Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:09:02 (2294)

1997-12-15 22:09:02# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:09]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér að ítreka þá skoðun sem ég lýsti áðan og ég leyfi mér líka, með leyfi forseta, að lesa úr nál. frá meiri hluta menntmn.:

,,Meiri hlutinn ítrekar að hér er um rammalöggjöf að ræða og er það skilningur hans að með gjaldtöku af nemendum í ríkisháskólum sé átt við gjaldtöku vegna þeirrar þjónustu sem nemendum er veitt, sbr. skrásetningargjald í 4. gr. frumvarps til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands.``

Þetta er sá skilningur sem meiri hluti menntmn. leggur í frv. Þetta er eiginlega sá yfirlýsti skilningur sem við leggjum í það og það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Það er ekki umræðan um skólagjöld, það er ekki verið að opna fyrir skólagjöld. Kunni sú umræða að fara fram á Alþingi þá verður það síðar en ekki í tengslum við þetta frv.