Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 20:34:10 (2288)

1997-12-15 20:34:10# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[20:34]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er satt að segja dálítið dapurlegt til þess að vita að umræður um menntamál í þessari stofnun skuli helst fara fram á kvöldin og helst þannig að það er yfirleitt heldur fáskipað hér, vegna þess að þetta eru engin smámál sem við erum að ræða og væri full ástæða til þess að hér væru allir eða flestir viðstaddir, þeir sem eiga sæti í þessari virðulegu stofnun.

Herra forseti. Það má segja að það hafi verið vandi menntamálanna á Íslandi um nokkuð langt skeið hvað Sjálfstfl. hefur verið sterkur. Sjálfstfl. hefur farið allt of lengi með menntamál á Íslandi og honum hefur tekist það, m.a. í krafti stefnuleysis síns í kosningabaráttu yfirleitt, að halda sér þannig að hann hefur síðar komist upp með að gera ýmislegt eftir kosningar í stjórnaraðstöðu sem aðrir hefðu ekki komist upp með. Það má segja að afskipti Sjálfstfl. af menntamálum staðfesti það að ógæfu Íslands verður margt að vopni þegar upp er staðið þó að aðstæður séu að öðru leyti eða ættu að geta verið til þess að Íslendingar byggðu upp gott og öflugt menntakerfi. Reyndar er menningin og hin menningarlega áhersla þjóðarhefð Íslendinga þannig að það hefði átt að vera hægt að byggja hér upp og ná mjög víðtækri samstöðu um mjög gott menntakerfi á Íslandi, betra en nokkurs staðar annars staðar. Það gera hefðirnar. Það gera hin almennu viðhorf þjóðarinnar. Það gerir fámennið að sumu leyti sem skapar forsendur fyrir gagnsæjum stjórnkerfum, m.a. í menntamálum. En því miður hefur það ekki nýst m.a. vegna þess að þessi óhæfilega stóri stjórnmálaflokkur, Sjálfstfl., hefur ráðið allt of miklu. Vandi menntakerfisins á Íslandi liggur því í stærð Sjálfstfl. og ég gæti út af fyrir sig farið um það nokkrum frekari orðum. Þetta kemur t.d. mjög vel fram í áherslum í frv. sem hér liggur fyrir og er alveg ótrúleg forneskja satt að segja, eins og það leit út í upphafi. Það er eitt af furðuverkum veraldarinnar hvernig menn gátu slæmt saman þessum frumvarpstextum sem hér liggja fyrir, eins og þeir eru, en þeir beinast fyrst og fremst að því að styrkja vald menntmrn. og menntmrh. yfir háskólunum og líka þeim háskóla sem er gróinn, gamall og reyndur, Háskóla Íslands, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á.

Það má segja að megineinkenni frv. til laga um háskóla sé miðstýring og smásmygli eins og ég mun síðan rekja og rökstyðja í ræðu minni.

Ég ætla hins vegar áður en ég kem að því, herra forseti, að segja að það er alveg nauðsynlegt að fá hér inn í umræðurnar umfjöllun um tölvuháskólann sem var sagt frá í fjölmiðlum í síðustu viku að væri verið að setja á laggirnar. Ég hefði ekki talið óeðlilegt að það hefði verið greint frá honum sérstaklega. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að úr því að þessi tölvuháskóli er sérstaklega kynntur einmitt sömu daga og við erum hér að fjalla um háskólafrv., þá tel ég nauðsynlegt að þetta mál verði aftur tekið fyrir í menntmn. milli 2. og 3. umr. og tölvuháskólinn verði þar kynntur og farið yfir málin, þ.e. hvers lags eiginlega stofnun það er og á hvaða forsendum hann byggir því að þar er greinilega um að ræða mikil pólitísk tíðindi að mati hæstv. menntmrh. og hans flokksfélaga. Einkavæðingin í rekstri háskóla er að ryðja sér til rúms. Það er hlutur sem á að ræða í þessari stofnun, ekki síst á sama tíma og við erum með frv. hér á dagskrá.

