Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 14:43:34 (2373)

1997-12-16 14:43:34# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[14:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er gott að auka tekjur ríkissjóðs og ekki vil ég verða til þess að minna komi inn til hæstv. fjmrh. Hins vegar snýst þetta mál ekki um það hvort skatttekjur verða eitthvað hærri eða lægri. Það er erfitt að meta. Fyrst og fremst er verið að leggja til ákveðna útfærslu sem skattaleg rök eru fyrir. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni.

Ég bendi hins vegar á að það eru álitamál sem vakna við lögfestingu þessa frv. sem tengjast eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég vitnaði í sömu grein og hæstv. fjmrh. varðandi atvinnuréttindin. Það þarf að vera alveg ljóst, fyrst við erum að lögfesta viðskipti milli útgerðarmanna með veiðiheimildir og erum þar með að búa til skattalega umgjörð, að við verðum að tryggja ótvíræða réttarstöðu þeirra sem viðskiptin eiga. Þetta snýr ekki síður að kaupanda veiðiheimildanna og hvort hann sé að kaupa þá veiðiheimildir sem í einhverjum skilningi séu þá stjórnarskrárvarin. Það veit ég ekki. Ég óska hins vegar eftir því að á frv. þetta verði lagt mat. Við höfum oft rætt þetta áður, t.d. í sambandi við veðsetningar veiðiheimilda. Málið er erfitt og við eigum ekki að hrapa að því. Það er ekki tekjuspursmál fyrir ríkissjóð þannig að reka þurfi á eftir lögfestingu málsins í þessari viku. Þingstörfum á að ljúka á laugardaginn. Ég heiti samvinnu minni við afgreiðslu þessa máls en bendi hins vegar á að menn ættu að skoða þetta í einhverri alvöru og fá bæra menn til þess að leggja mat á álitaefni sem hér eru uppi og skoða afleiðingar málsins. Þar fyrir utan er frv. sjálft býsna flókið, t.d. eru rúmlestaheimildir sem eru settar inn í fyrningarreglur skipa tilefni til langrar umræðu. Til þess er enginn tími en málið er alls ekki einfalt, burt séð frá þessari stóru spurningu sem ég vakti upp um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.