Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 21:17:21 (2291)

1997-12-15 21:17:21# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[21:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú sem hér talar stendur að nefndaráliti minni hlutans sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir gerði grein fyrir fyrr í umræðunni. Ætlun mín er ekki að halda hér langa ræðu þar sem kjarninn í gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga kemur fram í nefndarálitinu og ég tel að málið hafi verið fullrætt eftir ítarlega umfjöllun í menntmn. Ég tel að sú frestun sem var gerð á málinu í vor fram til þessa tíma hafi verið verulega til bóta, m.a. vegna þess að háskólinn fékk ráðrúm til þess að ræða um frv.

Þær breytingartillögur sem meiri hlutinn flytur eru til bóta flestar hverjar þó að ég sé þeirrar skoðunar að ekki sé gengið nógu langt í að slaka á þeirri ofstjórnaráráttu sem hér hefur verið til umræðu og ég tek undir, samanber brtt. minni hlutans.

Eins og lesa má, virðulegi forseti, í nýlegri úttekt í tímaritinu The Economist frá 4. október sl. sem kallast The Knowledge Factory, er alveg ljóst að við Íslendingar erum ekki eina þjóðin sem er að velta fyrir sér hvernig bregðast eigi við þeirri stöðu sem nú hefur komið upp í langflestum vestrænum löndum varðandi þróun háskólastigsins. Í flestum nágrannalanda okkar er þessi umræða í gangi og og rætt um að efla þurfi háskólamenntun vegna þess að fyrirsjáanlegt sé að mannauðurinn muni hafa meiri áhrif á efnahag framtíðarinnar en hingað til. Háskólamenntun mun ekki lengur hafa þann sess að vera fyrir fáa embættismenn heldur þarf hún að ná til stærri og stærri hóps. Það mun kosta mikla peninga fyrir þessi þjóðfélög. Flestar þjóðir eru að átta sig á því að ófaglærðum störfum er að fækka og framtíð þjóðfélaga byggist í vaxandi mæli á að mannauðurinn sé ræktaður og háskólamenntunin efld.

Um leið og háskólamenntun hættir að vera fyrir fáa útvalda mun hún kosta meira og meira fé og flestir eru á því að þar með komi aukið fé frá skattborgurum og þá spyrja menn: Er ekki hætta á því að þeir sem fara með skattfé almennings vilji stýra háskólanum um of? Löngum hefur akademískt frelsi verið talin aðallífæð háskóla og að þar séu rannsóknir stundaðar án íhlutunar pólitískra yfirvalda.

Í áðurnefndri úttekt The Economist kemur fram að nú eru um 40% árganga á aldrinum 18--21 árs í háskólum í Kanada, um 35% í Bandaríkjunum og Frakklandi, um 30% í Nýja-Sjálandi en í Noregi er þetta hlutfall um 20% og aðeins um 10% í Þýskalandi. Þetta sýnir okkur hvernig háskólastigið hefur þróast með mismunandi hætti í löndunum í kringum okkur og það er ljóst að hér á landi eru um það bil 25% árgangs í háskóla. Það má gera ráð fyrir því að rammalöggjöf sú sem nú er til umræðu muni m.a. stuðla að því að hlutfallið vaxi og fróðir menn telja að það fari upp í 35--40% á næstu 15 árum hér á landi. Við ættum þá að verða á svipuðu róli og þeir sem best standa í þessum efnum. Ég segi hiklaust ,,best standa`` því að ég held að fyrir íslenska þjóðfélagið sem hefur byggt á einhæfu atvinnulífi meira en flest nágrannalanda okkar sé verulega mikilvægt að þarna verði breyting á.

En aðalmálið sem flestir standa frammi fyrir er spurningin: Hvernig á að hleypa fleirum inn í háskólana? Hvernig á að efla almenna háskólamenntun án þess að gæðin minnki? Þetta eru mikilvægar spurningar sem við erum m.a. að velta fyrir okkur við þessa umræðu. Að öllum líkindum mun þetta krefjast aukinna skattpeninga, aukins opinbers fjármagns og um leið ákveðinnar kröfu af hálfu stjórnvalda til að stýra þessum stofnunum. Kjarnanum í gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga er einmitt beint gegn ofstjórnaráráttunni gagnvart háskólanum annars vegar og hins vegar heimildum fyrir að setja á skólagjöld sem er auðvitað ein leiðin til að fjármagna háskóla. Það er því engin tilviljun að þetta séu átakapunktarnir í umræðunni. Þetta eru þau mál sem alls staðar er verið að takast á við.