Ég tel að frv. um háskóla einkennist í fyrsta lagi, eins og það var upphaflega og er að miklu leyti enn, af miðstýringu og miðstýringaráherslu og það er smásmugulegt. Dæmi um það eru aftur og aftur þannig að talað er um að menntmrh. skuli hafa eftirlit með þessu og hinu og menntmrh. skuli gera þetta og hitt án þess að neinn faglegur ráðgjafi komi til sögunnar. Það er eins og hin faglega fullkomnun í háskólamálum á Íslandi eigi að spretta út úr höfði menntmrh. hver svo sem hann er, eins og segir hér t.d. í 4. gr., með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skal hafa eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar veita ...``

Í sömu grein segir að menntmrh. geti einn afturkallað starfsleyfi háskóla án þess að nokkur annar aðili fjalli um það. Það er nokkuð umhugsunarvert. Ég tók eftir því í umfjöllun málsins í menntmn. að einn og einn menntamálanefndarmaður taldi að þetta væri nokkuð sérkennilegt og velti því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til þess að hafa í lögunum, ef þetta verður að lögum, ákvæði sem tekur af tvímæli um það að háskólum sé hægt að treysta og það sé ekki hægt að fara fram með geðþóttavald, hvorki varðandi stofnun né slit háskóla. Því miður var ekki hlustað á þær ábendingar.

Ég tel í öðru lagi að inngangurinn að 5. gr. eins og hann lítur hér út staðfesti þessa ótrúlegu miðstýringaráráttu núv. hæstv. menntmrh.: ,,Menntamálaráðherra skal setja almennar reglur um eftirfarandi þætti:`` --- þeir eru síðan taldir upp --- sem er algerlega óeðlilegt að menntmrh. geri.

Ég las núna í kvöldmatnum norsku háskólalögin. Það er æðimikið önnur nálgun í þeim lögum. Þau eru heildarlög með þeim hætti að þar eru taldir upp þeir háskólar sem lögin eiga við og þar er gert ráð fyrir því að ákvarðanir af því tagi sem hér eru nefndar í 5. gr. séu í höndunum á yfirstjórnum viðkomandi háskóla í langflestum tilvikum. Í norsku háskólalögunum eru skólarnir taldir upp sem lögin eiga við. Það hefði ég talið vel geta komið til greina að við gerðum í þessu lagafrumvarpi, að telja upp þá skóla sem lögin eiga væntanlega við, frekar en vera með tilraunir til þess að semja rammalög af þessu tagi sem eiga mjög illa við einn mikilvægasta þátt háskólalífsins á Íslandi --- ég segi ekki meira --- þ.e. við Háskóla Íslands. Þessi lög eiga mjög illa við Háskóla Íslands eins og þau eru hér og það hefði mátt komast hjá þeim vanda með því að skrifa inn í lögin sérstök ákvæði um í Háskóla Íslands eins og ég sé að gert er í norsku háskólalögunum þar sem skrifaðir eru inn sérstakir þættir um skóla þegar um undantekningartilvik er að ræða. Og það þarf enginn að skammast sín fyrir það að fara í smiðju til Norðmanna í þessum efnum vegna þess að sá sem lengi var þar háskólaráðherra, Guðmundur Hernes, sem m.a. hefur komið í fyrirlestraferðir til Íslands aftur og aftur, hafði forustu um það að þessi norsku lög um háskóla voru sett.

Í 5. gr. er sem sagt eitt dæmi og í 9. gr. tel ég að sé líka dæmi um þessa smásmygli þar sem farið er yfir það algerlega í smáatriðum hvernig kennsla í háskólum á að fara fram. Þetta hefði maður haldið að ætti ekki að vera ákvörðun löggjafans. ,,Fullt nám telst 30 einingar á námsári að jafnaði.`` Af hverju er þetta í lögum? Hvaða rök eru fyrir því að þetta sé í lögum en ekki t.d. í reglum sem viðkomandi skóla er treyst fyrir að setja, eða skólum í félagi? Í frv. er hvergi gert ráð fyrir því að skólarnir geti haft með sér félag um ákvarðanir sem hefði þó að mínu mati getað verið mjög burðugt og skynsamlegt stjórntæki. Þegar við settum í gang endurskoðun á háskólalögunum fyrir allmörgum árum, þá var einmitt gert ráð fyrir því að háskólarnir gætu haft með sér félag um ákvarðanir, félag um samræmingu, skólarnir (Gripið fram í: Líttu á 24. gr.) sjálfir á hverjum tíma. Ég kem að 24. gr. á eftir.

