Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:48:36 (2302)

1997-12-15 22:48:36# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:48]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu hv. síðasta þm. vildi ég nefna tvennt: Annars vegar get ég tekið undir það sem hv. þm. nefndi í lokaorðum ræðu sinnar um hinn svonefnda gleymda hóp, þ.e. þá fullorðnu sem hafa ekki notið menntunar og eru að sækja sér hana. Ég tel hins vegar að sá hópur sé ekki gleymdur og minni í því sambandi á tímamótasamning sem var ritað undir á Suðurnesjum ekki alls fyrir löngu þar sem var stofnun Fræðslumiðstöðvar Suðurnesja, samningur undirritaður af Fjölbrautaskólanum, menntmrn., fulltrúum atvinnulífsins, verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, Endurmenntunarstofnunar háskólans, Menningar- og fræðslusambands alþýðu og þannig má áfram telja. Við það tækifæri kom einmitt fram að í mjög mörgum tilvikum eru það atvinnurekendur og verkalýðsfélög sem taka verulegan þátt í kostnaði þess hóps sem umræddur þingmaður gerði að umtalsefni. Það er ánægjuefni en áhyggjunum deili ég að öðru leyti.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að ég hefði í hálfkæringi vísað frá umræðunni um skólagjöld. Það er ekki rétt, ég mótmæli því. Ég tók það þrisvar fram að hér væri ekki verið að opna fyrir skólagjöld. Það er skilningur minn og skoðun á þessu frv. Um það er ekki ágreiningur því að á hann hefur ekki reynt. Það er ekki markmiðið með þessu frv. Komi til þess þá mun það verða rætt sérstaklega. Hér er ekki verið að opna fyrir skólagjöld. Ég ítreka þá skoðun og það er það sem felst í frv.