnsýslu þeirra. Sérstakt vægi fékk þetta verkefni eftir að mörg ríki Austur-Evrópu höfðu fengið inngöngu í Evrópuráðið.``

Mér fannst nauðsynlegt, herra forseti, að lesa þetta hér vegna þess að mér sýnist að við séum að sigla í öfuga átt við það sem þarna er rætt um. Þarna er greinilega fjallað um að losa háskóla undan stjórnmálalegu áhrifavaldi á sama tíma og verið er að leggja það til að á Íslandi verði sett rammalöggjöf um háskóla þar sem bein pólitísk áhrif eru aukin. Samkvæmt frv. á að breyta því frelsi og sjálfstæði sem verið hefur og gera rektora háskólanna að embættismönnum sem menntmrh. hefur boðvald yfir. Menntmrh. hefur þó, miðað við brtt. meiri hlutans, hopað aðeins í þessu máli þó hann haldi fast við að rektorar allra háskólanna skuli stjórnsýslulega vera embættismenn og þar með undirmenn hans.

Einnig er samkvæmt frv. fyrirhugað að gjörbreyta háskólaráði Háskóla Íslands og fækka þar fólki til samræmingar við það sem á að verða í minni háskólunum. Af þeim 10 fulltrúum sem eiga að sitja í háskólaráði, þeir geta þó orðið færri, þá skal menntmrh. skipa tvo. Hér er, herra forseti, um algera stefnubreytingu að ræða þar sem ráðherra getur með svo beinum hætti blandað sér í innri mál háskólanna.

Í skýrslu þróunarnefndar sem vitnað er til í frv. er lagt til að tveir fulltrúar háskólaráðs komi að utan. Lagt er til að rektor velji þessa tvo fulltrúa úr hópi sex fulltrúa þar sem menntmrh. geri tillögu um þrjá og samtök atvinnulífsins um aðra þrjá. Í frv. um háskóla eru þessar hugmyndir notaðar sem skálkaskjól svo hægt sé að setja inn ákvæði um að ráðherra skipi beint og án tilnefningar, að því er virðist, tvo af fulltrúunum í háskólaráði. Herra forseti, rétt er að hér komi fram að ráðuneytið kynnti málið þannig að það fyrirkomulag að ráðherrann skipi tvo af fulltrúunum í háskólaráð væri í samræmi við tillögur þróunarnefndar. Það er talið í samræmi við það sem ég var að lesa hér áðan um að menntmrh. ætti að tilefna þrjá, atvinnulífið þrjá og rektor síðan að velja tvo þeirra. En eins og segir í fréttatilkynningu menntmrn. frá því frv. var lagt fram sl. vor, með leyfi forseta:

,,Tveir fulltrúar skulu skipaðir af menntmrh. til tveggja ára í senn. Er það fyrirkomulag í samræmi við tillögur þróunarnefndar Háskóla Íslands.``

Ég átta mig ekki alveg á því hvað er í samræmi. Þó virðist samræmi milli þess að minnst er á tvo fulltrúa, bæði í tillögu þróunarnefndar og í frv. en þar með sýnist mér líka að samræminu sé lokið, herra forseti. Eigi að gera ráð fyrir fulltrúum að utan, fulltrúum sem eitt sinn voru kallaðir þjóðlífsfulltrúar, þá væri mun betra að fara hreinlega eftir þeirri hugmynd sem fram kemur í skýrslu þróunarnefndar. Í sérlögum hvers háskóla kæmi þá fram hverjir hefðu þá tilnefningarrétt á móti menntmrh. Vilji menn halda við það að menntmrh. skipi fulltrúana, þá verði ákveðinn tilnefningarferill sem tryggi faglega meðferð ákveðinn í sérlögum hvers skóla.

Herra forseti. Auk þess sem hér hefur komið fram um aukin afskipti menntmrh., þá er ætlunin að ákveða í rammalöggjöf hverjir af kennrum háskólanna megi sitja í háskólaráði. Samkvæmt frv. mega deildaforsetar ekki sitja í háskólaráði. Þessi ákvæði um skipun rektors, um kennarafulltrúana og skipun fulltrúa menntmrh. í háskólaráð, miða að því að veikja sjálfstæði háskóla og gera þá háðari pólitísku valdi. Þessi ákvæði gagnrýnir minni hlutinn harðlega.