Ég tel að í 9. gr. sé verið að ganga allt of langt í því að reyra hlutina fasta, þetta á að vera mál sem skólarnir sjálfir geta í grófum dráttum tekið ákvörðun um. Þó kastar nú tólfunum í þessari valdsókn menntmrn. þegar kemur að 13. gr. frv. þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skal skipa allt að tvo fulltrúa til tveggja ára í senn.``

Það eru sem sagt fulltrúar sem geta komið einhvers staðar að og menntmrh. ræður því algerlega hverjir það eru og það er engin tilraun gerð til að skilgreina hverjir þetta eiga að vera. Eiga það að vera einhverjir sem tengjast starfssviði viðkomandi skóla eða hvað? Stúdentaráð Háskóla Íslands hygg ég að hafi bent á þann möguleika að Hollvinasamtök háskólans tilnefndu hóp sem ráðherrann veldi svo úr. Ég fyrir mitt leyti er kannski ekki alveg viss um að það sé eina leiðin sem fær er í þessu efni. Ég gæti séð það fyrir mér að því er þetta varðar að td. háskólaráð viðkomandi stofnunar fengi heimild til þess að velja t.d. fjóra eða sex menn sem hæstv. menntmrh. á hverjum tíma yrði falið að velja úr á ákveðnum forsendum.

Ég tel að alveg óhjákvæmilegt sé að fá það fram á þessu stigi málsins hvað hæstv. menntmrh. hugsar sér að gera við þessa heimild í 13. gr., þ.e. hvernig hann mundi nota hana ef það væri orðið að lögum sem þar er gert ráð fyrir, að menntmrh. skipi alltaf tvo fulltrúa til tveggja ára í senn. Ég held að reynslan af Sjálfstfl. við að skipa fulltrúa í ráð og nefndir ríkisins sé ekki slík að ástæða sé til þess að veita þeim sérstakt traust eins og þarna er gert. Ég held að svo sé ekki. Mér finnst skrýtið að framsóknarmenn skuli taka þátt í þessum leiðangri, þessari valdsókn Sjálfstfl. eins og þeir virðast gera og ég sé ekki að þeir geri neinn fyrirvara við þessa hugsun sem ég vildi þó gjarnan fá upplýsingar um því ég veit ekki betur en sessunautur minn, hv. 7. þm. Reykn., sé hér á mælendaskrá. Það væri t.d. fróðlegt að vita í hverju Framsfl. gæti hugsað sér að hafa hlutina á annan veg í þessu efni vegna þess að ég trúi því ekki að þar séu ekki uppi efasemdir um það að hér sé rétt að hlutunum staðið. Og það segi ég vegna þess að ég þekki ágætlega til í Framsfl. frá fornu fari. (Gripið fram í: Ætti kannski heima þar?) Og gæti vel verið ég ætti heima þar. Hann gæti lagast Framsfl. og svo auk þess hefur þingmaðurinn verið þar, sá sem hér stendur, en síðan eru liðin allmörg missiri.

[20:45]

Ég vík þessu næst að 14. gr. sem er, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir rakti áðan, hin endanlega sönnun þessarar ótrúlegu ofstjórnaráráttu sem hæstv. menntmrh. virðist vera haldinn. Hann hugsaði sér að skipa rektor, að vísu samkvæmt tilnefningu viðkomandi háskólaráðs eftir nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla. En það er alveg bersýnilegt að ráðherrann vill fá þetta vald til sín. Ég hlýt að biðja um rök fyrir því. Hvaða rök eru fyrir því að taka það vald af Háskóla Íslands sem hann hefur sjálfur haft í þessum efnum síðan 1911? Hvaða rök eru fyrir því? Hefur kerfið sem hefur verið í Háskóla Íslands reynst illa? Mér finnst að í þessu ákvæði sé að nokkru leyti verið að láta Háskóla Íslands gjalda þess hvernig ástatt er í öðrum háskólum á Íslandi sem gætu alveg vafalaust sætt sig við fyrirkomulag af því tagi sem hér er. Það er verið að láta Háskóla Íslands og Kennaraháskólann gjalda þess að nokkru leyti, tel ég vera. Ég held því að það þurfi að fá fram hjá hæstv. menntmrh. betri rök en komið hafa fram til þessa í þessu máli, rök fyrir þeirri tilhögun sem þarna er gert ráð fyrir að því er varðar skipun háskólarektors.

