Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 23:52:45 (2324)

1997-12-15 23:52:45# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[23:52]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það voru nokkur efnisatriði í ræðu hæstv. menntmrh. sem mér finnst nauðsynlegt að fara aðeins betur yfir þó að það sé orðið dálítið áliðið kvölds. En það er svo sem ástæðulaust að hrökkva neitt undan því þó að tíminn líði því að við þurfum að ræða þetta mál vandlega.

Mér fannst þó nokkuð mikilvæg grundvallaratriði koma fram í ræðu hæstv. menntmrh. sem ég er kominn hér til að mótmæla og segja honum að ég er í grundvallaratriðum ósammála honum pólitískt um hans nálgun í þeim málum. Það fyrsta snertir þessa atvinnulífsfulltrúa. Þar var þeirri skoðun hreyft af mér og reyndar mjög mörgum öðrum, t.d. af háskólunum ýmsum, t.d. Kennaraháskólanum að eðlilegt væri að taka það fram að þessir fulltrúar utan frá ættu að vera tilnefndir úr þeim hópum eða úr þeim greinum sem tengdust starfssviði viðkomandi skóla á einn eða annan hátt.

Vissulega er með þessum hætti verið að takmarka nokkuð vald ráðherra frá því sem ella væri. En auðvitað er það svo að vald ráðherra er á margvíslegan hátt í lögum og reglum takmarkað og þannig er nú einu sinni lýðræðið og þingræðið í þessu landi. Hlutverk þess er m.a. að setja ráðherrum og öðrum handhöfum framkvæmdarvaldsins eða meðferðaraðilum þess, skýr valdmörk. Þess vegna er það alveg ótrúleg nálgun hjá hæstv. menntmrh. að segja að hann vilji fyrst og fremst standa vörð um rétt stjórnmálamanna til þess að tilnefna menn í háskólaráð eða aðrar slíkar stofnanir. Og hæstv. ráðherra nefndi reyndar líka meiri hlutann í skólanefndum framhaldsskólanna, en það var eitt af afrekum á síðasta vetri að afnema það að skólanefndir framhaldsskólanna yrðu skipaðar eins og var áður. Nú er búið að henda þar út tilteknum fulltrúum bæði nemenda og kennara miðað við það sem áður var um skeið og í staðinn ræður ráðherra þessu.

Ég held að við séum komin þarna að kjarna málsins. Spurningin er hins vegar hvort miðflokkarnir eins og Framsfl. sem veitir ráðherranum stuðning ... (Gripið fram í: Er ekki bara einn miðflokkur?) Nei, hvort miðflokkar eins og Framsfl. sem veita ráðherranum stuðning gera sér grein fyrir því að það er þarna sem línan á milli hægri og vinstri liggur í stjórnmálum, bæði hér og annars staðar, og þarna liggur skurðpunkturinn að því er varðar mismunandi viðhorf til lýðræðis. Við erum þeirrar skoðunar, vinstri menn eru þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt að takmarka völd ráðherra að því er þessa hluti varðar. Við erum þeirrar skoðunar og vinstri menn eru yfirleitt þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt t.d. að því er varðar þessa svokölluðu atvinnulífsfulltrúa að það sé tiltekið að ráðherra sé ætlað að takmarka eða tilnefna þá úr ákveðnum hópi eða skipa þá úr ákveðnum hópi sem tilnefndur er af einhverjum þar til bærum tilgreindum aðila. Þess vegna er satt að segja alveg ótrúlegt að fá það upp hér í kringum miðnætti í umræðum um háskólafrv. að það er valdahugmyndafræði hæstv. menntmrh., það er þessi þrönga hægri sinnaða valdahugmyndafræði menntmrh. sem gægist hérna fram úr ræðustólnum klukkan að verða tólf eftir mjög langan fundardag. Það er alveg ótrúlegt. En það er þakkarvert að hæstv. ráðherra skuli láta í það skína að þetta er snúningspunkturinn í pólitískri afstöðu, þ.e. valdið og hvernig með það skuli fara. Þessu vil ég sérstaklega mótmæla, herra forseti, vegna þess að þetta stríðir gegn mínum pólitísku grundvallarsjónarmiðum.

