Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:12:50 (2297)

1997-12-15 22:12:50# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:12]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lýsir hér svokölluðum yfirlýstum skilningi á þeim lagagreinum sem hafa verið tíndar fram til sönnunar því að verið væri að taka úr vegi þær hindranir sem hafa verið gegn skólagjöldum. Ég vil þá spyrja þingmanninn tveggja spurninga sem ég vona að hann geti svarað jafngreiðlega og hann reyndi að verjast hér áðan.

Í fyrsta lagi. Hvar sækja einkaskólarnir lagastoð fyrir skólagjöldum í þessu frv.? Hvar er sú grein?

Það er viðurkennt að í landinu eru einkaskólar sem verða að sækja skólagjöld til að halda úti sinni starfsemi. Hvar er sú lagastoð sem byggt verður á þegar sérlög þeirra, samþykktir eða skipulagsskrár verða staðfestar?

Í öðru lagi. Af hverju á að fella úr gildi lögin um skólakerfi? Hver er ástæða þess? Hvorugri þessara spurninga hefur verið svarað enn. En ég vænti að þingmaðurinn hafi við þeim svör.