1997-12-16 12:39:50# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), HG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:39]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þetta eru athyglisverðar umræður og þær eru sannarlega tímabærar á Alþingi Íslendinga. Að sjálfsögðu verður að ræða þessi mál áfram enda gerist það nánast af sjálfu sér. Niðurstöður samningsins til viðbótar við samninginn í Kyoto munu hafa varanleg áhrif á stöðu okkar eins og annarra þjóða og verða því á dagskrá sama hvort menn eru að ræða umhverfismál í almennu samhengi eða afleiðingarnar og áhrif á efnahagsmál. Þetta er vegna þess að þarna tókst niðurstaða og það sem stendur að sjálfsögðu upp úr í málinu er að samkomulag náðist um þessi efni á alþjóðamælikvarða og því getum við rætt málin á þessum grunni.

Hér hafa enn ekki komið svör af hálfu hæstv. ráðherra um það hvort Ísland ætlar að verða þátttakandi, hvort það er markmiðið að við ætlum að verða þátttakendur, hvort við ætlum þar með að verða trúverðug í viðleitni okkar til þess að hafa áhrif á þróun þess samnings sem flest ríki heims settu fangamark sitt undir eða gáfu yfirlýsingu um í lok Kyoto-ráðstefnunnar að þau ætluðu að verða þátttakendur í. Við verðum að átta okkur á því að siðferðilega getum við ekki verið að gera kröfur og það sérkröfur af Íslands hálfu ef við ætlum okkur síðan eftir á, eftir að við höfum hugsanlega náð þar einhverju fram, að skerast úr leik. Slík afstaða, slík málsmeðferð stenst engan mælikvarða og gengur ekki upp.

Það er, virðulegur forseti, mjög athyglisvert að heyra hvernig einstakir þingmenn flytja mál sitt og ég ætla ekki að fara langt út í þau efni. En þegar stjórnarliðar eru að tala og tíunda tölur sem þeir eru fóðraðir á ofan úr ráðuneytum, þá er það vissulega athyglisvert. Hér er komið fram með tölu sem hefur ekki verið tengd þessum umræðum áður og ein af þessum uppfinningum til þess að leiða fram einhverja geysilega sérstöðu Íslendinga og það er að við losum svo lítið á orkueiningu. Hafið þið heyrt þetta? Eins og var nefnt af hæstv. iðnrh., þetta var tuggið upp af öðrum þingmönnum sem rök í málinu. Hvaða rök eru þetta? Íslendingar eru með þeim fremstu hvað snertir orkunotkun á íbúa. Þannig er málið. Þannig að miðað við þá stöðu og þá miklu hlutfallslegu stóriðju í landinu í orkubúskap okkar þarf engan að undra að hægt sé að fá slíka útkomu en það skiptir nákvæmlega engu máli í samhengi samningsins.

Síðan er ekki farið rétt með þegar verið er að tíunda hina margrómuðu sérstöðu Íslands og það ekki einu sinni af hæstv. iðnrh. sem ætti að hafa kynnt sér málið. Það er talað um að Íslendingar losi 40% minna en önnur OECD-ríki. Í skýrslu hæstv. umhvrh. er þessi tala 30%. En það er búið að bæta þarna við. Hvað segir sú tala, sú meðaltalstala fyrir OECD-ríkin sem er dregin upp af Bandaríkjunum fyrst og fremst, sem eru með nærri 20 tonn á íbúa þegar við losum 8,6 miðað við árið 1995? Hún segir ekki mikið. Losun Íslendinga er um það bil sama og meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins. Það geta menn lesið í skýrslu hæstv. umhvrh. á bls. 10. Útstreymið er nálægt því hið sama og er að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Sérstaðan er ekki meiri en það varðandi þetta efni og ég held, virðulegur forseti, að menn eigi að reyna að losa sig út úr viðjum sérstöðuumræðunnar og fara að snúa sér að viðfangsefninu hvernig Íslendingar geta uppfyllt þau skilyrði sem okkur eru sett í aðalatriðum samkomulagsins og að íslenska ríkisstjórnin undirriti samninginn, staðfesti samninginn og hafi þar ekki minni metnað en ríkisstjórnin sem sat 1992 þegar Ríó-ráðstefnan fór fram og Íslendingar voru held ég fimmta þjóðin til þess að staðfesta þann samning sem bókunin er reist á.

Virðulegur forseti. Ég hvet til þess að menn sýni raunsæi í þessum efnum, að menn átti sig á stöðu okkar meðal þjóða. Við getum ekki gengið áfram eins og reynt hefur verið að gera og klifað sífellt á sérstöðu á sérstöðu ofan til þess að skapa hér rúm fyrir stóriðju og það er hörmulegt til þess að vita að talsmenn stjórnarliða, formaður þingflokks Framsfl., minnist ekki á önnur atriði en stóriðjuna. Það er það eina sem þeir bera fyrir brjósti. Svigrúm fyrir sjávarútveginn og aðra atvinnuvegi er ekki ofarlega í hugum þessara þingmanna.