Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:06:21 (2307)

1997-12-15 23:06:21# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:06]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa rausnarlegu mínútu sem hæstv. forseti er að veita okkur. Það þyrfti lengri tíma, en aðalatriðið er nú kannski það að mér þykir slæmt að hv. 3. þm. Reykn. skuli ekki hafa uppgötvað það fyrr að við erum sammála í þessu rektorsmáli sem hefði þá orðið til þess að við hefðum orðað greinina öðruvísi en hún stendur núna. Hún hefði þá fallist á þau sjónarmið okkar í minni hlutanum að það hefði verð eðlilegt að skrifa þessa grein með mismunandi hætti, annars vegar fyrir háskólann og hins vegar fyrir aðra skóla. (Gripið fram í: Það er hægt að breyta þessu.) Það er hægt að breyta því, já.

(Forseti (GÁ): Vegna orða hv. þm. vill forseti taka fram að það er ekki rausn forsetans heldur þingsköpin sem skammta þennan tíma.)