Í öðru lagi vil ég svo fara yfir annan þátt í hans máli sem eru skólagjöldin. Tortryggnin hér er eðlileg. Hún helgast af ummælum ráðherrans. Hæstv. ráðherra hefur aftur og aftur á undanförnum missirum hagað orðum sínum þannig að ekki er hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hann vilji leggja á skólagjöld og hann telji að það sé betra fyrir viðkomandi skóla og nemendur og menntakerfið í heild að skólagjöld séu lögð á.

Ástæðan fyrir þessari tortryggni er sem sagt í fyrsta lagi ummæli ráðherrans og viðhorf aftur og aftur, en í öðru lagi er ástæðan fyrir þessari tortryggni sú að það er viðurkennt af honum og talsmönnum meiri hluta menntmn. að 19. gr., eins og hún lítur út núna sé hlutlaus gagnvart skólagjöldum, hún taki ekki afstöðu í því máli til eða frá og mjög margir þingmenn meiri hlutans sem ég hef talað við utan þessa ræðustóls líta þannig á að greinin sé þarna hlutlaus og sé ekki að taka af skarið um eitt eða neitt í þeim efnum.

Þriðja ástæðan fyrir tortryggninni er sú að málsgreinin sem hér er um að ræða er notuð sem rök fyrir skólagjöldum í einkaskólum. Þessi sama málsgrein er notuð sem rök fyrir skólagjöldum í einkaskólum og hví skyldi hún þá ekki geta verið notuð sem rök fyrir skólagjöldum í ríkisskólum líka þrátt fyrir það sem menn kunna að hafa sagt um málið í ræðum eða nefndarálitum? Ég tel því að þetta sem ég hef hér nefnt ásamt afnámi skólakerfislaganna beri allt að sama brunni, sem sé þeim að verið sé að opna hér fyrir skólagjöld ef óprúttin stjórnvöld af einhverju tagi vilja framkvæma hlutina þannig.

Hæstv. menntmrh. sagði hins vegar í ræðu sinni áðan sem er ástæða til þess að þýfga hann aðeins nánar um: ,,Ef það verða sett skólagjöld, ef það verður tekin ákvörðun um skólagjöld í einhverjum skóla, þá verður Alþingi að taka ákvörðun um það.`` Ég spyr hann þá hvort hann er með þessu að segja að ef það á að leggja á skólagjöld, segjum t.d. í Tækniskólanum umfram það sem þar hefur verið gert til þessa, hvort þá þurfi sérstök pósitíf lagaákvæði um það. Ef það er skoðun ráðherrans þá þarf að setja það inn í lögin, þessi líka, vegna þess að hér stendur í þessu frv.: ,,Í sérlögum,`` --- allt í lagi með það --- ,,samþykktum eða skipulagsskrám``. Ef þarna stæði bara ,,í sérlögum``, þá dygði það. En af því að samþykktir og skipulagsskrár hvers háskóla eru teknar þarna inn þá tel ég að það sé ekki fullnægjandi að ganga svona frá þessu máli og þess vegna eigi ráðherrann, ef hann vill koma því á hreint sem hann er að reyna að segja hér, ef hann meinar það sem hann er að reyna að segja hér núna, þá ætti að orða þetta öðruvísi og taka algerlega af skarið um það að ef það á að leggja á skólagjöld í einstökum skólum, þá þurfi að taka það fram í sérlögum um viðkomandi skóla.

[24:00]

Ég teldi algjörlega fráleitt og ófullnægjandi miðað við hans eigin orð að ganga öðruvísi frá þessu.