Samkvæmt nýútkominni skýrslu OECD kemur fram að það sem einkennir íslenska menntakerfið auk óvenjulega lágra kennaralauna er hin mikla miðstýring og hve lítið fjármagn er veitt til háskólamenntunar. Með þessu frv. er verið að auka miðstýringu og heimila að sett verði á skólagjöld. Til þess að fara aðeins nánar í tölurnar úr OECD-skýrslunni, þá vil ég vitna hér í rit sem er frá Þjóðhagsstofnun og heitir Búskapur hins opinbera þar sem vitnað er í nefnda OECD-skýrslu. Þar er bent á að við Íslendingar verjum eingöngu 0,7% af þjóðarframleiðslu til æðri skólastiga, háskólastigsins, á meðan Norðurlöndin verja 1,5% af þjóðarframleiðslu að meðaltali í þetta skólastarf. Meðaltalið fyrir OECD er 1%. Á bls. 41 í þessu riti kemur sömuleiðis fram að í OECD-ríkjunum sé að meðaltali ráðstafað 9.700 dollurum á nemanda en hér á landi er sambærileg tala um 5.100 dollarar. Annars staðar á Norðurlöndum eru það ríflega 9 þúsund dollarar að meðaltali. Hæst er þessi upphæð í Sviss, 15.700 dollarar og í Bandaríkjunum er upphæðin 14.700. Af þessum tölum má ljóst vera að við erum langaftast á merinni varðandi framlög til háskólastigsins. Þó reiknað sé út með öllum mögulegum mælikvörðum og þrátt fyrir það 50 millj. kr. aukaframlag sem nú er verið að samþykkja á fjárlögum verður ekki séð að þarna eigi sér stað nokkur eðlilsbreyting. Meðan háskólinn biður um 250 millj. þá verða veittar 50 millj. samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir. Það er augljóst að við erum í mjög miklum vanda með þessi mál. Einhvers konar eðlisbreyting verður að eiga sér stað.

Næst langar mig, hæstv. forseti, að fara nánar í þau tvö gagnrýnisatriði sem við stjórnarandstæðingar höfum gert að umtalsefni í umræðunni og nefndaráliti okkar. Í fyrsta lagi er það ofstjórnartilhneigingin sem birtist, eins og hér hefur komið fram, á ýmsa vegu. Til að mynda í IV. kafla frv. í heild. Ef maður tekur út einstök atriði þá eru það ákvæði um hvernig háskólaráð skuli skipað, þ.e. að þar megi ekki vera deildarforsetar þrátt fyrir eindregna ósk og góðan rökstuðning frá Háskóla Íslands að ráðherra eigi sjálfur að skipa tvo fulltrúa í 10 manna háskólaráð og menntmrh. skuli einnig skipa rektor. Þessi ofstjórnunarárátta, ég kalla hana svo, er sérkennileg vegna þess að hún virðist ekki henta mörgum þeim háskólum sem nú eru til staðar. Háskóli Íslands er mjög óánægður með þetta, sama má segja um Tækniskólann og fleiri skóla. Það virðast aðallega vera Kennaraháskólinn og Háskólinn á Akueyri sem geta fellt sig við þetta fyrirkomulag að flestu leyti. Þó er það einnig gagnrýnt t.d. af Kennaraháskólanum hvernig skipað skuli í háskólaráð.

