1997-12-16 11:16:53# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[11:16]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrrh. fyrir framsögu í málinu og ég vil þakka umræðuna um niðurstöðuna, bókunina eða áfangann í Kyoto.

Við Íslendingar verðum að leggja mikið á okkur til að geta undirritað samkomulagið á næsta ári eða innan tveggja ára. Ég þakka fyrir góða og gagnlega yfirferð málsins á sameiginlegum fundi umhvn. og utanrmn. með embættismönnum sem fóru fyrir okkur sem sendinefnd til Kyoto.

Loftslagsbreytingar eiga sér engin landamæri. Mengun sem kemur upp einhvers staðar berst um allan heim þó svo að smám saman dragi úr áhrifum eftir því sem upphafsstaður er fjarlægari. Það er nauðsyn að gera hvert og eitt land ábyrgt fyrir mengun sinni. En ekki er víst að allir geri sér ljóst hve slæm áhrif mannkynið hefur á loftslagsbreytingar sem nú þegar eru farnar að ógna íbúum í ýmsum heimshlutum. Það er nauðsyn að fræðslu og upplýsingum verði komið til þjóðarinnar um hvað er að gerast. Ríkisstjórnin verður að beita sér sérstaklega fyrir kynningu þessara mála. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að Ísland mun eiga stranga göngu fyrir höndum til að ná tilsettum árangri.

Í hverju birtist svo þessi ógn sem ég er að ræða um? Hún birtist m.a. í því að hitastig hefur hækkað um 0,3--0,6 gráður á síðustu 100 árum og þar af 1,5--3 gráður á síðustu 20 árum. Hver er afleiðingin? M.a. versna skilyrði til ræktunar sums staðar í heiminum vegna þurrka, annars staðar vegna óvenjumikillar úrkomu með þeirri afleiðingu að uppskerubrestur og skortur blasir við.

Hvað er að gerast, herra forseti? Jú, loftslagsbreytingarnar leiða til hækkunar yfirborðs sjávar um 1,5 mm á ári, 15 sm á 100 árum. Þessi niðurstaða vísindamanna er svo alvarleg að það verður að grípa til allra mögulegra ráða til að hafa áhrif í öfuga átt. Það verður að segja það eins og er að hröðun í þessum efnum er alveg gífurleg á síðustu 20 árum. Ógn af völdum eiturefna í umhverfinu er skelfileg ef grannt er skoðað, t.d. finnast DDT-eiturefni og fleiri enn hættulegri svo sem PCB-eiturefni neðst í lífkeðjunni og fara upp eftir henni allri og enda hjá manninum með t.d. þeim afleiðingum, sem er staðreynd, að hæfileiki mannkyns til fjölgunar fer minnkandi, lýsir sér m.a. í því að um er að ræða fækkun sæðisfrumna, og um er að ræða vansköpun í lífkeðjunni frá frumverum til mannsins. Hér er um mjög alvarlegar staðreyndir að ræða. Þetta er ekki mitt hugflæði heldur er þetta niðurstaða þekktustu vísindamanna á sviði umhverfismála í heiminum í dag. Þess vegna er umræðan þörf. Krafan er sú að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir aðgerðum, fræðslu og kynningu á umhverfismálum, ástandi og horfum á því sem leitt getur til bóta frá núverandi kringumstæðum.

Herra forseti. Ástæða er til að velta því fyrir sér hvernig mál hafa þróast á Íslandi. Ég nefndi fyrir skömmu síðan í ræðu um byggðamál að menn hefðu bara horft á þróunina sem hefur verið í vöruflutningum innan lands. Ég vek athygli á því að ákvörðun risanna í vöruflutningum hefur þau áhrif að mengun af völdum koltvíildis hefur aukist gífurlega fyrir utan slit veganna sem skapar mengun. Það er því rétt að varpa fram eftirfarandi spurningum: Er rétt að skoða tæknibreytingar á þessu flutningasviði? Hversu mikla aukingu er um að ræða? Hvert er aukið slit veganna vegna þess að risarnir eru komnir út á vegina? Getur það verið að eitt tröll á vegunum samsvari sliti 4.000 smábifreiða? Getur það verið? Ég óska eftir að menn skoði það. Hverjar eru þær aðgerðir sem við verðum að grípa til?

Herra forseti. Ég má til með að nefna: Ætla menn að skoða þá þáltill. sem undirritaður hefur barist fyrir í meira en fjögur ár og varðar brennsluhvata sem leiða sannanlega til minni eldsneytiseyðslu, bæði bifreiðaflotans og einnig skipa á sjó og minnkar þar með mengun? Ég bendi á grein í Morgunblaðinu eftir Ævar Jóhannesson þar sem bent er á að hvarfakútarnir, sem ég hef rætt um í mörgum ræðum, skapa eftir 15.000 km notkun 6--8% aukningu mengunar. Samt er þetta skilyrði til þess að fá að flytja inn bifreiðar að þessir hvarfakútar séu í þeim. Ég trúi ekki öðru en að þetta mál verði skoðað í framhaldi af ábendingu minni.

