Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:46:32 (2284)

1997-12-15 18:46:32# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:46]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir eyddi miklu púðri í þá röksemdafærslu sína að í þessu frv. væri verið að veikja sjálfstæði háskóla og hún talaði um ofstjórn í því sambandi. Ég minni á að hér er um rammalöggjöf að ræða. Við megum ekki gleyma því. Þetta frv. sem er hérna til umræðu snýst ekki bara um Háskóla Íslands. Mér þóttu þessar fullyrðingar þingmannsins vera bæði órökstuddar og ómálefnalegar. Ég tel þvert á móti að í þessu frv. sé verið að auka sjálfstæði háskóla og tryggja stöðu þeirra. Í frv. er lagt til að sjálfstæði háskóla verði eflt og ábyrgð þeirra aukin jafnframt því sem þeim er veitt víðtækara umboð til fjármálaumsýslu. Gert er ráð fyrir að fjárveitingar til skólanna byggist m.a. á fjölda nemenda og að ríkisvaldið semji sérstaklega við hvern skóla til nokkurra ára í senn. Þetta tel ég að sé til mikilla bóta. Hvort sem slíkur samningur er kallaður þjónustusamningur eða ekki er skólunum veitt fjárhagslegt svigrúm innan rammasamningsins. Það er lagt til að ríkisreknir háskólar verði sjálfstæðar ríkisstofnanir og yfirstjórnir þeirra taki ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, námskeiða, námsmats og rannsókna. Ég vísa sérstaklega í 3. gr. frv., 10. gr., 11. gr., 13. gr. og 19. gr. sem fjalla um þau atriði sem ég hef nefnt. Ég vil líka alveg sérstaklega gera að umtalsefni hér að ákvæðið um þjóðlífsfulltrúana sem þingmaðurinn nefndi áðan og gagnrýndi að væru skipaðir af menntmrh., hefur ekki vakið neina sérstaka gagnrýni hjá neinum nema stúdentaráði Háskóla Íslands sem hefur valið að beina spjótum sínum sérstaklega að þessu atriði og hefur talað um að ráðherra væri þar með fengið vald til þess að skipa fulltrúa í háskólaráð eftir pólitískum geðþótta. Ég er þessu algjörlega (Forseti hringir.) ósammála. Ég tel að það sé til góðs fyrir háskólana að fá slíka utanaðkomandi aðila inn í háskólaráð.