1997-12-16 12:29:03# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:29]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld hafa allt frá árinu 1995 tekið virkan þátt í samningaviðræðum sem miða að því að styrkja ákvæði rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Í þeirri samvinnu hefur áherslan verið lögð á sérstöðu landsins svo sem mikla notkun hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa. Að mínu mati er þetta algjört grundvallaratriði. Ísland reynir ekki að fría sig ábyrgð þegar þjóðir heims leita leiða til að bregðast við þeirri vá sem fyrir dyrum er ef ekki verður tekið á málum. En hvers vegna er Ísland þá að skera sig úr og óska eftir að tillit verði tekið til sérstakra aðstæðna hér á landi?

Ekki er ólíklegt að ýmsum hafi fundist dapurlegt að sjá súlurit í fréttum sjónvarpsins sem gaf það til kynna að við ætluðum að fá að menga mest.

[12:30]

Hið rétta var að við viljum fá að bæta hlutfallslega mestum útblæstri gróðurhúsalofttegunda við þegar tekið er til stöðunnar eins og hún er í dag en hlutfallstölur segja svo sáralítið í þessum efnum eins og hér hefur komið fram. Það verður að taka tillit til þess að þjóðirnar standa mjög misvel að vígi þegar kúrsinn er tekinn, þegar viðmiðunarárið er ákveðið, þ.e. árið 1990. Við höfðum t.d. lagt af olíuupphitun á húsum á þeim tíma.

Útstreymi koldíoxíðs á hvern íbúa á Íslandi var um 8,5 tonn á íbúa árið 1995 en var um 12 tonn á íbúa að meðaltali í ríkjum OECD. Þetta er nokkuð mikið magn en skýringin er fyrst og fremst sú að við erum fámenn þjóð í stóru landi og því er, eins og hér hefur komið fram, þriðjungur magnsins vegna innanlandssamgangna. Auk þess er þriðjungur magnsins vegna fiskveiða. Sú mengun á þessu sviði sem kemur til vegna iðnaðar er innan við fimmti hluti magnsins en miðað við umræðurnar á hv. Alþingi og í þjóðfélaginu mætti halda að vandamálið væri einskorðað við stóriðju.

Það er mikilvægt að hafa í huga í þessu sambandi að 2/3 hlutar af heildarorkuframleiðslu Íslendinga og um 95% af staðbundinni orkuframleiðslu kemur frá hreinum og endurnýjanlegum orkulindum. Í þessu felst sérstaða okkar. Það er augljóst að lítil þjóð sem hefur þessa stöðu þegar viðmiðunarlínan er sett getur ekkert annað gert en að fara fram á að sérstaða hennar sé viðurkennd enda gerðu íslensk stjórnvöld það og höfðu nokkurn árangur.

Ég vil við þetta tækifæri rifja upp þá yfirlýsingu sem fyrrv. umhvrh., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, gaf um þá fyrirvara sem settir voru af hálfu stjórnvalda fyrir ráðstefnuna í Kyoto. Hann sagði að þeir yrðu hlegnir út af borðinu. Það er full ástæða til að nefna þetta við umræðuma þar sem um fyrrv. umhvrh. er að ræða. Það kvað hins vegar við nýjan tón hjá hv. þm. í leiðara DV í gær eftir að ljóst var að Íslendingar höfðu átt erindi sem erfiði. Þar sagði hv. þm.: ,,Það er kórrangt að sérstaða Íslands hafi ekki verið metin á fundinum í Kyoto.`` Fljótt skipast veður í lofti.

Ástæða hefði verið til þess að gera fleiri leiðara DV að umtalsefni við þessa umræðu en ég geri það ekki þar sem það eru takmörk fyrir því hvað telst svara vert. Ég vil hins vegar halda því fram að sérstaða Íslands hafi ekki verið metin sem skyldi enn sem komið er en sú vinna er ekki unnin til enda og við trúum því að það muni takast með stuðningi okkar helstu samstarfsþjóða að stíga þar stærra skref, ekki síst vegna þess að stóriðja á Íslandi tryggir lágmarksútstreymi gróðurhúsaloftteguna. Það er athyglisvert að hugsa til þess að ef álverið í Straumsvík væri knúið orku framleiddri frá kolum mundi það valda gróðurhúsaáhrifum á við öll þau gróðurhúsaáhrif sem við Íslendingar völdum.

Þeir stjórnmálamenn sem viðurkenna ekki sérstöðu Íslands og vilja að Ísland fylgi fjöldanum og gangist undir nánast hvað sem er hvað varðar samninginn um loftslagsbreytingar eru að mínu mati ekki að horfa á málið út frá heildarhagsmunum Íslendinga. Þeir vilja nýta sér aðstæður sem eru komnar upp í heiminum til þess að koma í veg fyrir að fleiri stóriðjuver verði reist á Íslandi. Það er sjónarmið út af fyrir sig en þeim er ég ósammála. Við hljótum að vilja nýta þá auðlind sem landið gefur okkur, orkuna til atvinnusköpunar þó svo að sjálfsögðu séu takmörk fyrir því hversu langt skuli gengið í uppbyggingu orkufreks iðnaðar, ekki síst vegna mikilvægis miðhálendis landsins út frá umhverfissjónarmiðum.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég þakka fyrir umræðuna. Ég þakka íslensku sendinefndinni í Kyoto fyrir góða frammistöðu. Við erum hér að fjalla um mikilvægt mál. Íslensk stjórnvöld eru fullkomlega meðvituð um það.