Sjötta dæmið sem ég ætla að nefna um þessa miðstýringar- og ofstjórnaráráttu er svo í 20. gr. þar sem fjallað er um kennslukostnaðinn og sömuleiðis í sjöunda lagi þar sem fjallað er um það t.d. að menntmrh. setji nánari reglur um framlög til rannsókna innan skólanna. Er þetta ekki mál skólans? Hvaða fyrirkomulag er það eiginlega sem þarna er verið að gera tillögu um? Síðan segir líka að menntmrh. eigi að setja nánari reglur um framlög til húsnæðismála í áttunda lagi. Og svo þegar samningstíminn sem menntmrh. stofnar hugsanlega til við viðkomandi skóla er liðinn --- það er gerður samningur við skóla um fjárframlög í einhvern tíma --- þá gæti farið svo að það þyrfti að endurskoða samninginn. Og hver á þá að meta samninginn? Annar samningsaðilinn, þ.e. menntmrh. Það er menntmrh. sem á að meta samninginn, eða eins og segir í 21. gr.: ,,Fyrir lok samningstímans skal menntamálaráðherra láta fara fram úttekt á starfsemi viðkomandi háskóla í heild.`` Þetta er alveg ótrúlegt og má segja að þetta ákvæði í 21. gr. stangist á við anda stjórnsýslulaganna. Þarna er menntmrh. falið að meta sinn eigin samning. Ég hefði talið ástæðu til þess að staldra við þetta, herra forseti, um leið og ég mótmæli því.

Ég staldra líka við það sem fram kemur í 22. gr., að: ,,Ríkisháskólum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni.`` Þetta finnst mér að eigi ekki að vera í valdi menntmrh. Þetta finnst mér að háskólinn eigi að geta ákveðið sjálfur.

Ég hef nefnt hér tíu dæmi, herra forseti, sem eru öll þannig að þau staðfesta það sem fram kemur í nefndaráliti minni hluta hv. menntmn., að það er gífurleg ofstjórnarárátta í þessu frv. eins og það lítur út, miðstýringarárátta og sem ber að harma vegna þess að undirstaðan undir þróun háskólasamfélagsins á Íslandi, a.m.k. að því er varðar Háskóla Íslands, hefur einmitt verið frelsi háskólans, bæði rannsóknafrelsi en líka skipulags- og ákvarðanafrelsi. Það er í því alveg fráleitt að standa að þessum málum eins og hér er gert.

Þessu vil ég mótmæla. Þessum tíu smásmugulegu miðstýringaratriðum, herra forseti, vil ég mótmæla alveg sérstaklega í fyrsta lagi, sem meginþætti máls míns.

Annar meginþáttur máls míns lýtur svo að skólagjöldunum. Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. talsmanns minni hluta menntmn. hér áðan að það er verið að marka spor. Það er verið að breyta um stefnu á Íslandi í háskólamálum og kannski í skólamálum yfirleitt í grundvallaratriðum með þessu ákvæði, ákvæði 19. gr. og sérstaklega þessum setningum sem ég ætla nú að lesa, með leyfi forseta, í lok greinarinnar þar sem segir:

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í sérlög hvers ríkisháskóla skal setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða.``

