Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:03:42 (2305)

1997-12-15 23:03:42# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það voru ýmis atriði í ræðu hv. þm. sem er ástæða til að fara yfir en það er eitt sem ég ætlaði að nefna hér í andsvari og það lýtur að rektorskjörinu. Hv. þm. komst þannig að orði að það hefði táknrænt gildi að rektorskjörið færi fram sjálfstætt og sagðist viðurkenna það. Hún sagði hins vegar: ,,Getur það ekki verið mikilvægt fyrir rektor að hafa sjálstæði gagnvart háskólasamfélaginu sem hann öðlist með því að ráðherra skrifi upp á málið?`` Það kann vel að vera að svo sé. En það er ekki aðalatriðið í þessu máli. Aðalatriðið er að rektor háskólans sé sjálfstæður gagnvart stjórnvöldum. Það skiptir mestu máli og að hann fái sinn styrk frá háskólasamfélaginu. Þess vegna finnst mér að í þessari útskýringu hv. þm. komi fram grundvallarmunur á sjónarmiðum í þessum efnum þar sem við höfum verið að leggja á það áherslu að rektorinn sé kjörinn af háskólasamfélaginu, hafi þaðan sinn styrk til þess að vera eins sjálfstæður og mögulegt er gagnvart stjórnvöldum. Háskólanum hefur stundum verið líkt við lýðveldi sem ráði sér sjálft í sem flestum málum og rektorinn hafi þar svipaða stöðu og sá sem kjörinn er til forustu fyrir viðkomandi lýðveldi. Þetta grundvallaratriði er greinilega ágreiningsefni. Mér fannst það kristallast mjög skýrt í þessari útskýringu hv. þm.