Hvað með olíukyndingu í síldar- og loðnuverksmiðjum? Því ekki raforku þar sem það er unnt og það er auðvelt? Hvað með samgöngulínu yfir hálendið, t.d. með raflest sem gæti flutt flutningabifreiðar þvert yfir landið? Og hvað með raflest til Suðurnesja? Ég spyr sjálfan mig og aðra um möguleika þess að gera átak í þessum efnum sem ég hef nefnt. En hvert eigum við að líta varðandi nýtingu okkar á íslensku orkunni? Hvert eigum við að horfa? Hvers vegna eigum við að gera þessa hluti? Eigum við að selja orku um sæstreng? Ég hygg að á síðustu mánuðum og vikum hafi menn orðið jákvæðari gagnvart þeirri hugmynd að nýta orku okkar á þann hátt að selja hana með sæstreng til annarra landa. Eigum við að gera það þannig? Njótum við þess ef við seljum endurnýjanlega orku til Evrópu eða fá þau lönd sem taka upp orkunotkun frá Íslandi allan mengunarávinninginn? Erum við samábyrg fyrir menguninni eða verður hvert land, eins og ég sagði í upphafi, að bera ábyrgð á sinni mengun?

Ég veit ekki hvort menn hafa gert sér grein fyrir því að sú tækni sem er í málmiðnaði með notkun hlífðargassuðu, sem er kolsýra notuð við samsetningu málmhluta, skapar verulega mengun. Hafa menn velt því fyrir sér að þar eru líka möguleikar til að skera á? Hvað með allan einmenningsaksturinn í allt of stórum bílum með allt of eyðslufrekar vélar? Þá verður mér litið til flota jeppabifreiða sem eru a.m.k. einu sinni á ári saman komnar fyrir utan hina ýmsu staði þegar um er að ræða einhver stór þing. Ég velti því fyrir mér hvernig á að koma í veg fyrir það að menn noti þessar stóru bifreiðar. Það er kannski ástæða til þess að geta þess að sá sem hér talar notar almenningsvagna í 70% af sínum ferðum um Reykjavík. Það væri betur ef því væri svo farið um aðra hv. þm. Við verðum líka að gera hluti í okkar eigin ranni til þess að bæta úr því ástandi sem er. Við getum ekki bara horft til annarra. Það verður, hæstv. forseti, að grípa til allra tiltækra ráða á næstu mánuðum svo við getum nýtt þá mengunarlausu orku sem við eigum á sem skynsamlegastan máta. Ég veit ekki hvort hv. alþm. hafa tekið eftir því að það er orðinn möguleiki á að binda koltvísýring í steinsteypu. Vita menn að nú er orðinn möguleiki á að eyða koltvísýringi með því að búa til steinsteypueiningar og nota til húsbygginga? Ég hygg að ýmsir hafi ekki fylgst með því sem er að gerast í þessum efnum. Þessa möguleika verðum við að nýta og nota.

Ég vil að lokum, herra forseti, minna aftur á þá þáltill. sem ég hef hvað eftir annað flutt á hv. Alþingi varðandi notkun brennsluhvata. Það varð sátt um það mál á síðasta þingi að hæstv. umhvrh. og hæstv. iðnrh. mundu beita sér fyrir því að sú úttekt, sem alltaf hefur verið beðið um, yrði gerð. Hún kostar kannski ekki nema 1,5 milljónir ef hún yrði framkvæmd. Það getur verið um að ræða, og ég bið hv. þm. að taka eftir því, 3--5 % minnkun losunar þessara snefilefna út í loftið ef menn grípa til notkunar þessa tækis og ég tala ekki um ef menn losa sig við hvarfakútana úr bílunum. Hvarfakútarnir eru aðeins ætlaðir í stórborgir þar sem miklar vegalengdir eru. Í borg eins og Reykjavík er hvarfakúturinn ekki orðinn virkur á leiðinni frá Ártúnshöfða og t.d. hingað að Alþingishúsi. Hann skapar aðeins aukna eldsneytisnotkun sem nemur einhvers staðar í kringum 10%. Ég dreg í efa að menn hafi skoðað þá hluti að hvarfakúturinn er ekki virkur fyrr en vélin er komin í vinnsluhita og það þarf þann tíma og þá vegalengd sem ég nefndi hér. Þetta eru atriði, herra forseti, sem ég vil benda á og ég er þegar búinn að benda á marga möguleika til að minnka mengun en ég sé ekki fyrir mér að það gerist á skemmri tíma en 5--10 árum. Þess vegna verðum við að taka alvarlega á ef við ætlum að geta undirritað þann samning eða þá bókun sem liggur fyrir eftir Kyoto-ráðstefnuna.