Hitt efnisatriðið sem minni hlutinn lýsir algerri andstöðu við er að með þessu frv. er opnað á skólagjöld í opinberum skólum. Þess sér annars vegar stað í 26. gr. frv. en með samþykkt hennar falla úr gildi lög um skólakerfi frá 1975. Í 6. gr. þeirra laga segir: ,,Kennsla er veitt ókeypis í opinberum skólum.`` Við hljótum að velta því fyrir okkur hvaða nauðir reka til þess að þessi lög séu felld úr gildi einmitt nú. Þær skýringar sem fram hafa komið eru ófullnægjandi. Ljóst er, herra forseti að sú viðspyrna, gegn hugmyndum um skólagjöld í opinberum skólum sem falist hefur í lögum um skólakerfi, er þar með farin. Hins vegar segir í 19. gr. frv.:

[18:30]

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla.`` Hér er verið að heimila gjaldtöku vegna náms, án þess að það sé skilgreint frekar.

Skilningur meiri hlutans er sá að þegar um nemendur í ríkisháskólum sé að ræða sé eingöngu átt við gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem nemendum er veitt, samanber skrásetningargjald í kennaraháskólafrv. En við hljótum að spyrja: Ef þetta orðalag dugar einkaháskólunum til að leggja á skólagjöld hví skyldi það ekki duga ríkisháskólunum líka? Annað hlýtur að þurfa að taka sérstaklega fram í lögunum sjálfum eins og brtt. minni hlutans gera ráð fyrir. Það hlýtur að þurfa að taka það fram í lögunum sjálfum ef ákvæði þessa málsliðar eiga ekki við ríkisháskólana. Ef þau eiga við ríkisháskólana með svo sértækum hætti, þá hlýtur að vanta eitthvað inn í lagagreinina. Ég geri því ráð fyrir að ef menn vilja segja þetta berum orðum hljóti að vera hægt að ná samkomulagi um breytingar á greininni.

Ef þessi ákvæði, herra forseti, þ.e. 26. gr. verður samþykkt og felld út lögin um skólakerfi annars vegar og hins vegar 19. gr. eins og hún liggur fyrir í frv., þá er verið að gera grundvallarbreytingu á íslensku skólakerfi. Hingað til hefur verið bannað að taka gjald fyrir kennslu í opinberum skólum.

Minni hlutinn varar við afleiðingum þess að slík samþykkt verði keyrð í gegn. Með slíkri lagabreytingu, sem auðvitað sýnir póltískan vilja, er verið að stíga fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að afnema jafnrétti til náms. Nú er það svo, herra forseti, að þeir skólar sem flokkaðir hafa verið sem einkaskólar hafa vissulega tekið skólagjöld. Opinberu skólarnir hafa hins vegar ekki gert það og ekki mátt það. Þeir hafa tekið svokallað skrásetningargjald. Á bak við það gjald hefur verið ákveðin skilgreind þjónusta.

Ég er sannfærð um að ef samfélag okkar siglir inn á þá braut að að taka upp skólagjöld í ríkisháskólum þá mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Það mun sannanlega raska möguleikum ýmissa til náms og þar með því jafnrétti til náms sem við höfum viljað trúa að væri í okkar samfélagi. Þó er kannski verra að það mun treysta enn frekar þá tilfinningu fólksins í landinu að hér sé fólki mismunað. Vissulega er fólki mismunað á ýmsum sviðum. En okkar litla samfélag þolir mismunun verr en stærri og stéttskiptari samfélög gera. Ég held því að það sé háskaspor ef menn láta sig dreyma um að koma hér á skólagjöldum í öllum háskólum. Ég held að fyrirkomulagið nú, að opinberir háskólar séu án skólagjalda en einkaskólarnir hafi til þess einhverjar heimildir, sé fyrirkomulag sem við ættum ekki að hverfa frá.