Ég hlýt í framhaldi af þessu að inna eftir því hvað þetta þýðir. Hvað telur hæstv. menntmrh. og hv. formaður menntmn. að þetta þýði? Þýðir þetta að skólarnir gætu tekið skólagjöld fyrir hverju sem er, svo að segja? Hindrar þetta eitthvað að sett yrðu inn í sérlög ákvæði um skólagjöld? Hindrar þetta það að sett yrðu í skipulagsskrá ákvæði um skólagjöld til að kosta almennan rekstur, þar á meðal kennslukostnað í viðkomandi skólum? Ég hygg að það sé alveg ljóst að greinin eins og hún er upp sett er algerlega opin og ég hlýt að spyrja að því hvort það sé virkilega þannig að stjórnarflokkarnir geri sér grein fyrir því að þeir eru þarna að opna fyrir almennri gjaldtöku í skólum með uppsetningu þessarar greinar í fyrsta lagi, en í öðru lagi með því að ríkisháskólunum verður ætlað að starfa við hliðina á einkaskólum sem verða með tiltölulega mjög opnar gjaldtökuheimildir. Til þess að standast samkeppni við einkaskólana geta ríkisskólarnir talið sig nauðbeygða til þess að ganga lengra í gjaldtöku en menn mundu ella vilja gera, sérstaklega á niðurskurðartímum. Þess vegna tel ég að greinin eins og hún lítur út hér sé stórhættuleg og hún er tvímælalaust kaflaskipti. Ég vil sérstaklega beina þessum orðum mínum til Framsfl. sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni sem er sjaldgæft að Framsfl. geri. Yfirleitt hlaupa menn á dyr þegar verið er að ræða um alvarleg, flókin og erfið mál. En að sinni heiðrar okkur með nærveru sinni hv. 7. þm. Reykn., sessunautur minn. (Gripið fram í: Hybrid-þingmaðurinn.) Ég tel að það sé mjög mikilvægt að geta lagt eftirfarandi spurningu fyrir hv. þm.: Hvernig rökstyður framsóknarmaður, sem hakkaði kratana í sig á síðasta kjörtímabili, svona ákvæði? Svo mikið er víst að ég man ekki eftir því að fyrir kosningar hafi þeir vinir mínir framsóknarmennirnir gert grein fyrir því í skólum að þeir ætluðu sér að leggja á skólagjöld. En ég spyr. Mér leikur forvitni á að vita það hvernig þeir réttlæta það fyrir samvisku sinni að leggja á skólagjöld. Það er ekkert í greininni sem hindrar að það verði lögð á skólagjöld. Er það? Það er sagt að þessi grein sé nóg fyrir einkaháskóla, eins og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir benti á. Af hverju er hún þá ekki líka tæk sem skattlagningargrunnur, skólagjaldagrunnur, fyrir ríkisháskóla? Það er alveg augljóst mál að það er verið að brjóta hér í blað í þróunarsögu háskóla á Íslandi. Það er algerlega augljóst mál og auðvitað fráleitt og stórhættulegt að láta þessa grein standa þarna. Ég tel að það ætti að verða eitt fyrsta verkefni almennilegrar ríkisstjórnar sem tæki við hér í þessu landi, sem verður vonandi fyrr en seinna, að afnema þetta ákvæði eins og það lítur hér út. Og ég vil spyrja að því hvort það væru ekki fleiri tilbúnir í þann leiðangur vegna þess að það ýtir undir misrétti og ranglæti í landinu að vera með þennan opna skólagjaldagrundvöll eins og hér er.

Þetta var annar kaflinn í mínu máli, þ.e. varðandi skólagjöld. Sá þriðji snýst um rektorskjörið. Ég ætla ekki að hafa hann langan, vísa til þess sem frsm. minni hluta menntmn. sagði um það mál. Ég ætla bara að bæta því við að ég hefði haft gaman af því að heyra hvaða rök eru fyrir því að menntmrh. eigi endilega að vera að skrifa upp á ákvörðun háskólans um rektor. Hvaða rök eru fyrir því? Af hverju þarf menntmrh. endilega að vera að blanda sér í þetta? Það er ekki nokkur leið að skilja það öðruvísi en svo að menntmrh. telji nauðsynlegt að beita valdi, pólitísku valdi, eða geta beitt pólitísku valdi. Það er því alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, að fá um þetta meiri umræður og fleiri skýringar af hálfu hæstv. ráðherra.

Ég vil þessu næst víkja, herra forseti, að spurningunni um það hvort þetta frv. sé óþarfi. Er brýn nauðsyn á því að leggja fram þetta frv. og gera það að lögum? Mitt svar er að það er ekki ljóst að það sé brýn nauðsyn. Ég hefði talið að það hefði verið mikið skynsamlegra að setja niður almenn háskólalög, ekki ólík hinum norsku háskólalögum sem ég var aðeins að segja frá hér áðan eða að setja samstundis og samtímis lög um einstaka háskóla. Ég tel að það sé óþolandi óvissa fyrir háskólana í landinu að búa við þá stöðu sem nú hefst vegna þess að þessi háskólalög sem hér á að fara að setja, munu taka gildi núna fljótlega ef þetta verður samþykkt. En síðan segir: Skólarnir eiga að bíða í tvö ár eftir því að fá botn í sín mál. Ég tel að verið sé að búa háskólunum óþolandi laga- og réttaróvissu með þeim vinnubrögðum sem hér eru höfð uppi og ég vil spyrja hæstv. menntmrh. að því hvort hann sé með á döfinni frumvörp eða frumvarpasmíð til sérlaga fyrir einstaka skóla í stað þeirra sérlaga sem nú eru í gildi og hvernig hann hugsar sér að að þeim verði unnið. Því það er alveg óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar núna í þessari umræðu hvernig hæstv. menntmrh. sér fyrir sér að unnið verði að sérfrumvörpum til laga um einstaka háskóla.