Nú er vert að velta því fyrir sér hvort þetta sé eðlilegt. Það er ljóst að þjóðhagslega munu háskólarnir skipta meira máli en nokkru sinni fyrr um það hvernig afkoma þjóðarinnar verður. Ég geri ráð fyrir að fjármagn fari vaxandi til þessa stigs. Vonandi verður það og miðað við allar samanburðartölur er hægt að spá þeirri niðurstöðu. En maður spyr sig: Er eðlilegt og nauðsynlegt að stýringin sé svona mikil? Ég vil ekkert fullyrða um slíkt en mér sýnist að þetta sé meira samræming, samræmingarinnar vegna. Rökin fyrir nauðsyn þessa eru ekki nægilega sterk þó að ég geri mér fyllilega grein fyrir sambandinu á milli mikilvægi skólastigsins fyrir þjóðhagslega afkomu þjóðarinnar og sterkrar stýringar af hálfu stjórnvalda. En við þessu ber að vara þar sem akademískar rannsóknir og annað háskólastarf fer einfaldlega ekki saman með svona stýringu. Ég set stórt spurningarmerki við nauðsynina á þessari miklu stjórnun af hálfu hins opinbera.

[21:30]

Hitt atriðið sem við höfum gagnrýnt mikið eru skólagjöldin. Ljóst er að bæði með 3., 19. og 26. gr. þessa frv. eru felldar niður allar hindranir í núgildandi lögum gegn því að setja á skólagjöld. Fróðlegt er að heyra hvernig talsmaður meiri hlutans túlkar hina algeru kúvendingu í íslenskri skólastefnu. Við bendum á það í okkar nefndaráliti og ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra út í túlkun hans á þessum greinum í nefndaráliti meiri hlutans.

Fyrst vil ég segja að í áðurnefndri samantekt úr The Economist er ágætis rökræða um gildi skólagjalda. Hún líkist nokkuð þeim sjónarmiðum sem finna má á heimasíðu hæstv. menntmrh. Þar er t.d. bent á að ef aðeins 20--30% árgangs fara í háskóla og rétt sé að háskólamenntun nýtist fólki til launa, þá sé réttlátt að viðkomandi einstaklingar greiði skólagjöld. Þetta eru ákveðin sjónarmið sem ég hef heyrt hæstv. menntmrh. og fleiri halda fram. Mótrökin gegn þessu koma fram í minnihlutaáliti okkar úr menntmn. Við segjum að ef skólagjöld fæla efnaminni nemendur frá háskólanámi eins og virðist vera að gerast í ýmsum löndum, t.d. í Bandaríkjunum, í Bretlandi og Nýja-Sjálandi, þá sé þetta orðið hættulegt fyrir jafnrétti til náms og ekki réttlætanlegt.

Vægi þessara tveggja sjónarmiða ræðst auðvitað af pólitísku mati. Hvaða rök vega þyngst í þessu máli? Í mínum huga, hæstv. forseti, og í stefnu okkar kvennalistakvenna er engin spurning um að við erum alfarið á móti skólagjöldum í ríkisreknum háskólum þó þau séu réttlætanleg í einkaháskólum. Bann við skólagjöldum í ríkisháskólum má þó ekki verða til þess að gæði ríkisháskóla minnki, þegar fleiri ganga í þá og umfang þeirra eykst. Á undanförnum árum hefur umfang háskólastigsins vaxið og ljóst t.d. ef við horfum til Kennaraháskólans að hann mun stækka verulega við það að bæði Fósturskóli Íslands og Þroskaþjálfaskólinn sameinast honum og fleiri leggja stund á háskólanám.

Grundvallaratriðið er að ríkisháskólarnir mega ekki versna við það að fleiri stundi háskólanám. Reynslan í Bretlandi hefur orðið sú að opnun háskólanna fyrir fleiri nemum, þróunin hefur stöðugt verið upp á við frá árinu 1975, hefur leitt til aukinna skólagjalda og minnkandi framlaga frá breska ríkinu til háskólanna. Í The Economist kemur fram að breska ríkið greiddi 100% af námskostnaði hvers nema í breskum ríkisháskólum árið 1976 en árið 1995 var þetta hlutfall komið niður í 60%. Á sama tíma jókst fjöldi stúdenta frá því að vera 15% af aldurshópi upp í 33% aldurshóps. Með öðrum orðum: Skólarnir voru opnaðir. Stærri og stærri árgangar komu inn í þá. Ríkið hafði ekki undan í fjárframlögum. Skólagjöld voru lögð á og gæði skólanna hafa minnkað. Hlutfallið milli nema og kennara hefur breyst og verulegar áhyggjur eru í breskum háskólum vegna viðbragða stjórnvalda.