Í umræðum í nefndinni kom fram að túlkun minni hluta og meiri hluta á þeim ákvæðum sem lúta að skólagjöldum er ekki sú sama. Hins vegar hlýtur minni hlutinn að horfa til þess hvernig fjallað hefur verið um skólagjöld af hálfu menntamálayfirvalda og þá ekki síst hæstv. menntmrh. Eins og menn þekkja þá hefur hann fjallað nokkuð um skólagjöld í sínum skrifum og það með tiltölulega jákvæðum formerkjum. Hæstv. menntmrh. hefur m.a. fjallað um skoðanir sínar og annarra á skólagjöldum á netinu og þar segir hann, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég hef sagt að í umræðum um skólagjöld verði menn í senn að huga að stöðu þeirra stofnana sem innheimta þau og framtíð þeirra og hins vegar einnig að félagslegu hliðinni sem snýr að námsmönnum. Í vikuritinu The Economist, sem er dagsett 4. október 1997, er sérstök úttekt á háskólum og stöðu þeirra við núverandi aðstæður. Þar segir að sterk rök hnígi að því að innheimta einhver skólagjöld. Í lauslegri þýðingu segir svo í blaðinu.`` --- Síðan kemur lausleg þýðing ráðherrans, herra forseti: ,,Í fyrsta lagi er félagslega sanngjarnt að innheimta skólagjöld. Háskólastúdentar koma yfirleitt frá fjölskyldum sem standa bærilega fjárhagslega. Með því að veita þeim ókeypis háskólamenntun, á kostnað skattgreiðenda, eru hinir fátæku að styðja hina ríku. Auk þess er háskólamenntun góð einkafjárfesting sem stuðlar að hærri launum nemandans síðar á ævinni. Með öðrum orðum mundi það venjulega borga sig fyrir fólk að leggja á sig háskólanám þótt það væri ekki styrkt af almannafé.`` Hér lýkur tilvitnun minni, herra forseti, í það sem ráðherrann segir um þessi mál á netinu.

Lái manni hver sem vill þó maður hafi ákveðnar grunsemdir um að það eigi að beita þeim ákvæðum sem eru í frv. eftir að hafa kynnt sér málflutning ráðherrans. Þar fyrir utan er það sem fram kemur í lauslegu þýðingunni svo sannarlega eitthvað sem á við allt annað samfélag en okkar. Við könnumst ekki við það á Íslandi að háskólastúdentar komi yfirleitt frá fjölskyldum sem standi bærilega fjárhagslega. Við höfum a.m.k. viljað trúa því að hingað til hafi háskólastúdentar komið úr öllum lögum þjóðfélagsins. Og við viljum hafa það þannig. Við höfum heldur ekki orðið vör við að háskólamenntun væri svo góð einkafjárfesting, og stuðlaði að hærrum launum nemandans síðar á ævinni, ekki a.m.k. í opinbera geiranum. Rökstuðningur af þessu tagi á engan veginn við okkar samfélag. Hann er rangur og óheiðarlegur. Hins vegar er það alveg rétt og hefur oft komið fram í umræðu um skrásetningargjöld hér á hv. Alþingi að það væri full ástæða til þess að fjalla um skólagjöldin. Við gætum tekið hana undir umræðum um þetta frv. --- nægt er tilefnið.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að skoða fleira varðandi þær breytingar sem eru að verða á háskólastiginu. Samkvæmt 6. gr. frv. um háskóla munu allir háskólar geta ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði. Þeir skólar sem flytjast á háskólastig þegar þetta frv. verður að lögum hafa flestir ef ekki allir verið með ákveðin viðbótarskilyrði enda hafa þeir flokkast sem sérskólar fram til þessa. Háskóli Íslands hefur líka beitt fjöldatakmörkunum í afmörkuðum greinum. Annars hefur skólinn verið sannkallaður þjóðskóli þar sem þeir sem hafa stúdentspróf eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu, hafa fengið að spreyta sig á því námi sem hugur þeirra hefur staðið til. Við eigum eftir að sjá hvernig frv. til sérlaga um Háskóla Íslands mun líta út og því er ekki ljóst hvort ákveðin verða einhver viðbótarskilyrði inn í allar deildir Háskóla Íslands. Hins vegar mikilvægt að háskólinn geti áfram haldið þeirri sérstöðu sinni að fólk fái að spreyta sig á því námi sem hugur stendur til þó innan einhverra marka verði að vera.

Þær breytingar á íslenskri menntastefnu sem boðaðar eru og hér hafa verið tíundaðar eru ekki áherslubreytingar eins og einhverjir vilja láta í veðri vaka heldur grundvallarbreytingar á því menntakerfi sem við höfum byggt upp og hefur gefið öllum tækifæri til að sýna getu sína án tillits til efnahags.