Ég tel, herra forseti, í fimmta lagi ástæðu til þess að fara sérstaklega yfir framkomu menntmrn. við Háskóla Íslands varðandi þetta frv. og vinnubrögðin við undirbúning þess. Frv. var í upphaflegri mynd lagt fram á síðasta þingi og það var fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar númer eitt, tvö og þrjú að þetta mál varð ekki að lögum sl. vor. Það er alveg ljóst að stjórnin ætlaði að gera málið að lögum í vor. Háskólarnir báðu sér griða. Skrifuð voru bréf og greinargerðir til menntmn. og menntmrn. þar sem beðið var um að þetta yrði ekki að lögum þannig að menn fengju tíma, sumarið, til að skoða málið. En það var alveg greinilegt að það átti að gera þetta frv. að lögum í vor þó að það væri vitað að það væri í fullri andstöðu við mestallt háskólasamfélagið á Íslandi. Gagnrýnin var sums staðar mjög harkaleg eins og t.d. í bréfi sem Háskóli Íslands og þáv. rektor skrifaði 5. maí sl., þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi mundi binda Háskólann við stjórnskipan sem hann telur sér ekki henta og svipta rektor þeirri stöðu sem hann hefur haft sem kjörinn oddviti háskólasamfélagsins frá upphafi.``

[21:00]

Það er því greinilegt að þegar frv. var lagt fram taldi Háskóli Íslands og forustumenn hans að háskólanum væri stórkostlega misboðið með þessum vinnubrögðum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér af hverju hæstv. menntmrh. er svona í nöp við háskólann. Af hverju þarf endilega að efna til illinda við háskólann þegar menn vita þó að það er þannig að í háskólanum vilja menn ná samkomulagi um hlutina. Af hverju þurfti endilega að standa þannig að málum að háskólinn fyndi sig knúinn til þess að bregðast við á þann hátt sem fram kom sl. vor? Í greinargerð Háskóla Íslands frá 5. maí 1997 segir enn fremur svo, með leyfi forseta:

,,Fremsta tillaga háskólans um breytingu er sú að ekki verði kveðið á um stjórn ríkisháskóla í frv. umfram það sem segir í 3. gr. þess. Þar með félli IV. kafli frv. niður.``

Þetta er aðalósk háskólans og ég vil halda henni hérna til haga vegna þess að hún sýnir að frv. var í grundvallaratriðum í andstöðu við afstöðu háskólans. Samt sem áður knýr hæstv. menntmrh. það í gegnum þingið eins og mér sýnist standa hér til að gera.

Ég tel að þessi dæmi út af fyrir sig og tilvitnunin í Sveinbjörn Björnsson sýni ágætlega hvað Háskóla Íslands var brugðið þegar kom að þessum málum þar sem var óskað beinlínis eftir því að allur stjórnunarkaflinn yrði tekinn út.

Síðan er hér það sem ég ætla ekki að fara að lesa upp vegna þess að það væri endurtekning á því sem áður er komið. Hér er ítarlegur kafli um rektorskjör sem einnig sannar það að Háskóla Íslands er heiftarlega misboðið.

Að lokum ætla ég í þessum kafla að nefna fjármál Háskóla Íslands. Nákvæmlega þessa sömu daga og menn eru hér með mærðarfullar predikanir um eflingu háskólasamfélagsins og að það þurfi að setja lög um það, þá eru menn að kvelja háskólann fjárhagslega þannig að fá dæmi um slíkt hafa sést um nokkuð langt skeið. Mér finnst að í framkomu menntmrn. í garð Háskóla Íslands hafi komið mjög vel fram að ráðherrann hlustar ekki á það sem kemur frá Háskóla Íslands varðandi fjármálin, því miður. Þess vegna er sú hætta yfirvofandi að á sama tíma og menn eru að setja lög um háskóla, að þá gætum við verið að taka ákvörun um annars flokks háskóla vegna þess að fjárlögin væru svo fjarri öllu lagi að því er varðar fjármál stofnunarinnar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara nákvæmar yfir það sem fram kom í umræðum um þetta mál í vor. Um málið urðu heilmiklar umræður og m.a. umræður sem fóru fram í tengslum við rektorskjörið í vor. Það var Páll Skúlason prófessor í heimspeki sem var eins og kunnugt er valinn háskólarektor og hann sagði á kynningarfundi um stöðu háskólans og stöðu rektors sem ég ætla að vitna í sérstaklega, með leyfi forseta:

,,Hér hefur rektor sínu mikilvægasta hlutverki að gegna. Hann á að vera í fylkingarbrjósti þeirrar baráttu að opna augu almennings og stjórnvalda í landinu fyrir þeirri staðreynd að framtíð hins íslenska þjóðfélags er komin undir störfum háskólamanna en ekki fiskveiðum eða öðrum atvinnugreinum eingöngu.``

Páll Skúlason sagði enn fremur, með leyfi forseta: ,,Með því að ætla háskólanum eina upphæð til skiptanna á milli deilda og stofnana, fjárhæð sem dugar ekki til að halda uppi lögbundinni starfsemi hefur ríkisvaldið á vissan hátt þvegið hendur sínar af háskólanum og um leið beint honum inn á þá braut að afla sér peninga eftir öðrum leiðum en með framlögum ríkisins. Og nú ráðgera menn lagabreytingar sem eiga að tryggja háskólanum möguleika á að reka fleiri fyrirtæki, taka skólagjöld o.s.frv. Auk þess þurfa háskólamenn nú að verja æ meira af tíma sínum í að afla fjár til rannsókna.``

Það er með öðrum orðum alveg greinilegt að sá sem nú situr á stóli rektors hafði, a.m.k. þegar kynningarfundurinn var haldinn í háskólanum 12. mars sl., miklar áhyggjur af þeirri stefnu sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur í málefnum háskólans, t.d. því að það væri verið að knýja skólana til þess að taka skólagjöld, knýja skólana til þess að blanda sér í alls konar óskylda starfsemi, rekstur sem gæti gefið tekjur til að standa undir skólunum.

Ég ætla einnig í þessu sambandi, herra forseti, að vitna í frásögn af ræðu Páls Skúlasonar rektors í Morgunblaðinu 23. september 1997, sem ber yfirskriftina: ,,Engin rök sýna að skólagjöld bæti Háskólann.`` Hann segir í þessari frásögn Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,,,Háskólinn er þjóðskóli og lokaákvörðun í stærstu málum hans er í höndum Alþingis. Einu rökin sem háskólamenn gætu séð réttlæta skólagjöld væru að þeir væru sannfærðir um að þeir væru að gera skólann betri. Það eru hins vegar engin rök sem sýna að svo verði. Og það er heldur ekki tryggt að þar með hefði Háskólinn meira fé til ráðstöfunar. Þegar skrásetningargjaldið var hækkað fyrir nokkrum árum var fjárveiting til skólans lækkuð sem þeim nemur,`` segir Páll.``

Ég get satt að segja ekki neitað mér um að taka mark á þessum aðvörunarorðum sem koma frá núverandi rektor háskólans. Þau eru það alvarleg að ég held að það hljóti að vera samstaða um það í hópi þingmanna, þegar allrar sanngirni er gætt, að við verðum að hlusta á þessi aðvörunarorð, bæði um háskólann almennt en líka um skólagjöldin sérstaklega.

Ég vil að því er skólagjöldin varðar taka sérstaklega undir það sem hv. frsm. minni hlutans sagði um skólakerfislögin sem á að fella úr gildi. Ég vil biðja um frekari rök fyrir því. Hvaða rök eru fyrir því að fella niður skólakerfislögin ef það er ekki beinlínis til þess að opna fyrir upptöku skólagjalda? Hvaða rök eru fyrir því að fella út gömlu skólakerfislögin? Hvaða rök eru fyrir því að mati framsóknarmanna t.d. að fella niður gömlu skólakerfislögin ef það er ekki beinlínis til þess og eingöngu til þess að opna fyrir það að tekin verði upp skólagjöld? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fá um það skýrari svör og gleggri umræður en hér hafa þegar farið fram.

Í frv. segir, með leyfi forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.`` Og í ákvæði til bráðabirgða með þessu frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Háskólar sem nú starfa samkvæmt sérstökum lögum skulu innan tveggja ára frá gildistökudegi að telja laga starfsemi sína að lögum þessum. Á þeim tíma skal lokið við að endurskoða löggjöf um starfsemi þeirra.``

Nú ætla ég, herra forseti, að reyna að átta mig á hvað þetta þýðir og jafnframt að bera fram nokkrar spurningar um málið. Þýðir þetta að lögin um Háskóla Íslands og aðra háskóla standi að öllu leyti a.m.k. í tvö ár, þ.e. út árið 1999? Þýðir þetta að þau standi að öllu leyti, þessi lagaákvæði?