Af þessu tilefni vil ég spyrja hæstv. menntmrh. tveggja spurninga. Í umsögn Háskóla Íslands um um 3. gr. frv., reyndar á þetta við þær greinar sem snerta skólagjöldin, 3., 19. og 26. gr. en í umsögn um 3. gr. spyr háskólinn svo ég vitni beint í umsögn:

,,Háskóli Íslands hefur ekki sóst eftir gjaldtöku af stúdentum vegna náms en þó hefur komið til tals að stúdentar tækju þátt í kostnaði við framhaldsnám. Ef slíkar reglur verða settar í sérlög þarf að vera skýrt hverjar heimildirnar eru og hver takmörk þeirra eru`` segir háskólinn.

Vegna þessara orða vil ég vitna í nefndarálit meiri hlutans þar sem mér virðist koma fram túlkun á þessum greinum, 3., 19. og 26., sem er svolítið andstæð þeim skilningi sem ég legg í þessar greinar. Þar segir m.a. og nú vitna ég beint í nefndarálit meiri hlutans:

,,Nokkrar umræður urðu í nefndinni um 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um gjaldtöku af nemendum. Meiri hlutinn ítrekar að hér er um rammalöggjöf að ræða og er það skilningur hans að með gjaldtöku af nemendum í ríkisháskólum sé átt við gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem nemendum er veitt, sbr. skrásetningargjald í 4. gr. frumvarps til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.``

Spurning mín er þessi: Hverja telur hæstv. menntmrh. möguleika Háskóla Íslands til að setja á skólagjöld á framhaldsnám við samningu á löggjöf sinni? Hvað segir ramminn háskólanum um þau efni? Mér þykir það ekki skýrt miðað við þessa túlkun. Telur hæstv. ráðherra að háskólanum sé heimilt að setja á skólagjöld? Það er minn skilningur á þessu frv. Er hann þá ósammála túlkun meiri hlutans sem fram kemur í hans nefndaráliti? Þetta var fyrri spurningin.

Seinna atriðið varðar aðra hluti. Ég vil byrja á því að nefna að það er fagnaðarefni að samkvæmt þessu frv. á að styðjast við reiknilíkan sem m.a. tekur mið af fjölda stúdenta þegar fjármagn til ríkisháskóla er ákvarðað. Mín spurning snýst um það hvort ráðherrann telur að þar með verði tryggt að fjárveitingar til háskóla, þar á meðal Háskóla Íslands, muni vaxa í réttu hlutfalli við nemendafjöldann eða hvort hann telji að skólagjöld verði í ríkisháskólum notuð til að styrkja stöðu þeirra gagnvart einkaháskólunum, ekki síst í samkeppni um kennara.

Ég tel vissa hættu á því, hæstv. forseti, að þessi ofstjórnarárátta og peningasveltið sem Háskóli Íslands er í verði til þess að sá skóli kjósi að breytast í sjálfseignarstofnun og þar með missi þjóðin alfarið stjórn á því trausta flaggskipi sem Háskóli Íslands er. Slíkt yrði að mínu mati mikið slys og verður vonandi afstýrt með því að veita aukið fé til háskólastigsins og Háskóla Íslands aftur sitt fyrra sjálfstæði með sérlögum. Þannig gætum við losað ríkisháskólana við þörfina á skólagjöldum. Að öðrum kosti er líklegt að við blasi versnandi skóli sem þjónar fleiri og fleiri stúdentum fyrir takmarkað fé. Standi þjóðin frammi fyrir því, getur stofnunin neyðst til þess að setja skólagjöld sem nauðvörn. Vonandi kemur það aldrei til. Að mínu mati gengur það ekki til lengdar að fjölga stúdentum og verkefnum í háskólum án þess að koma með fjárframlög á móti. Við verðum að komast upp úr því vafasama heiðurssæti að verja hlutfallslega minnstu fjármagni allra OECD-ríkja til háskólamenntunar og vera í fjórða lægsta sæti varðandi framlög til menntamála yfirleitt. Ég sé engin merki þess í umræðunni um fjárlagafrv. í ár og því hef ég verulegar áhyggjur af stöðu þessara mála.