Ég geri síðan ekki mikið með þessa ótrúlegu lögskýringu ráðherrans. Hún var nokkurn veginn þannig, herra forseti, að þar sem stjórnarandstaðan er á móti skólagjöldum og hefur nefnt þau hérna í ræðustólnum, að þá séu verulega líkur á því að andstaða stjórnarandstöðunnar verði til þess að skólagjöld verði lögð á. Þetta er mjög frumleg aðferð til þess að reyna að hafa áhrif á það að stjórnarandstaðan þegi vegna þess að ef hún gagnrýnir eitthvað þá sé hún í raun og veru að halda því fram að það sem hún er að gagnrýna verði þar með lögskýringargagn, af því hún gagnrýni það. Þessi uppsetning ráðherrans (Gripið fram í.) og útúrsnúningur á hlutverki stjórnarandstöðu er afskaplega hættuleg vegna þess að ég held, hvað sem menn segja um stjórnarandstöðu á hverjum tíma, að menn verði þó að viðurkenna að hún hefur væntanlega einhverja þýðingu þó ég taki eftir því að hún fer í taugarnar á hæstv. núv. menntmrh. þegar hann reynir að snúa út úr orðum okkar, og mínum m.a., eins og hann gerði hér áðan, þ.e. af því að ég er á móti skólagjöldum að þá sé ég í raun og veru að leggja til þann lögskýringargrunn að það megi leggja á skólagjöld. (Menntmrh.: Túlka það ...) Ótrúlegt! Og svo kallar hann fram í aftur og aftur: ,,Túlka það þannig, túlka það þannig.``

Hér er því um svo ótrúlega ómerkilega tilraun ráðherra að ræða til þess að koma höggi á stjórnarandstæðing að ég man varla eftir öðru eins. Ég vísa þessu algjörlega á bug sem fullkomlega óheiðarlegum málflutningi af hæstv. menntmrh.

Varðandi síðan önnur atriði, herra forseti, sem hér hafa komið fram í ræðu hæstv. ráðherra, þá ætla ég að víkja að því sem hann sagði um gildistökugreinina. Ég var ekki sáttur við það. Hér stendur með leyfi forseta:

,,Háskólar sem nú starfa samkvæmt sérstökum lögum skulu innan tveggja ára frá gildistökudegi að telja laga starfsemi sína að lögum þessum.``

Og hann sagði: ,,Þetta er í raun og veru tveggja ára gildistökuákvæði, sambærilegt við tíu ára gildistökuákvæðið í grunnskólalögunum eins og þau voru.`` (Menntmrh.: Nei.) Hann nefndi að ákveðin lög hefðu verið látin taka gildi á tíu árum og ég skildi hann þannig að hann væri að tala um grunnskólalögin, en þannig var það í þeim. (Menntmrh.: Ég var að tala um lögin frá 1974 um skólakerfi.) Já, um skólakerfi. (Menntmrh.: Það er rammalöggjöf.) Já, það er rammalöggjöf, en grunnskólalögin voru (Menntmrh.: Ég var ekki að tala um grunnskólalögin.) með gildistökuákvæði á tíu árum og munurinn á því ákvæði --- svo ég haldi mig við það --- og þessu var hver? Hann var sá að í grunnskólalögunum var það tiltekið ár fyrir ár hvað ætti að gerast. Í þessu frv. er ekki um það að ræða. Það er gert ráð fyrir því að á tveimur árum aðlagi skólarnir starfsemi sína að þessum ramma hér, á tveimur árum eins og þetta er sett upp, en það þýðir ekki það að sérlögin um viðkomandi skóla falli úr gildi eftir tvö ár. Það þýðir ekki það. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það er réttur skilningur hjá mér að þau haldi gildi sínu. (Menntmrh.: Að sjálfsögðu.) Af hverju spyr ég um þetta? Það er vegna þess að hæstv. ráðherra orðaði það svo hér í ræðu sinni áðan að ef nauðsyn krefði þá mundi Alþingi sjálfsagt verða tilbúið til að framlengja frestinn. En ef lögin standa og ef ekkert hefur verið gert með þetta ákvæði þá þarf út af fyrir sig ekki að framlengja frestinn. Það er alveg ljóst að sérlögin um viðkomandi skóla gilda. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Þetta er mikilvægt atriði fyrir Háskóla Íslands, þetta er mikilvægt atriði fyrir Tækniskólann, svo ég nefni dæmi og fleiri skóla, þ.e. að það sé algjörlega skýrt að þau lög sem nú eru í gildi þau halda gildi sínu að öllu þangað til Alþingi hefur sett önnur lög. Það er algjört úrslitamál að það sé skýrt og mér finnst mikilvægt að það er núna loksins komið fram. Ég vil hins vegar segja alveg eins og er að ég kann ekki að meta orðalag á síðari málslið ákvæðis til bráðabirgða eins og það lítur út og mundi vilja breyta því vegna þess að hér er ónákvæm uppsetning. Það er auðvitað ríkisstjórnin sem á að gera tillögur um breytingar á löggjöf. En það er ekki hægt að setja í löggjöf: ,,Á þeim tíma skal lokið við að endurskoða löggjöf ...`` Því þar með er verið að skipa Alþingi fyrir og það er ekki hægt að skipa Alþingi fyrir nema í stjórnarskránni. Þetta er klúðursorðalag hvað sem öllu öðru líður.