Í öðru lagi: Ef skólarnir hafa þá ekki lagað starfsemi sína að lögum þessum, þá hljóta lög þeirra sem Alþingi hefur sett að standa áfram. Í raun og veru er það því á valdi hvers skóla --- eða hvað? --- að ákveða hvort hann beygir sig undir þessi lög í einu og öllu eins og þau mundu vera skrifuð hér ef þetta verður samþykkt.

Þetta er ótrúlega klúðurslegt og óljóst gildistökuákvæði. Það er alveg furðulegt að vandaður lögfræðingur eins og hæstv. menntmrh. og löggjafarfræðingur skuli láta þetta frá sér fara vegna þess að það er ekki nokkur leið að átta sig á því nákvæmlega hvað þetta þýðir. Hérna er ekki verið að fella úr gildi lögin um Tækniskólann svo ég nefni dæmi eða önnur lög um háskóla eða lögin um Háskóla Íslands. Til þess þarf pósitíft lagaákvæði um það efni. Síðan segir hér: ,,Á þeim tíma,, þ. e. á þessum tveimur árum, 1998 og 1999, ,,skal lokið við að endurskoða löggjöf um starfsemi þeirra.`` Þá er spurningin: Hver hefur þessa lagaskyldu? Það er ljóst að til að endurskoða löggjöf verður Alþingi að vinna verkið. Það getur enginn endurskoðað löggjöf nema Alþingi. Það er alveg ljóst. Hins vegar getur menntmrn. samið frumvörp. Það getum við reyndar öll gert. Og spurningin í þessum efnum er hvort þarna þyrfti ekki að standa, ef það er meiningin með þessu, að menntmrn. skuli fyrir lok þessa tíma sjá til þess að lagt verði fram á Alþingi frv. um breytingar á lögum um starfsemi viðkomandi skóla. Þetta ákvæði til bráðabirgða eins og það er hér er ótrúlega klúðurslegt og kallar á mikið nánari skýringar af hálfu hæstv. menntmrh. og hæstv. menntmrh. og hæstv. ríkisstjórnar.

Herra forseti. Það mætti margt fleira um þetta frv. segja en staðreyndin er sú að eins og málið er útbúið, þá orkar það líka tvímælis, þá er það flókið hvernig maður á að nálgast málið vegna þess að veruleikinn er sá að annars vegar er talað um að verið sé að setja hérna rammalöggjöf. Í hinu orðinu er verið að tala um að hún þýði ekki neitt vegna þess að það eigi eitthvað allt annað að gerast eftir tvö ár. Umbúnaður málsins er því klúðurslegur af hálfu ríkisstjórnarinnar burt séð frá málinu sem slíku. Ég hefði talið skynsamlegt að Alþingi fjallaði um heildarlög um háskóla þar sem ákvæðin, sérákvæðin um einstaka skóla, yrðu tekin inn í heildarlögin sem kaflar frekar frekar en að þetta yrði gert svona. Þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð bjóða heim lagalegri og skipulagslegri óvissu um stöðu skólanna á næstu árum þannig að ég tel að það sé sérstaklega gagnrýnivert að ráðuneytið skuli senda frá sér lagafúsk eins og þetta hér, einkum þegar þess er gætt að það hefur verið dálítill tími til að vinna í málinu af því að stjórnarandstöðunni tókst í vor að koma í veg fyrir það gerræði sem stjórnarflokkarnir ætluðu að sér beita, þegar þeir ætluðu að gera þetta að lögum á sl. vori, á örfáum vikum, þessa mikilvægu grundvallarlöggjöf um háskólana.

Herra forseti. Ég læt senn lokið máli mínu og vísa til brtt. minni hlutans. Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að taka málið til meðferðar aftur í nefndinni milli 2. og 3. umr. þó það sé ekki nema vegna tölvuháskólans en líka vegna þeirra svara sem líkleg eru varðandi einstök atriði sem við þurfum þá að fá betur skýrð. Ég vænti þess að umræðan skýri eitthvað af hlutunum þannig að ekki þurfi lengri fundahöld í hv. menntmn. Ég vil að öðru leyti þakka fyrir ágætt samstarf í henni fyrir mitt leyti, bæði við minnihlutafólk og meirihlutafólk sem hefur reynt að gera eins gott úr þessu máli og mögulegt er miðað við erfiðar aðstæður og miðað við það hvað þetta frv. er illa samið frá hæstv. ríkisstjórn.