Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 14:45:52 (2374)

1997-12-16 14:45:52# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[14:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki vegna þess að ég telji þá umræðu sem hv. þm. nefnir hér til sögunnar þess eðlis að það eigi ekki að hefja hana eða halda henni áfram, það finnst mér alveg sjálfsagt. En ég sé ekki að hún þurfi með nokkrum hætti að tefja framgang þessa frv. Hér er um að tefla réttindi sem fremur aukast en minnka eins og hv. þm. rökstuddi ágætlega í ræðu sinni. Ég minni á að í 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna er fyrirvari og allir fræðimenn sem hafa fjallað um þetta eru sammála um að sá fyrirvari er nægilegur til þess að breyta megi fyrirkomulaginu hvenær sem er án bóta skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og þetta mál hleypur ekki frá okkur. Vegna þess að minnst var á rúmmálsréttindi tók ég það fram í framsöguræðu minni að þetta var gert af hagkvæmnisástæðum. Það er erfitt að gera mun á skipsstærðinni og þeim rétti sem felst í veiðiréttinum, í rúmmálsréttinum þegar menn endurnýja sérstaklega skip en það kemur hugsanlega einhvern tíma að því að menn gætu haft aðra afstöðu til málsins. Ég held að það sé langsamlega eðlilegast að nálgast málið þannig að menn reyni að afgreiða frv. á næstu dögum. Það er ekkert sem mælir gegn því. Víðtæk samstaða er um málið en jafnframt séu menn vakandi fyrir því sem hv. þm. sagði sem er auðvitað mál sem við þurfum að ræða og eigum að ræða og það er um það að hve miklu leyti 72. gr. stjórnarskrárinnar ver eignarréttindi eða jafnvel atvinnuréttindi þannig að aðilar séu bótaskyldir ef þau réttindi skerðast.