Ég tel að það sé einnig mikilvægt sem hér hefur komið fram, að þessi verslunarháskóli er settur á stofn á grundvelli fjárreiðulaganna og ég tel að það sé líka mikilvægt að gögnin um hann verði tekin til athugunar í hv. menntmn. vegna þess að nauðsynlegt er að skoða þau með hliðsjón af því frv. að löggjöf sem hér liggur fyrir. Ég vil bæta því við að ég tel að því er varðar skólagjöldin, og aðeins koma að því aftur, að skýringar ráðherrans séu ófullnægjandi, t.d. að það þurfi að vera þetta orðalag: ,,... út af mögulegum sértekjum fyrir endurmenntun.`` Það átti bara að skrifa það inn í textann. Það er greinilegt að verið er að reyna að setja miklu fleiri atriði inn í þessa texta en í rauninni er hægt. Það er verið að fara hér yfir mun víðara svið en hægt er að orða í svona almennum texta. Þess vegna hallast ég að því að sú aðferð sem er í norsku háskólalögunum sem ég hljóp aðeins yfir fyrr í kvöld sé miklu skynsamlegri, þ.e. að reyna að fara yfir þessa hluti nákvæmar eftir skólum en hér er gert. Þess vegna dugir mér ekki að ástæðan fyrir orðalaginu sé sú að opna þurfi fyrir sértekjutöku vegna endurmenntunar. Mér finnst að það hefði átt að skrifa þetta öðruvísi. En auðvitað erum við ekki spurð að þessu. Það er ekki venjan hér í þessari stofnun, sérstaklega ekki eftir að Sjálfstfl. fór að ráða eins miklu og hann gerir í dag og er svo bólginn af sigrum í skoðanakönnunum að hann telur sig nú ekki þurfa að hlusta mikið á okkur hér þessa stjórnarandstæðinga, enda gerir hann það ekki. Þeir eru aldrei kallaðir til, ekki til samráðs á undirbúningsstigi og helst ekki í þinginu heldur. Út af fyrir sig er því kannski algjörlega þarflaust að vera að halda hér nokkrar ræður vegna þess að það er ekki hlustað mikið á þær satt best að segja. En það er engu að síður skylda okkar að reyna það og því held ég áfram.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um að ekki hefði verið reynt að knýja frv. fram sl. vor, þá veit ég að það var reynt. Það var ekki ráðherranum að þakka heldur stjórnarandstöðunni að tókst að stöðva það að þetta frv. yrði að lögum í vor í blóra og andstöðu við alla háskólana í landinu sem báðu sér griða og báðust undan því að þetta mál yrði afgreitt eins og það lá fyrir. Það átti að knýja það hér í gegn.

Þessi atriði vildi ég nefna, herra forseti, fyrst og fremst til að undirstrika að ég er í grundvallaratriðum ósammála hæstv. menntmrh. um að tilgangur stjórnmálamanna sé sá að verja sín eigin völd. Ég hef ekki þá skoðun að það sé okkar meginverkefni. Ég tel að það sé reyndar þvert á móti höfuðverkefni stjórnmálamanna að reyna að fara vel með það vald sem þeim er falið með þjóðinni en ekki yfir henni eins og mér finnst vera gríðarleg tilhneiging til að gera í þessu frv. og hefur ekki verið hrakið í þeim umræðum sem hér hafa farið fram.