Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:44:47 (2314)

1997-12-15 23:44:47# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:44]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ýmislegt af því sem hæstv. ráðherra gat um áðan er þess eðlis að rétt væri að setja á ræðu en við eigum nú eftir að ræða hér annað mál í kvöld og hægt verður að koma að ýmsum efnisatriðum þá. Ráðherra gat um hinn nýja verslunarháskóla í ræðu sinni. Ég tók eftir því í fréttaflutningi að skólastjóri þess skóla sagði, og það kom einnig fram hjá hæstv. ráðherranum, að sá samningur sem hann gerði mundi gilda þar til nýr samningur tæki gildi á grundvelli rammalöggjafar.

[23:45]

En ég tók eftir því að skólastjóri þess skóla reiknaði með því að sá samningur tæki gildi, þá mundu greiðslur hækka, hækka frá þeim 300 þús. kr. tæpum fyrir nemanda sem nú eru í gildi. Ráðherrann virtist hins vegar hafa mestan áhuga á því hver viðbrögð Háskóla Íslands yrðu við þessari samkeppni. Mér finnst það líka áhugavert, sérstaklega í ljósi þess að hagfræði- og viðskiptadeild Háskóla Íslands fær einungis 120 þús. kr. á ári fyrir hvern nemanda á móti þessum 300 þús. kr. sem verslunarháskólinn fær og reiknað með meiru. Því vil ég spyrja ráðherrann: Reiknar hann með til þess að laga samkeppnisstöðu Háskóla Íslands að hækka fjárhæð á hvern nemanda í viðskiptadeildinni eða reiknar hann með því að þetta sé sanngjarn samkeppnisgrundvöllur?