Brtt. minni hlutans eru á sérstöku þingskjali. Þær lúta aðallega að þessum tveimur atriðum sem ég hef nefnt sem höfuðgagnrýnisatriði minni hlutans. Annars vegar ofstjórn sem rýrir sjálfstæði háskóla og hins vegar að heimilt verði að innheimta skólagjöld í opinberum skólum. En brtt. eru:

Í fyrsta lagi varðandi 13. gr., um fulltrúa í háskólaráð, þá fulltrúa sem áttu að koma að utan. Í 4. málsl. 1. mgr. bætist við: ,,Tilnefning þeirra ákvarðast í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla.`` Hér er gerð tillaga um að í stað þess að ráðherra skipi að eigin geðþótta tvo fulltrúa í háskólaráð komi ákvæði um það í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers skóla að þeir fulltrúar sem ráðherra skipar skuli vera tilnefndir af aðilum sem þekkja til mála varðandi hvert það svið sem háskólarnir eru að fást við eða þær áherslur sem þeir vilja leggja. Þannig verði tryggt að faglegt mat ráði því hverjir veljast til setu í háskólaráði en ekki pólitískur geðþótti ráðherra.

Í öðru lagi, herra forseti, er í 14. gr. sem fjallar um stöðu og sjálfstæði rektors lagt til að við 1. málsl. 1. mgr. bætist: ,,nema á annan hátt sé kveðið á um stöðu rektors í sérlögum.`` Hér tekur minni hlutinn undir með Háskóla Íslands en af hálfu talsmanna hans hefur verið lögð áhersla á að skipan rektors geti verið með mismunandi hætti milli háskóla og samræming þessa ákvæðis hafi ekkert sjálfstætt gildi umfram samræminguna eina. Slík samræming getur tæpast verið pólitískt markmið í sjálfu sér. Svo er ekki heldur varðandi önnur mikilvæg atriði í frv., svo sem skilgreiningu á háskóla og hvort iðkun rannsókna teljist nauðsynlegur þáttur í slíkri skilgreiningu. Í því efni þykir ekki ástæða til samræmingar af hálfu meiri hlutans. Minni hlutinn leggur því til að í sérlögum hvers háskóla verði tekið á því hvernig kveðið skuli á um stöðu rektors.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á 19. gr. og þar verði með breyttu orðalagi fyrri málsliðar 3. mgr. tryggt að gjaldtaka vegna náms eigi einungis við um einkaskóla en ekki opinbera skóla. Bæði verði orðið ,,sérlög``, sem einkum er notað um ríkisskólana, fellt út úr textanum og skýrt sérstaklega með nýju orðalagi að ákvæði málsliðarins eigi eingöngu við um aðra skóla en ríkisháskóla. Þannig verði sagt berum orðum að gjaldtaka vegna náms sé einungis heimil í öðrum háskólum en ríkisháskólum.

Þá er jafnframt lagt til að skrásetningargjald geti aldrei orðið hærra en sem nemur tilteknum nánar skilgreindum kostnaði og að slíku gjaldi verði aldrei varið til að standa undir almennum rekstrarkostnaði skólans né kennslu. Mikilvægt er að skýra þessa tvo málsliði í 19. gr., þar sem annars vegar er fjallað um kostnað vegna náms og hins vegar um veitta þjónustu.

Í fjórða lagi, herra forseti, lúta brtt. minni hlutans að 26. gr. frv. Eins og ég hef vikið að þá banna lögin um skólakerfi gjaldtöku vegna kennslu í opinberum skólum. Með 26. gr. frv. um háskóla stendur til að fella þessi lög úr gildi. Með því er verið að opna á skólagjöld í opinberum skólum sem er nýmæli og grundvallarbreyting frá því sem verið hefur. Með slíkri lagabreytingu, sem sýnir auðvitað tiltekinn pólitískan vilja, er verið að stíga stærsta skrefið í þá átt að afnema jafnrétti til náms. Minni hlutinn leggur því til að 26. gr. verði felld út úr frv.

Herra forseti. Ég hef farið yfir nál. minni hlutans og vænti þess að umræðan sem hér fer fram verði gagnleg og leiði til þess að breytingar á frv. verði fleiri en þær einar sem fram koma á skjali meiri hlutans.