1997-12-16 12:45:39# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:45]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Þetta eru vissulega athyglisverðar umræður eins og fram hefur komið. Ég hjó eftir því hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að hún talaði um það að umræðan væri sjálfhverf og hvort við værum ekki óróleg, hvort við værum ekki hrædd. Ég held að svarið við því sé einfalt að við erum öll óróleg, annars færi umræðan ekki fram. En hún féll sjálf í þessa sjálfhverfu gryfju, hún fór að kvarta yfir því að í samningnum væri ekki gert ráð fyrir stækkun Ísals, ekki gert ráð fyrir magnesíum, ekki gert ráð fyrir Keilisnesi og ekki gert ráð fyrir Norsk Hydro. Ef hún ætlast til þess að tekið sé sérstaklega tillit til þessara aðstæðna í samningnum þá á hún að hvetja til þess en ekki gagnrýna umræðuna fyrir það hversu sjálfhverf hún er, að menn séu að leita að undanþágu og fyrir það að menn séu þá ekki nægjanlega hræddir eða nægjanlega órólegir. Það er þversögn í þessu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um það hversu mikið við menguðum, hversu slæmt ástand væri í sorpförgun, hversu slæmt ástand væri í holræsamálum og hversu slæmt ástand væri í gróðureyðingu. Vafalaust er heilmikið til í þessu hjá hv. þm. en það skýtur svolítið skökku við að einmitt hann skuli hefja máls á þessu því að enginn flokkur hefur farið eins lengi með völd í hæstv. umhvrn. og Alþfl., flokkur hv. þm. Með þessu er ég alls ekki að segja að það sé þeim hæstv. ráðherrum sem þar sátu að kenna eða þeir hafi ekki gert nægjanlega mikið, síður en svo. En þar heggur sá er hlífa skyldi.

Hann nefndi einnig skýrslu hæstv. iðnrh. um áætlanir um aukna stóriðju á Íslandi og hann telur að þær muni auka losunina um 100%. Hann kann áreiðanlega vel að reikna og ég ætla ekkert að efast um tölurnar. En ég held að hv. þingmenn Alþfl. ættu að vita manna best að fyrirætlanir í stóriðju eru ekki endilega það sem gerist nákvæmlega þegar menn sjálfir vilja og ætla því að reynslan er sú að stóriðjan hefur ekki komið fljúgandi upp í fangið á okkur. Við höfum þurft að hafa fyrir því að ná í hana. Reynslan er sú að það er tæplega ein stóriðjuframkvæmd á áratug eða alla vega á áratug frá því að það hófst eða svona nokkurn veginn á mínum lífstíma. Ein á árunum milli 1960 og 1970, ein á milli 1970 og 1980, engin á milli 1980 og 1990 og svo ein núna á þessum áratug. Ég ætla að vona að okkur takist að nýta hreina orku okkar betur í framtíðinni og það verði okkur og heildinni til hagsbóta en við þurfum auðvitað að fá einhverjar tilslakanir til þess að það verði og það verður að byggjast á því að við náum annars staðar árangri í minnkun og losun og að um sé að ræða framkvæmdir sem nái heildarárangri.

Ég nefndi áðan í fyrri ræðu minni hvað við gætum gert til að standast þær áætlanir um losun sem sést hafa fram til ársins 2010 og þar nefndi ég að við gætum tvöfaldað áform okkar um bindingu á kolefni í gróðri. Þar var ég mjög hógvær í því að meta það hvað við ættum mikla möguleika á bindingu. (Gripið fram í.) Möguleikar í bindingu í nytjaskógrækt ef við færum út í það að binda nytjaskógrækt í öllu því landi sem menn hafa talið að hægt væri að nota til skógræktar, það væri binding á ári upp á meira en öll losun íslensku þjóðarinnar er í dag. Ég er ekki að segja að þetta sé framkvæmanlegt í dag en ég er að benda á að þarna eru möguleikar okkar inn í framtíðina.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði lítið úr því að hér væri lítil losun á orkueiningu. Þetta voru ekki tölur sem ég nefndi en þetta eru tölur sem hljóta að skipta máli því að það er ljóst að þjóðarframleiðsla hjá þjóðum heims stendur í beinu hlutfalli við orkunotkun og vegna þess að við notum mikla orku erum við með háa þjóðarframleiðslu samkvæmt þeirri kenningu. Þess vegna hlýtur að skipta máli ef notkun á orku leiðir til lítillar losunar, ef framleiðslan miðað við orkueiningu er mikil með lítilli losun af því að þá er hagkvæmt út frá koltvíoxíðsbókhaldinu að framleiða þær vörur sem þjóðir heimsins þurfa í þeim löndum sem losa lítið fyrir orkueiningu og nota þar með hreina orku.